17. apríl 2024
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Fannars Arnar Arnarssonar sjóðstjóra hjá Akta í tengslum við umfjöllun sína um nýlega fjármálaáætlun.
Við fyrstu sýn er ekki hægt að segja að tiltrú fjárfesta á að ríkið sé að styðja við peningastefnu Seðlabankans muni aukast við þessa fjármálaáætlun, segir sjóðstjóri skuldabréfa sem telur að það gæti farið svo beðið verði með að lækka stýrivexti fram á næsta ár í ljósi þess hve lítið aðhald er í ríkisfjármálum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í gær fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029. Halli verður á rekstri ríkissjóðs á næstu þremur árum; hann verður 49 milljarðar í ár en dregst saman í níu milljarða árið 2027. Árið 2028 er stefnt á þriggja milljarða afgang á rekstri ríkissjóðs. Áður var gert ráð fyrir því að hallinn í ár yrði 48 milljarðar króna en það yrði fjögurra milljarða afgangur árið 2028.
Samkvæmt kynningu á áætluninni nema útgjöld í ár vegna aðgerða vegna Grindavíkur 17 milljörðum króna og tólf milljarða til að liðka fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði með auknum stuðningi við heimili.
„Því miður tel ég að ríkisstjórnin hafi undanfarin ár tapað mikið af trúverðugleika sínum meðal fjárfesta með ítrekuðum yfirlýsingum um aukið aðhald sem hefur síðan aðeins raungerst í mýflugumynd. Ég þekki ekki þessar hagfræðikenningar sem að ríkisstjórnin styðst við sem lætur hana halda að hún sé að styðja við peningastefnuna með þessum stöðuga hallarekstri í uppsveiflu,“ segir Fannar Örn Arnarsson, sjóðstjóri innlendra skuldabréfasjóða Akta, í samtali við Innherja.
Hann bendir á að verðbólgan hafi verið yfir markmiði, en það er 2,5 prósent, í fjögur ár og að ríkið að hafi verið rekið með halla yfir allt það tímabil óháð hvar í hagsveiflunni landið sé. „Samkvæmt fjármálaáætlun er síðan stefnt að því að reka ríkið með halla næstu fimm ár í viðbót. Þetta er auðvitað áhyggjuefni og maður óttast, því miður, að vaxtalækkanir gætu þurft að bíða allavega fram á næsta ár fyrst aðhaldið er ekki meira.“
Verðbólga mældist 6,8 prósent í mars en var 10,2 prósent í febrúar á síðasta ári. Í nýrri skammtímaspá Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er áætlað að verðbólgan muni lækka lítillega á árinu og verði að meðaltali um 5,6 prósent. Spáin leit dagsins ljós áður en fjármálaáætlun var kynnt.
Stýrivextir eru 9,25 prósent. Hinn 20. mars hélt Peningastefnunefnd Seðlabankans vöxtum óbreyttum fjórða fundinn í röð. „Undirliggjandi verðbólga hefur einnig hjaðnað en er líkt og mæld verðbólga enn vel yfir verðbólgumarkmiði. Verðbólguvæntingar eru einnig yfir markmiði sem gæti bent til þess að verðbólga verði áfram þrálát,“ sagði í yfirlýsingu hennar.
Í fjármálaáætlun eru boðaðar ýmsar sértækar aðgerðir til að draga úr útgjaldavexti en áætlað er að aðgerðir vegna nýgerðra kjarasamning a kosti 13 til 23 milljarða á ári. Það á til dæmis að fresta eða fella niður verkefni sem ekki eru hafin. Fresta á nýrri viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið og einnig byggingu húss viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu fram yfir lok tímabilsins. Endurskoða á forsendur og fjárveitingar vegna kerfislægs vaxtar. Stefnt er á sameiningu og fækkun stofnana eða útvistun verkefna
„Það eru umtalsverðar eignir á efnahagsreikningi ríkissjóðs sem eru tækifæri til að nýta mun betur. Ríkissjóður er eigandi að 47 félögum sem höfðu samtals um þúsund milljarða í eigið fé í árslok 2022. Ríkissjóður er eigandi að um 900 fasteignum með heildarfermetrafjölda upp á 950 þúsund fermetra og ríflega 400 jörðum. Bókfært virði þessara eigna er um 312 milljarðar. Til viðbótar á ríkissjóður talsvert af lóðum, spildum og auðlindum víðs vegar um landið,“ sagði Sigurður Ingi þegar fjármálaætlun var kynnt. Sjónum yrði einkum beint að þróunarreitum sem tilheyri ríkinu.
Hann vakti athygli á að verðmætustu reitir undir íbúðabyggð væru til dæmis Keldnaland, Borgartúnsreitur, Laugarnesreitur, Seljavegur og fleiri. Samhliða myndi lóðaframboð aukast og uppbygging íbúðahúsnæðis verði auðveldari.
12. mars 2024
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Fannars Arnar Arnarssonar sjóðstjóra hjá Akta í tengslum við umfjöllun sína um nýgerða kjarasamninga.
Bið á vaxtalækkun meðan óvissa er um fjármögnun á kjarapakka stjórnvalda
Nýgerðir samningar á almennum vinnumarkaði fela í sér launahækkanir við neðri mörk þess sem sést hefur í kjarasamningum síðustu fimmtán ár og lengd þeirra ætti að minnka verðbólguáhættu og auka fyrirsjáanleika, að mati viðmælenda Innherja á fjármálamarkaði, en ólíkar skoðanir eru um áhrifin á verðbólguhorfur. Miklu máli skiptir fyrir vaxtalækkunarferlið að stjórnvöld skýri hvernig þau hyggjast fjármagna tugmilljarða útgjaldaaðgerðir sínar sem eru „óhjákvæmilega“ sagðar vera eftirspurnarhvetjandi.
„Það sem er jákvætt við kjarasamningana er að nú sjáum við fram á frið á vinnumarkaði til lengri tíma og fyrirtæki og almenningur geta gert áætlanir út frá forsendum samninganna,“ segir Gunnar Örn Erlingsson, skuldabréfamiðlari hjá Arion banka, í samtali við Innherja.
Hann segir að það sé jákvætt að fastlega megi gera ráð fyrir að kjarasamningarnar sem voru undirritaðir fyrir helgi milli SA og breiðfylkingar stéttarfélaga – SGS, Eflingu og Samiðn – verði fyrirmynd annarra samninga á vinnumarkaði en strax í kjölfarið kláruðust sömuleiðis samningar við fagfélögin á sömu nótum. „Samningarnir virðast hagfelldir bæði verkalýðsfélögum og atvinnurekendum,“ útskýrir Gunnar Örn, og bætir við:
„Hið opinbera virðist ætla að bera stærstan hluta af þeim kostnaði sem fylgir samningunum. Myndi því halda að þeir ættu að vera mjög góðir fyrir hlutabréfamarkaðinn.“
Kjarasamningarnir á almennum vinnumarkaði eru til fjögurra ára. Lágmarkshækkun launa á hverju samningsári er 23.750 krónur en almennt hækka laun um 3,25 prósent á þessu ári en 3,5 prósent næstu þrjú árin á eftir. Þá er kveðið á um greiðslu kauptaxtaauka ef launavísitala hækkar umfram tiltekið viðmið og sömuleiðis greiðslu framleiðniauka ef vöxtur í framleiðni verður meiri en 1,5 prósent.
Samhliða undirritun kjarasamninganna tilkynnti ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga um margháttaðar aðgerðir sem voru sagðar lagðar fram til að „greiða fyrir“ gerð þeirra. Þær fela meðal annars í sér auknar barna, - húsnæðis- og vaxtabætur, gjaldfrjálsar skólamáltíðir, hærri fæðingarorlofsgreiðslur, sérstakan vaxtastuðning og aukin stofnfjárframlög til að styðja við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Aðgerðarpakki stjórnvalda er áætlaður allt að 80 milljarðar yfir samningstímann og til stendur að forgangsraða aðgerðunum sérstaklega í komandi fimm ára fjármálaætlun.
Spurður um aðgerðir stjórnvalda á verðstöðugleika þá segir Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka, að ljóst sé að öll ríkisútgjöld sem fela í sér auknar tilfærslur til heimila séu „óhjákvæmilega eftirspurnarhvetjandi.“ Hann efast hins vegar um að umfangið á aðgerðapakkanum sé af þeirri stærðargráðu að það riðli verðstöðugleika eða stöðu ríkissjóðs, þótt hjöðnun verðbólgunnar verði kannski örlítið hægari en ella.
„Mér reiknast til að innspýtingin í húsnæðis- og barnabætur ein og sér séu um 12,5 milljarðar, eða sem nemur 0,3 prósentum af vergri landsframleiðslu á árinu, en þar af eru 7 milljarðar í einskiptisstuðning vegna aukinnar vaxtabyrði. Heildarumfang aðgerðanna verður líklega ekki meira en 0,5 til 0,6 prósent sem hlutfall af landsframleiðslu á árinu. Áhrifin á eftirspurn og verðlag verða svo minni ef aðgerðirnar fela fyrst og fremst í sér breytta forgangsröðun fjármuna og það koma til mótvægisaðgerðir annarsstaðar í ríkisrekstrinum,“ útskýrir Hafsteinn í samtali við Innherja.
Seðlabankastjóri varaði við mikilli ríkisfjármálainnspýtingu
Aðrir viðmælendur á fjármálamarkaði benda sömuleiðis á að aðgerðir stjórnvalda kunni að vinna gegn þeim áhrifum sem hóflegar launahækkanir í kjarasamningunum hafa á verðstöðugleika. „Til skamms tíma finnst mér líklegt að samningarnir hafi jákvæð áhrif að slá á verðbólguna, meðal annars litið til þess að gert er ráð fyrir að gjaldskrárhækkanir verði teknar til baka og verði hóflegar 2024 og 2025, en til lengri tíma óttast ég þensluhvetjandi aðgerðir hins opinbera,“ segir Gunnar Örn, og bætir við:
„En það sem mér þykir verra,“ nefnir hann, er að ekki sé búið að útskýra hvernig hið opinbera muni fjármagna aðgerðirnar en þrjár leiðir séu til eða samspil þeirra; niðurskurður, skattheimta og lántaka. Fram hefur komið í máli Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur fjármálaráðherra að hún „útiloki“ skattahækkanir á millitekjuhópa og vilji fremur horfa til aukins aðhalds í útgjöldum ríkisins.
Gunnar Örn bendir á að í lok síðasta mánaðar hafi verið samþykkt fjáraukalagafrumvarp sem heimilar 30 milljarða aukna lántöku – samtals nemur sú heimild þá 230 milljörðum – en því var ætlað að mæta aðgerðum stjórnvalda við kaup á íbúðarhúsnæði Grindvíkinga.
„Það er því spurning hvort við fáum enn eitt fjáraukalagafrumvarpið. En á meðan ekki liggur fyrir hvernig þetta verður fjármagnað þá finnst mér afar hæpið að Seðlabankinn ráðist í vaxtalækkun nú í mars. Ég myndi halda að trúverðug áætlun stjórnvalda varðandi fjármögnunarhliðina þurfi að liggja fyrir til þess að peningastefnunefnd geti stigið fyrsta skrefið í vaxtalækkunarferlinu. Vonum bara að hún komi á næstu vikum, hagfræðisvið Seðlabankans meti hana ekki of þensluhvetjandi og nefndin geti hafið vaxtalækkunarferlið í maí samhliða útgáfu Peningamála og nýrri spá bankans.“
Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur haldið vöxtum óbreyttum í 9,25 prósent síðustu þrjá fundi. Í viðtali við Innherja eftir síðustu vaxtaákvörðun í byrjun febrúar varaði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri við „sterkri ríkisfjármálainnspýtingu“ inn í kerfið við gerð kjarasamninga.
Kröfur breiðfylkingar stærstu verkalýðsfélaga landsins á þeim tíma um myndarlega aðkomu stjórnvalda með því að stórauka ýmsar bætur í tilfærslukerfunum myndu ýta undir verðbólgu, rétt eins og miklar launahækkanir, og því væri „mikilvægt“ að samningaaðilar gerðu sér grein fyrir því, sagði seðlabankastjóri. Enn meiri ástæða væri til að hafa slíkt í huga núna þegar fyrir liggur að hamfarirnar í Grindavík munu hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.
Fannar Örn Arnarson, sjóðstjóri skuldabréfa hjá Akta, tekur í sama streng og aðrir markaðsaðilar um að samningarnir séu við fyrstu sýn með skynsamlegra móti og sú staðreynd að þeir séu til fjögurra ára ætti að hafa jákvæð áhrif á verðstöðugleika næstu árin. Umsamdar launahækkanir virðast vera hófsamar, undir því sem Seðlabankinn hafi spáð í Peningamálum sem komu út í febrúar, og því megi ætla að kostnaðaraukning hjá fyrirtækjum verði minni en óttast var.
„Það eitt og sér er jákvætt fyrir verðbólguhorfur yfir samningstímann en á móti kemur er ríkið að stíga nokkuð myndarlega inn í þessa samninga með ófjármögnuðum eftirspurnarhvetjandi aðgerðum bæði fyrir heimilin og á húsnæðismarkaði. Þessar aðgerðir munu hafa áhrif til hækkunar verðlags en þær verðhækkanir munu dreifast yfir lengra tímabil og umfang þeirra er verulega óljóst. Auk þess á eftir að koma í ljós með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst fjármagna þessar aðgerðir en það er alveg ljóst að það mun skipta peningastefnunefnd Seðlabankans máli með tilliti til hraða og umfang vaxtalækkanaferlisins hvort að aðgerðirnar verði fjármagnaðar með auknum halla, skattahækkunum eða niðurskurði,“ undirstrikar Fannar Örn.
Hann telur því útlitið „nokkuð bjart“ fyrir verðbólguhorfur næstu ára og samningarnir ættu að auðvelda peningastefnunefndinni að lækka vexti á næstu misserum. Samkvæmt nýjustu spá Seðlabankans er ráðgert að verðbólgan, sem mælist núna 6,6 prósent, lækki niður í ríflega fjögur prósent í árslok og hún verði komin í markmið á seinni hluta ársins 2026.
„Hins vegar verður að teljast neikvætt fyrir verðbólguhorfur til lengri tíma litið,“ bætir Fannar Örn við, „ítrekuð aðkoma stjórnvalda að gerð kjarasamninga og að það sé ríkjandi viðhorf hjá stjórnmálamönnum að það séu eðlilegir stjórnarhættir að ríkisstjórnin auki útgjöld sín til að koma á „verðstöðugleika“.
Hafsteinn hjá Kviku banka segir að samningarnir sem hafi náðst séu í hófstilltara lagi, rétt eins og lagt var upp með hjá aðilum vinnumarkaðarins, og launaliðurinn sé við neðri mörk þess bils sem við höfum séð í kjarasamningum síðustu 15 ára. Almenna launahækkunin er þannig svipuð og á mótum kjarasamninganna 2011/2013 og 2016/2019, en í báðum tilvikum var verðbólga nærri markmiði eða stefndi þangað.
„Þá eru launahækkanirnar líklega nálægt þeim forsendum sem Seðlabankinn gaf sér við síðustu verðbólguspá sína, en hún sýndi verðbólgu ganga niður í átt að markmiði hægt en örugglega,“ útskýrir Hafsteinn. Þannig spáði bankinn því að launakostnaður á framleidda einingu myndi hækka um ríflega sjö prósent á árinu 2024 en að jafnaði um tæplega fjögur prósent næstu tvö árin á eftir.
„Ég held því að verðbólguhorfurnar hafi ekki endilega breyst eða batnað mikið miðað við það sem búist var við eftir síðustu meldingar frá samningsaðilunum, en það er auðvitað búið að draga heilmikið úr verðbólguáhættunni og auka fyrirsjáanleikann með því að ljúka samningunum formlega, að því gefnu að þetta marki stefnuna fyrir vinnumarkaðinn í heild. Líklega var að hluta til búið að verðleggja niðurstöðu á þessum nótum inn í skuldabréfamarkaðinn síðustu vikur, og því sáum við ekki stóra kröfulækkun á markaði á föstudag, þótt markaðurinn hafi reyndar tekið vel í lendinguna frekar en hitt,“ segir aðalhagfræðingur Kviku í samtali við Innherja.
Verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði – munurinn á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisbréfa – hefur lækkað lítillega frá undirritun samninga og kynningu á kjarapakka stjórnvalda.
Hafsteinn nefnir að það hafi verið vitað mál að kjarasamningarnir væru eitt stærsta útistandandi óvissuatriðið fyrir peningastefnunefnd. Hann segir ekki hægt að útiloka alveg að nefndin muni ríða á vaðið og lækka vexti á fundinum um miðja næstu viku, eins konar „goodwill“ til handa aðilum vinnumarkaðarins, einfaldlega með þeim rökum að dregið hafi úr óvissu um verðbólguhorfurnar með samningunum. Hins vegar hafi mátti lesa út úr síðustu fundargerð nefndarinnar að þótt einum nefndarmanni hefði þótt tímabært að hefja vaxtalækkunarferlið nú þegar, þá væru aðrir nefndarmenn enn varfærnir.
„Ég á því sjálfur síður von á vaxtalækkun í mars eftir heita verðbólgumælingu í febrúar, og mér finnst líklegt að meirihluti nefndarinnar vilji bíða eftir skýrari útlistun á því hvernig aðgerðir ríkissjóðs verði fjármagnaðar og sjá skýr merki þess að samningarnir skili sér í áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar. Ef sú verður raunin er ekkert því til fyrirstöðu að vextir lækki þegar líður á árið, enda fara raunstýrivextir hækkandi eftir því sem verðbólgan gengur niður, og því er bankinn í stöðu til að halda aðhaldinu tiltölulega þéttu jafnvel þótt vextirnir lækki.“
15. nóvember 2023
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Fannars Arnar Arnarssonar sjóðstjóra hjá Akta í tengslum við umfjöllun sína um vaxtavæntingar á Íslandi.
Væntingar um vaxtatoppinn „klárlega að koma niður“ vegna óvissunnar
Jarðhræringar og óvissan um framvindu mála á Reykjanesskaga hafa slökkt í öllum væntingum skuldabréfafjárfesta um mögulega vaxtahækkun þegar peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku. Ávöxtunarkrafa styttri ríkisskuldabréfa hefur lækkað skarpt síðustu daga samtímis því að undirliggjandi raunvextir eru að koma niður, að sögn sjóðstjóra á markaði, en útlit er fyrir að fjármögnunarþörf ríkissjóðs eigi eftir að aukast talsvert frá fyrri áætlun vegna meiri hallareksturs.
„Það má segja að jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafa gert það að verkum að markaðurinn telur nú að Seðlabankinn hækki í það minnsta ekki vexti í komandi viku,“ segir Fannar Örn Arnarson, sjóðstjóri skuldabréfa hjá Akta, við Innherja. Vöxtum Seðlabankans var haldið nokkuð óvænt óbreyttum í 9,25 prósentum við ákvörðun peningastefnunefndar í byrjun síðasta mánaðar.
Krafan á ríkisbréf lækkaði umtalsvert í viðskiptum á skuldabréfamarkaði í gær – mest um liðlega 20 punkta á stuttum óverðtryggðum bréfum – og bendir Fannar Örn á að fjárfestar séu núna að verðleggja inn í vaxtaferilinn um 0,5 prósentum lægri skammtímavexti en í upphafi þessa mánaðar, og bætir við: „Markaðurinn er því að gera ráð fyrir meiri vaxtalækkunum á næstu tveimur árum en áður.“
Þegar ávöxtunarkrafa skuldabréfa lækkar þá hækkar verð bréfanna, og svo öfugt.
Gunnar Örn Erlingsson, skuldabréfamiðlari hjá Arion banka, tekur í svipaðan streng og segir ljóst að vextir verði ekki hækkaðir síðar í þessum mánuði.
„Framvindan verður hins vegar bara að koma í ljós og hvort gripið verður til vaxtalækkana ef hagvaxtarhorfum er ógnað verulega – en við erum ekki komin á það stig. Seðlabanki Íslands er á verðbólgumarkmiði og því er er kannski ágætt að anda með nefinu með slíkar vangaveltur í bili,“ segir hann spurður hvort það sé styttra í vaxtalækkunarferlið en áður var talið.
„Ef allt fer í klessu, þá er það sennilegt – en ef ekki þá verður Seðlabankinn eftir sem áður að horfa á meginmarkmið sitt um að tryggja verðstöðugleika,“ en tólf mánaða verðbólgan mælist nú 7,9 prósent eftir að hafa lækkað lítillega milli mánaða.
Þá rifjar Gunnar Örn upp að frá síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar hefur bæði verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði sem og fimm ár eftir fimm ár hækkað um rúmlega 20 punkta og gengi krónunnar hefur sömuleiðis veikst um liðlega fimm prósent. Peningastefnunefnd bankans sé því í nokkuð snúinni stöðu.
„En auðvitað á óvissan á Reykjanesi drjúgan þátt í þeim hreyfingum á markaði. Ég held því að þau hljóti að staldra við í ljósi stöðunnar, enda munar nú um minna þegar heilu fjögur þúsund manna bæjarfélagi sem leggur mikið af mörkum til verðmætasköpunar í landinu er skyndilega kippt út af vinnumarkaði auk óvissu með stóra vinnustaði, eins og orkuverið við Svartsengi og Bláa lónið. Það kann því að fara svo að minni spenna verði á vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamningalotunnar og því hóflegri samningar framundan sem ógna síður verðstöðugleika.“
Valdimar Ármann, skuldabréfasérfræðingur og forstöðumaður eignastýringar hjá Arctica Finance, segir óumdeilt að staðan sé í senn flókin og erfið. Síðasta verðbólgumæling í lok október hafi verið með þeim hætti að hún krafðist ekki frekari vaxtahækkana hjá Seðlabankanum, að hans mati, og vaxtahækkunarferlið var því að toppa í 9,25 prósent. Núna séu hins vegar að bætast við jarðhræringar með margvíslegum sviðsmyndum og erfitt að henda reiður á hvað muni gerast, hvenær, hvernig og hvaða afleiðingar það mun hafa – eða þá hvort nokkuð meira muni gerast yfirhöfuð.
„Núverandi staða og óvissa ýtir samt undir það að Seðlabankinn haldi vöxtum óbreyttum á næsta fundi og það er kannski verðaðlögunin sem er að eiga sér stað á markaðnum í vikunni. Ég er ekki svo viss um að það sé verið að verðleggja endilega að það sé mikið styttra í fyrstu vaxtalækkun en væntingar um vaxtatoppinn eru klárlega að koma niður, enda eru það ekki verðbólguvæntingar sem eru að lækka heldur undirliggjandi raunvextir,“ útskýrir Valdimar í samtali við Innherja.
Hann bætir hins vegar við að það sé nánast ómöguleiki að verðleggja núverandi stöðu með almennilegum hætti, óvissan sé einfaldlega of mikil.
„Líklega sé þó einhver flótti í öruggan faðm skuldabréfanna, en horft til lengri tíma þá er hallarekstur ríkissjóðs að fara að aukast næstu misseri. Bæði vegna byggingu varna og svo umtalsvert ef mikið tjón verður vegna eldgosa sem þýðir þá meiri útgáfuþörf en áður var talið, en til viðbótar ríkir meðal annars töluverð óvissa um áhrifin á hagkerfið.“
Alþingi samþykkti að kvöldi mánudags frumvarp um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga sem kveður á um byggingu varnargarða við orkuver HS Orku í Svartsengi. Kostnaðurinn er áætlaður um 2,5 milljarðar króna sem á að fjármagna með skattlagningu á brunabótamati allra fasteigna næstu þrjú árin. Þá áformar ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp sem felur í sér aðgerðir, sambærilegar þeim sem gripið var til á tímum faraldursins, sem miða að því að ríkið muni tímabundið greiða hluta af launum starfsfólks í Grindavík.
Spurður frekar um þróunina síðustu daga á skuldabréfamarkaði með hliðsjón af jarðhræringunum á Reykjanesskaga þá segir Gunnar Örn hjá Arion banka að á óvissutímum þá leiti fjárfestar í stutt skuldabréf með litla vaxtanæmni. Þar sé öryggið að finna á skuldabréfamarkaðnum. Heilt yfir hafa verðtryggð ríkisskuldabréf á síðustu dögum lækkað um 15 til 25 punkta og þau stystu mest, en aðeins stuttu óverðtryggðu bréfin hafa lækkað í kröfu – RIKB 25 mest, eða um 45 punkta – meðan löngu óverðtryggðu hafa hækkað lítið eitt í kröfu.
„Ef við teiknum upp svartsýnustu sviðsmyndir þá höfum við í rauninni ekki hugmynd um hvað þær þýða fyrir fjármögnunarþörf ríkissjóðs næstu árin svo það felst sennilega seint öryggi í að kaupa löng bréf – þess vegna eru fyrstu viðbrögð fjárfesta að kaupa stuttu bréfin. Rætist þær og hagvaxtarhorfum til skamms tíma yrði ógnað má því gera ráð fyrir vaxtalækkunum en meiri útgáfu ríkissjóðs, svo niðurhallandi ríkisbréfaferill eins og við höfum í dag gæti allt eins orðið upphallandi þegar fram í sækir, fari svo,“ útskýrir Gunnar Örn.
Þegar Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ári um miðjan september þá var gert ráð fyrir um 46 milljarða halla á heildarafkomu ríkissjóðs. Það jafngildir um einu prósent af landsframleiðslu – en á þann mælikvarða hefur afkoman ekki verið betri frá 2018.
13. apríl 2023
Akta sjóðir hf. leitar að sérfræðingi til starfa við greiningar á fjármálamörkuðum. Við leitum að metnaðarfullum og áhugasömum einstaklingi sem mun vinna náið með sjóðstjórum Akta. Hjá félaginu starfar framúrskarandi starfsfólk á sviði sjóða- og eignastýringar og fjárfestir félagið fyrir hönd viðskiptavina á innlendum og erlendum mörkuðum.
Helstu verkefni og ábyrgð
Greiningar á fjármálamörkuðum, hlutabréfum og skuldabréfum
Greining á atvinnugreinum og efnahagsmálum
Kynningar, skýrslur og önnur sérhæfð verkefni
Annað tilfallandi
Menntunar- og hæfniskröfur
Háskólamenntun sem nýtist í starfi
Góð íslensku- og enskukunnátta
Mjög góð færni í Excel og PowerPoint
Starfsreynsla af fjármálamarkaði kostur en ekki skilyrði
Sjálfstæð vinnubrögð og góð færni í mannlegum samskiptum
Mikill áhugi á fjármálamörkuðum
Allar umsóknir skulu berast í gegnum alfred.is.
Umsóknarfrestur er til 1. maí nk.
17. febrúar 2023
Akta leitar að einstaklingi í teymið til að starfa sem sérfræðingur í áhættueftirliti og gagnagreiningu, og sem staðgengill áhættustjóra.
Starfið er tímabundið til eins árs, með möguleika á framlengingu. Um er að ræða frábært tækifæri til að starfa hjá fyrirtæki á fjármálamarkaði í fremstu röð. Starfið er fjölbreytt og felur í sér samvinnu við öll svið félagsins.
- Daglegt áhættueftirlit og önnur verkefni sem snúa að áhættustýringu
- Gagnagreining, ýmsir útreikningar og skýrslugerð
- Uppfærsla á innri gögnum og skjölum eftir þörfum
- Aðstoð í sjálfvirknivæðingu og tækniþróun félagsins
- Samvinna við stjórnendur félagsins og útvistunaraðila
- Önnur tilfallandi verkefni
- Háskólapróf sem nýtist í starfi (tölvunarfræði, verkfræði, hagfræði eða annað sambærilegt)
- Þekking og reynsla af PowerBi
- Þekking og reynsla af Excel
- Þekking á forritun kostur
- Frumkvæði, vinnusemi og sjálfstæði í vinnubrögðum
Ef óskað er eftir nánari upplýsingum er unnt að senda póst á netfangið stefania@akta.is
Farið verður með umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál.
Allar umsóknir skulu berast í gegnum alfred.is.
Umsóknarfrestur er til 3. mars nk.
16. febrúar 2023
Fannar Örn Arnarsson hefur gengið til liðs við Akta sjóði sem sjóðstjóri innlendra skuldabréfasjóða. Áður starfaði Fannar í markaðsviðskiptum hjá Kviku banka árin 2017 til 2020 og síðar í eigin viðskiptum frá 2020 til 2023. Fannar er með B.Sc. gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
27. janúar 2023
Davíð Einarsson hefur gengið til liðs við Akta sjóði sem viðskiptastjóri í Eignastýringu. Davíð starfaði áður sem viðskiptastjóri í Einkabankaþjónustu Arion banka. Hann hefur lokið B.Sc gráðu í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík, MM í markaðsfræði og MCF í fjármálum. Einnig hefur Davíð lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
14. desember 2022
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Birgis Haraldssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við umfjöllun sína um verðbólguþróun á heimsvísu.
Eftir þungt ár er farið að rofa til varðandi verðbólguhorfur erlendis
Eftir þungt ár er farið að rofa til varðandi verðbólguhorfur erlendis. Bandaríski Seðlabankinn er því kominn nær endastöð þegar litið er til vaxtahækkana. Almennt eru betri verðbólguhorfur erlendis jákvæðar fyrir vöruverðbólgu á Íslandi en veiking krónunnar síðustu mánuði vinnur gegn þessari þróun að einhverju leyti, segir sjóðstjóri hjá Akta.
Verðbólga í Bandaríkjunum og í Bretlandi lækkaði í nóvember meira en greinendur gerðu ráð fyrir, eins og erlendir fjölmiðlar hafa greint frá í dag og í gær.
Annar sjóðstjóri, sem vill ekki láta nafn síns getið, segir að verðbólgutölur í Bandaríkjunum í gær hafi verið jákvæðar að því leyti að þær styðja við þá röksemdarfærslu sem sumir á markaði hafi fært fram um að vaxtahækkunarferlið þar í landi fari senn að ljúka; stýrivextir muni hækka um 0,5 prósentustig í dag og verði við það 4,5 prósent og hækki um 0,25 prósentustig í febrúar.
Verðbólga í Bandaríkjunum lækkaði úr 7,7 prósentum í 7,1 prósent á milli mánaða og hefur ekki verið lægri síðan í desember í fyrra. Greinendur spáðu því að hún yrði 7,3 prósent. Í kjölfarið hækkuðu hlutabréf því fjárfestar væntu þess að Seðlabanki Bandaríkjanna myndi ekki þurfa hækka stýrivexti jafn mikið til að koma böndum á verðbólguna.
Verðbólga í Bretlandi hafði ekki verið hærri í 41 ár í síðasta mánuði þegar hún var 11,1 prósent. Hún lækkaði í 10,7 prósent í nóvember. Greinendur höfðu spáð að verðbólgan yrði 10,9 prósent. Lækkunina má meðal annars rekja til lægra eldsneytisverðs.
Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta, segir að einfaldast sé að greina verðbólgutaktinn í Bandaríkjunum með því að skipta vísitölu neysluverðs upp í vöru- og þjónustuliði. „Þannig má sjá að vöruverðbólga er að koma hratt niður frá sögulega háu gildum á miðju þessu ári og sömuleiðis er þjónustuverðbólgan farin að missa skriðþungann. Auk þessa má ætla að kólnun húsnæðismarkaðar í Bandaríkjunum fari að skila sér af meiri krafti til lækkunar á taktinum í þjónustuverðbólgunni á næsta ári. Það eru því ágætis líkur á því að verðbólgan haldi áfram að snúa hratt til baka næsta árið í áttina að tveggja prósenta verðbólgumarkmiðinu og að kjarnaverðbólga komi töluvert niður sömuleiðis,“ segir hann í samtali við Innherja.
Birgir segir að bandaríski seðlabankinn sé því kominn nær endastöð þegar litið er til vaxtahækkana. Líklegt sé að stýrivextir fari ekki yfir fimm prósent. „Þetta mun hjálpa skuldabréfum að ná vopnum sínum eftir sögulega þungt ár og að sama skapi styðja við hlutabréf. Hins vegar mun líkleg lækkun á hagnaðarvæntingum fyrirtækja samhliða versnandi efnahagshorfum ráða meira til um framþróun hlutabréfa næstu misserin og eru frekari lækkanir á hlutabréfum líklegar næstu mánuði,“ segir hann.
Annar sjóðstjóri segir að jafnvel þótt verðbólgutölur í Bandaríkjunum í gær hafi verið örlítið undir lægri en reiknað var með þá skipti það ef til vill ekki öllu í stóra samhenginu. Stóra myndin sé að vextir hafi farið hækkandi sem hafi kælandi áhrif, til dæmis á húsnæðismarkaðinn og eftirspurn. „Aðfangakeðjur hafa verið að lagast. Þrátt fyrir að verð á flestum hrávörum séu sögulega há þá hafa þau verið að lækka síðustu vikur og mánuði sem einnig hefur kælandi áhrif á verðbólgu,“ segir hann.
Alla jafna ætti það að hafa jákvæð áhrif á bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði að verðbólga sé að hjaðna og það sjái fyrir endann á vaxtahækkunarferli. Það eru þó fleiri þættir sem þarf að huga að, vekur sjóðstjórinn athygli á, til dæmis hvaða áhrif hefur minnkandi eftirspurn á sjóðstreymi fyrirtækja? Eru tekjur þeirra að fara að lækka/standa í stað og framlegðarstig að dragast saman?
„Ef spá sumra á markaði um efnahagslægð í Bandaríkjunum á næstunni nær fram að ganga þá er ekki ósennilegt að það bitni á rekstri fyrirtækja. Það er augljóslega neikvætt fyrir hlutabréf og þá þarf að taka tillit til þess,“ segir hann.
Hvað varðar skuldabréfamarkaði, segir sjóðstjóri, þá er það mjög jákvætt að vextir á styttri endanum hætti fljótlega að hækka og byrji jafnvel að lækka enda hefur ávöxtunarkrafa á tíu ára ríkisskuldabréfum í Bandaríkjunum lækkað undanfarið um sirka 0,75 prósentustig frá því hún fór sem hæst í október. „Þetta er því jákvæð þróun fyrir þann markað,“ segir hann.
Að hans sögn er fyrirtækjaskuldabréfamarkaður erfiðari þar sem það þarf að taka tillit til álags á ríki og það gæti aukist þegar stefnt er í efnahagslægð. Sömu eða svipuð lögmál gilda um Bretland sem er þó kannski hálfu ári á eftir Bandaríkjunum í sinni baráttu við verðbólgu.
„Ísland er svo á svipuðum stað og Bandaríkin,“ segir sjóðstjórinn og nefnir að að svo virðist sem vaxtahækkanir hér séu að kæla fasteignamarkaðinn þó eftirspurnin sé enn sterk, hvað svo sem síðar verður. „Þó verður að hafa í huga að hagvöxtur á Íslandi er meiri en í hinum hagkerfunum báðum og litlar sem engar líkur á að hér verði efnahagslægð á næstunni,“ segir hann.
Birgir segir að almennt betri verðbólguhorfur erlendis jákvæðar fyrir vöruverðbólguna á Íslandi - telur um 45 prósent í vísitölu neysluverðs - en veiking krónunnar síðustu mánuði vinnur gegn þessari þróun að einhverju leyti. „Síðan snýst þetta meira um það sem má kalla innlendu liðina,“ segir hann og nefnir að húsnæðismarkaðurinn hafi 25 prósenta vægi og þjónustuverðbólga 30 vægi.
Verðbólga mældist 9,3 prósent í nóvember sem er „enn umtalsvert“ fyrir ofan 2,5 prósenta verðbólgumarkmiðið. „Það er hætt við því að verðbólgan gangi hægt niður hérlendis nema annar hvor þessara innlendu liða nái að snúa taktinum verulega til hins betra á næstu misserum og er það húsnæðismarkaðurinn sem er helsta vonin þar,“ segir Birgir.
11. nóvember 2022
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Davíðs Stefánssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við nýlega umfjöllun sína um verðbólgutölur í Bandaríkjunum.
„Augu allra“ hafa verið á verðbólgu, einkum í Bandaríkjunum
Íslenski hlutabréf hækkuðu umtalsvert í gær eftir að í ljós kom að verðbólga í Bandaríkjunum var lægri en vænst var. Við það hækkaði hlutabréfaverð umtalsvert í Bandaríkjunum. Þegar mikil óvissa ríkir horfir markaðurinn hér heima í enn meira mæli til þróunar erlendis. Íslenski skuldabréfamarkaðurinn brást hins vegar lítið við tíðundunum frá Bandaríkjunum en það má rekja til þess að framundan eru kjarasamningar, krónan hefur verið að veikjast síðustu misseri og síðasta verðbólgumæling hérlendis olli vonbrigðum.
Þetta segja sjóðstjórar í samtali við Innherja. Verðbólga mældist 7,7 prósent í Bandaríkjunum í október, samkvæmt tilkynningu sem birtist í gær, sem var 0,2 prósentustigum minna en greinendur höfðu gert ráð fyrir.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,56 prósent í gær. Áður en tíðindin bárust var þungt yfir markaðnum en hann hresstist við tíðindin af verðbólgunni vestanhafs.
„Augu allra hafa verið á verðbólgu, sérstaklega í Bandaríkjunum, síðustu misseri,“ segir Sigurður Guðjón Gíslason, forstöðumaður blandaðrar stýringar hjá Íslandssjóðum. „Árstakturinn hefur verið að lækka og allir að bíða eftir vísbendingum um að Seðlabankinn í Bandaríkjunum gefi til kynna að stutt sé í að stýrivextir toppi.“
Davíð Stefánsson, sjóðstjóri hjá Akta, segir að á undanförnum mánuðum hafi verðbólga verið há og í mörgum tilfellum yfir væntingum. Verðbólgu í fyrra megi fyrst og fremst rekja til verðhækkana á vörum samhliða röskunum á virðiskeðjum og mikilli eftirspurn vegna hliðrunar í neyslumynstri og fjárhagslegum stuðningi hins opinbera við neytendur.
Davíð segir að nú sjáist „skýr merki“ um að þessar verðhækkanir séu að ganga að hluta til baka í mörgum flokkum, til dæmis notuðum bílum og raftækjum. „Öfugt við í fyrra þá hefur verðbólgan í ár skrifast að mestu á mat, þjónustu og fasteignaliði vísitölunnar,“ segir hann. Helsta fréttin í gær sé sú að það séu „kraftmeiri verðlækkanir“ á vörum en hingað til og nokkrir þjónustuliðir, til dæmis heilbrigðistryggingar, sem hafi hækkað mikið lækkuðu.
Sigurður Guðjón segir að eftir óvæntar verðbólgutölur í síðasta mánuði - hærri en spár - hafi birst jákvæðari tíðindi í gær. „Markaðurinn bindur greinilega vonir um að nú sjái fyrir endann á verðbólgu og vaxtahækkunum. Ég tel það vera of snemmt þar sem við höfum séð þessar tölur sveiflast í kringum spár þó þróunin sé í rétta átt. Ég held að Seðlabankinn vilji sjá fleiri svona tölur áður en hann snýr við hækkunarferlinu (e. Fed Pivot). Það er enn þá mikil verðbólga,“ segir hann og nefnir að markmiðið sé að ná verðbólgu niður í tvö prósent.
Sigurður Guðjón segir að þegar óvissan sé mikil horfi markaðurinn hérlendis í enn meira mæli til þess sem sé að eiga sér stað erlendis. Erlend þróun ráði „oftar en ekki“ för á hverjum degi. Markaðurinn horfi í minna mæli til uppgjöra innlendra félag, sem heilt yfir hafi verið góð og staða hagkerfisins sterk. „Það má reikna með að þetta samband við erlenda markaði haldi áfram næstu misseri,“ segir hann.
Davíð segir að íslensk hlutabréf hafi hækkað „umtalsvert“ í kjölfar tíðinda af bandarísku verðbólgumælingunni enda hafi fylgnin við erlenda markaði aukist síðustu misseri. Íslensk hlutabréf, fyrir utan einstaka félög svo sem Marel, hafi almennt lækkað minna en erlend hlutabréf. „Sem dæmi má nefna að tvö af þremur stóru íslensku fasteignafélögunum hafa hækkað um tíu prósent á árinu samanborið við 23 prósenta lækkun vísitölu bandarískra fasteignafélaga. Að hluta til hefur ávöxtunarmunur sambærilegra íslenskra og erlendra félaga lokað í mörgum tilfellum gati í hlutfallslegri verðlagningu. Lækkanir og hækkanir erlendis eru því farnar að skila sér í meiri mæli heim enda horfa innlendir fjárfestar til erlendra verðkennitalna,“ segir hann.
Davíð segir að viðbrögð íslenska skuldabréfamarkaðarins við verðbólgumælingunni hafi „verið lítil enda aðstæður“ ef til vill af örðum toga en erlendis. „Framundan eru kjarasamningar, krónan hefur verið að veikjast síðustu misseri og þá olli síðasta verðbólgumæling á Íslandi vonbrigðum,“ segir hann.
Davíð telur að á næstu tólf mánuðum muni verðbólga í Bandaríkjunum lækka á milli ára. „Það þýðir ekki að verðbólgutakturinn muni samræmast markmiðum Seðlabankans,“ bendir hann á. Þættir sem munu styðja við lægri verðbólgu séu munaðarvörur, notaðir bílar og stakir þjónustuliðir svo sem heilbrigðistryggingar. „Á hinn bóginn virðast enn þá vera hækkanir framundan á ýmsum nauðsynjavörum,“ segir Davíð.
Auk þess bendi „allt til þess að húsnæðisliður verðbólgunnar“, sem hafi yfir 30 prósent vægi í vísitölunni og mæli fyrst og fremst leiguverð „byrji að hægja verulega á sér eftir á fyrsta eða öðrum fjórðungi næsta árs,“ segir hann.
Davíð segir að verðbólgan hafi því „náð toppi“ en óvissa hverfist um hvar hún muni „liggja að meðaltali fyrir aftan núverandi topp.“ Slaki í leigumarkaði í Bandaríkjunum gæti fært verðbólguna nálægt því sem við sáum árin fyrir 2010-2019 eða tvö til þrjú prósent en aðrir þættir eins og viðvarandi hátt orkuverð og viðsnúningur í alþjóðavæðingu gætu haldið henni nær þremur til fjórum þegar fram líða stundir.
7. nóvember 2022
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Birgis Haraldssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við umfjöllun sína um verðbólguhorfur á Íslandi.
Telja að verðbólga taki ekki á rás þrátt fyrir óvænta þróun í dag
Verðbólga mældist yfir spám greinenda í október. Sérfræðingar á markaði telja að líklega hafi verðbólgan toppað í sumar og horfa til þess að hún fari hjaðnandi á næstu mánuðum. Sjóðstjóri segir að stóra spurningin fyrir Seðlabankann sé hversu hratt hún gangi til baka.
Vonir standi til að ekki þurfi að hækka stýrivextir frekar en ef verðbólgumælingar næstu mánaða valdi vonbrigðum verði Seðlabankinn að grípa inn í og hækka vexti. Niðurstöður komandi kjarasamninga skipti miklu máli þar um.
Hagstofan greindi frá því í morgun að verðbólga mæld yfir eitt ár hafi aukist úr 9,3 prósentum í september í 9,4 prósent í október. Það sem einkum hækkaði meira en búist var við voru matvæli. Munar þar mestu um mikla hækkun á lambakjöti sem hækkaði um 16 prósent í mánuðinum sem leiddi til 0,09 prósenta hærri verðbólgu. Verðbólgan náði hámarki í júlí þegar hún var 9,9 prósent en hefur farið lækkandi síðan þótt það hafi komið eylítið bakslag nú.
Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance, segir að vonir standi til þess að árstaktur verðbólgu haldi áfram að hjaðna á næstu mánuðum. Að öllum líkindum hafi árstakturinn „toppað“ í sumar. Það taki mögulega lengri tíma en vonast var til að kólnandi fasteignamarkaður leggi sitt af mörkum til lægri verðbólgu með myndarlegum hætti.
Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta, bendir á að innlent verðlag fyrir utan húsnæði hækkaði milli mánaða. Árstakturinn sé um átta prósent í dag sem sé með hæstu gildum sem sést hafi fyrir þennan lið á undanförnum tíu árum. „Innlendur verðþrýstingur er enn þá mikill og nær langt út fyrir húsnæðismarkaðinn,“ segir hann.
Hann segir að eftir mildar verðbólgutölur í ágúst og september hafi mælingin í október verið „bakslag fyrir skuldabréfamarkaðinn“.
Ingólfur Snorri Kristjánsson, forstöðumaður skuldabréfastýringar hjá Íslandsjóðum segir að viðbrögðin á markaði hafi verið á þá vegu að verðbólguálagið hafi hækkað á markaði, óverðtryggð skuldabréf seld og verðtryggð keypt.
Birgir segir að ekki megi líta framhjá því að verðbólguskotið í október - 0,37 prósent umfram 10 ára meðaltal - sé mun vægara en var á fyrri hluta ársins. Þá hafi mánaðarleg verðbólga verið um 0,78 prósent hærra en sem nemi tíu ára meðaltali.
„Samtímis hefur margt breyst hvað varðar erlenda verðbólguþætti, svo sem röskun á virðiskeðjum hefur gengið að miklu leyti tilbaka og hrávöruverð komið til baka,“ segir hann og vekur athygli á að það dragi úr hagvexti á heimsvísu.
„Við höfum því að öllum líkindum séð það versta í þessum verðbólgukúf,“ segir Birgir, „en hversu hratt hann gengur tilbaka er stóra spurningin fyrir Seðlabankann og þar skipta niðurstöður komandi kjarasamninga einnig miklu máli,“ segir Birgir. Vonir standi til að stýrivextir þurfi ekki að hækka frekar en ef verðbólgumælingar næstu mánaða valdi vonbrigðum sé ljóst að Seðlabankinn muni þurfa að grípa til þess að hækka stýrivexti.
Ingólfur Snorri segir að þrátt fyrir að verðbólgan í október hafi mælst yfir spám breytir það ekki „okkar sýn“ að verðbólgan komi til með að hjaðna á komandi mánuðum. „Við erum áfram að sjá vísbendingar um fasteignamarkaðurinn sé að kólna nokkuð hratt en tímatöf getur valdið því að það komi seinna inn í tölur Hagstofunnar,“ segir hann.
Valdimar segir að vaxandi verðbólguvæntingar að undanförnu, en þær hafa hækkað um 0,3 prósent, ættu að valda Seðlabankanum áhyggjum. Mögulega verði það til þess að „hann þurfi að stíga inn með eina vaxtahækkun í viðbót“ upp á 0,25 prósentustig. „Allavega hafa líkur á því aukist,“ segir hann.
Hann bendir á að framhaldið ráðist einfaldlega af þróun verðbólgunnar eins og Seðlabankinn hafi gefið sterklega til kynna. „Mögulega spilar inn í verðþróunina á markaðnum að hann er hálf laskaður í kringum óvissuna um uppgjör á íbúðabréfunum og gæti það ýkt sveiflur á markaðnum, það má benda á að veltan á bakvið þessar miklu breytingar á verðbólguálagi er ekki mjög mikil,“ segir Valdimar.
31. október 2022
Edda Guðrún Sverrisdóttir hefur gengið til liðs við Akta sjóði sem yfirlögfræðingur og regluvörður félagsins. Hún starfaði sem lögfræðingur hjá Kviku banka hf. á árunum 2012-2022 og hjá Kaupþingi hf. (áður Kaupþing banki hf.) á árunum 2010-2012. Þá sat Edda í stjórn Akta frá 2020-2021. Edda hefur lokið BA prófi og meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands, öðlast réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi og lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
6. október 2022
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Birgis Haraldssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við hækkun stýrivaxta Seðlabankans.
Fjárfestar telja að Seðlabankanum takist að kæla hagkerfið
Verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði hefur komið hratt niður síðan peningastefnunefnd kom saman í ágúst, bæði í gegnum lækkun á óverðtryggðu kröfunni og hækkun á þeirri verðtryggðu. Það er lýsandi fyrir væntingar fjárfesta um að Seðlabankanum sé að takast að kæla hagkerfið með aðgerðum sínum.
Þetta segir Rósa Björgvinsdóttir, forstöðumaður skuldabréfa hjá Landsbréfum.
Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun um að stýrivextir verði hækkaðir um 0,25 prósentur í dag og verði 5,75 prósent. Bankinn hefur að undanförnu hækkað vexti hratt til að ná böndum á vaxandi verðbólgu. Frá því í byrjun maí hafa stýrivextir hækkað um þrjú prósentustig. Verðbólga mældist þá 7,6 prósent og jókst í 9,9 prósent júlí en lækkaði í 9,3 prósent í september.
Sævar Ingi Haraldsson, sjóðstjóri í skuldabréfateymi Stefnis, segir að skuldabréfamarkaðurinn hafi tekið vel í stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans. „Kröfur á ríkisskuldabréfamarkaði hafa lækkað nokkuð það sem af er degi sem endurspeglar væntingar um að líklega sé vaxtahækkunarferli bankans lokið í bili,“ segir hann.
Þróun ávöxtunarkröfunnar á óverðtryggðum ríkisbréfum hefur ekki aðeins áhrif á þau lánskjör sem ríkissjóði bjóðast á innlendum skuldabréfamarkaði heldur sömuleiðis á fjármagnskostnað fyrirtækja og heimila. Bankarnir fjármagna til að mynda fasteignalán til heimila með útgáfu sértryggðra skuldabréfa og viðskipti með þau bréf fylgja þróun á ríkisbréfamarkaðnum.
Birgir Haraldsson, sjóðsstjóri hjá Akta, segir að Seðlabankinn sé að vonast til að ekki þurfi að hækka stýrivexti meira að sinni en bankinn hafi verið að hækka stýrivexti frá vorinu 2021.
„Þetta hefur gefið skuldabréfamarkaðnum meðvind í dag en hann er algerlega háður því að verðbólgutölur næstu mánaða styðji við þessa nýju afstöðu Seðlabankans. Síðustu tveir mánuðir hafa sannarlega verið réttu megin hvað það varðar með mánaðartaktinn í verðbólgunni; loksins í línu við tíu ára meðaltölin eftir að hafa verið nærri 0,8 prósent hærri en þau að meðaltali frá janúar til júlí. Innlendir og erlendir þættir styðja vissulega við þessa sögu um að það versta sé yfirstaðið í verðbólgunni og er það núna alfarið í höndum næstu verðbólgumælinga að skera úr um hvort það reynist rétt,“ segir hann.
Rósa segir að tónninn hjá peningastefnunefnd Seðlabankans og seðlabankastjóra hafi verið mun mýkri í dag en að undanförnu þegar tilkynnt hafi verið um vaxtahækkanir. Nú séu enda komnar fram sterkar vísbendingar um að aðgerðir bankans til að kæla hagkerfið hafi veruleg áhrif, bæði stýrivaxtahækkanir og aðgerðir fjármálastöðugleikanefndar.
„Seðlabankinn hefur hækkað vexti mjög mikið og hratt á síðustu mánuðum og aðgerðir bankans eru að virka. Ekki bara að virka heldur líklega að duga til að við sjáum verðbólgu hjaðna nokkuð hratt að óbreyttu,“ segir hún.
Sævar Ingi segir að það sé áhugavert að Seðlabankinn játi að síðasta verðbólguspá hans hafi verið of svartsýn en verðbólga virðist hafa náð toppi síðastliðið sumar. Annað sem vakti athygli hafi verið að Seðlabankinn skaut á á aðila vinnumarkaðarins og ríkisfjármálin um að allir þurfi að taka þátt í að koma böndum á verðbólguna. „Það verður stóra málið í vetur,“ segir hann.
Rósa rifjar upp að Seðlabankastjóri sagði í þessu samhengi á kynningarfundi í morgun að Seðlabankinn væri reiðubúinn að hækka stýrivexti meira ef þörf krefur og þróunin verði óhagstæð.
6. október 2022
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Birgis Haraldssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við horfur á innlendum skuldabréfamarkaði.
Gefur Seðlabankanum færi á að hægja á vaxtahækkunartaktinum
Lækkun íbúðaverðs í ágúst kom greinendum og fjárfestum á óvart, sem endurspeglaðist í skarpri lækkun óverðtryggðra ríkisbréfa í dag, en eftir þær tölur er ljóst að nýjasta spá Seðlabankans er að ofmeta verðbólguna talsvert næsta kastið. Þótt ástandið sé enn viðkvæmt þá þýðir kólnandi fasteignamarkaður að útlit er fyrir að lítið sé eftir að vaxtahækkunarferli Seðlabankans, að sögn viðmælenda Innherja á fjármálamarkaði.
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um rúmlega 0,4 prósent í síðasta mánuði, sem er mesta lækkun vísitölunnar frá því snemma árs 2019, og var það þvert á spár greiningardeilda sem höfðu spáð því að verðið myndi hækka lítillega.
Ingólfur Snorri Kristjánsson, forstöðumaður skuldabréfastýringar hjá Íslandssjóðum, segir við Innherja að þessar nýjustu tölur um íbúðamarkaðinn séu frekari staðfesting á því að aðgerðir Seðlabankans til að tempra markaðinn séu farnar að virka.
„Flestir voru að búast við að takturinn myndi lækka smám saman en ekki endilega þannig að vísitalan myndi lækka milli mánaða svona fljótt. Seðlabankinn gerði til að mynda ráð fyrir því að það myndi hægjast á hækkunum á húsnæðisverðs þegar kæmi fram á næsta ár og tók verðbólguspá þeirra mið af því. Miðað við þessa tölu þá virðist sem Seðlabankinn sé að ofspá verðbólgunni töluvert næsta kastið. Vísitalan virðist einnig hafa komið greiningardeildum á óvart en þær hafa lækkað verðbólguspár fyrir september mánuð og nemur lækkunin rúmlega 0,2 prósent,“ útskýrir hann.
Þannig hefur meðal annars Hagfræðideild Landsbankans uppfært verðbólguspá sína fyrir fjórða ársfjórðung og gerir nú ráð fyrir að hún verði 8,8 prósent en hafði áður spáð að hún yrði 9 prósent. Verðbólgan mælist núna 9,7 prósent – eftir að hafa lækkað óvænt í síðasta mánuði um 0,2 prósentur – en í síðustu þjóðhagsspá Seðlabankans gerði bankinn ráð fyrir því að verðbólgan myndi toppa í lok ársins í tæplega 11 prósentum.
Sævar Ingi Haraldsson, sjóðstjóri skuldabréfa hjá Stefni, segir að verðlækkunin á íbúðamarkaði hafi sumpart komið á óvart.
„Merki um að fasteignamarkaðurinn gæti verið að kólna hafa hins vegar verið að koma fram að undanförnu, meðal annars hefur ásett verð íbúða verið að hækka minna en áður og aukinn fjöldi fasteigna til sölu hefur vaxið hratt. Þessi mæling ýtir undir það, sérstaklega í ljósi þess að hækkun vaxta og hert lánþegaskilyrði eru að öllum líkindum ekki komin að fullu fram í þessum tölum þar sem þær byggja á þriggja mánaða meðaltali,“ nefnir Sævar.
Þá bendir hann á að með hliðsjón af því að íbúðaverð er stærsti liður verðbólgunnar hljóti þetta að breyta öllum skammtímaverðbólguspám. Seðlabankinn hafi þannig gert ráð fyrir því að verðbólgan á þriðja ársfjórðungi yrði um 10,4% en líklega verði hún nær 9,7 prósentum þegar upp er staðið.
„Því má gera ráð fyrir að næstu skref Seðlabankans verði minni en síðustu skref bankans en skuldabréfamarkaðurinn er að verðleggja inn að vextir gætu hækkað um liðlega 0,5 prósentur til viðbótar áður en að vaxtahækkunarferli bankans lýkur,“ að sögn Sævars.
Seðlabankinn hækkaði vexti sína síðast í lok ágústmánaðar um 75 punkta – úr 4,75 prósentum í 5,5 prósent – en frá áramótum hafa þeir hækkað um 3,75 prósentur.
Fjárfestar á skuldabréfamarkaði brugðust afgerandi við nýju tölunum um íbúðamarkaðinn og lækkaði ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa á styttri endanum – RB23 og RB24 – um 12 til 13 punkta í samanlagt um 3,5 milljarða króna veltu í viðskiptum dagsins. Krafa bréfanna stendur núna í um 6,15 prósentum og er komin á svipaðar slóðir og hún var fyrir síðustu vaxtahækkun Seðlabankans og samhliða því svarta verðbólguspá hans sem varð þess valdandi að ávöxtunarkrafa ríkisbréfa rauk upp í kjölfarið.
Þróun ávöxtunarkröfunnar á óverðtryggðum ríkisbréfum hefur ekki aðeins áhrif á þau lánskjör sem ríkissjóði bjóðast á innlendum skuldabréfamarkaði heldur sömuleiðis á fjármagnskostnað fyrirtækja og heimila. Bankarnir fjármagna til að mynda fasteignalán til heimila með útgáfu sértryggðra skuldabréfa og viðskipti með þau bréf fylgja þróun á ríkisbréfamarkaðnum.
Birgir Haraldsson, sjóðstjóri skuldabréfa hjá Akta sjóðum, telur ljóst að þessi lækkun á húsnæðisverði muni gefa Seðlabankanum „færi á því að hægja á vaxtahækkunartaktinum og bíða og sjá hvernig framvindan verður á verðbólgunni næstu mánuði. Það má þannig segja að hækkunarferli stýrivaxta sé núna orðið enn meira gagnadrifið eftir þessar nýju fasteignatölur,“ að sögn Birgis, og bætir við:
„Þess fyrir utan er margt sem bendir til þess að það versta sé yfirstaðið í verðbólgutaktinum erlendis, að minnsta kosti innan þess sem snýr að erlendu vöruverðlagi og röskunum á virðiskeðjum.“
Hann telur hins vegar að vextir Seðlabankans muni engu að síður hækka meira út árið og þá líklega í takti við væntingar fjárfesta um 0,5 til 1 prósenta hækkun til viðbótar.
„Við erum enn í viðkvæmri stöðu með verðbólgu og verðbólguvæntingar langt umfram markmið, kjarasamninga lausa í haust og hagkerfið statt í mikilli framleiðsluspennu. Það þarf því að stíga varlega til jarðar og ekki fagna of fljótt þrátt fyrir að það sé kærkomið fyrir Seðlabankann að sjá taktinn á fasteignamarkaði róast,“ segir Birgir.
Ingólfur Snorri tekur í sama strengt og bendir á að miðað við ríkisbréfaferilinn þá sé markaðurinn í dag að verðleggja að stýrivextir eigi eftir að hækka um 0,5 prósentur og verði þannig komnir í sex prósent í árslok.
„Samkvæmt því er ekki mikið eftir í vaxtahækkunarferlinu. En augljóslega eru margir aðrir þættir sem geta haft áhrif. Meðal annars verða kjarasamningar verða lausir í vetur og útkoman úr þeim getur hæglega breytt myndinni,“ að hans mati.
16. september 2022
Akta hefur stofnað fjárfestingarsjóðinn Akta Lausafjársjóð hs. og hefur hann hafið starfsemi. Akta Lausafjársjóður fjárfestir í dreifðu safni innlána, víxla og skuldabréfa með áherslu á góðan seljanleika. Við stýringu sjóðsins er leitast við að takmarka vaxtaáhættu og er áætlaður hámarks meðallíftími sjóðsins 2 ár. Markmið sjóðsins er að skila jafnri ávöxtun á skammtímavaxtamarkaði.
Fjárfestingateymi sjóðsins skipa Þórhallur Ásbjörnsson, sjóðstjóri sjóðsins, og Birgir Haraldsson. Teymið býr yfir mikilli þekkingu og umfangsmikilli reynslu af skuldabréfamarkaði og sjóðastýringu.
Nánari upplýsingar um Akta Lausafjársjóð má finna hér. Sjóðurinn er fjárfestingarsjóður og opinn bæði almennum fjárfestum sem og fagfjárfestum.
Nánari upplýsingar veita og Þórhallur Ásbjörnsson (thorhallur@akta.is) sjóðstjóri og Örn Þorsteinsson (orn@akta.is) framkvæmdastjóri Akta sjóða.
7. júlí 2022
Viðskiptablaðið leitaði til Davíðs Stefánssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við umfjöllun sína um skuldabréfamarkaði.
Hærra verðbólguálag á Íslandi
Munur á ávöxtunarkröfu verðtryggðra bandarískra og íslenskra ríkisskuldabréfa hefur dregist verulega saman undanfarið og mælst í sögulegu lágmarki. Segja má að nær ekkert áhættuálag sé því á íslenskum bréfum miðað við þau bandarísku þrátt fyrir smæð markaðarins, minni seljanleika og sveiflukenndara hagkerfi.
Davíð Stefánsson, sjóðstjóri hjá Akta, tekur undir þá fullyrðingu að lítill vaxtamunur á milli Íslands og Bandaríkjanna sé óvenjulegur. „Þrátt fyrir að verðbólgan sem slík sé keimlík á milli landanna er verðbólguálagið mun lægra í Bandaríkjunum. Bandaríski skuldabréfamarkaðurinn býst mun frekar við því að þessi verðbólgukúfur gangi hratt yfir og að verðbólgan verði í kjölfarið nær því sem hún er að jafnaði úti. Hér heima má segja að markaðurinn geri ráð fyrir að verðbólgan verði hærri lengur,“ segir Davíð.
Þar spili fyrst og fremst inn í kjarasamningar í haust þar sem búist er við umtalsverðum launahækkunum ofan á þær launahækkanir sem hafa átt sér stað undanfarin ár. Að auki séu hagvaxtarhorfur á Íslandi betri en erlendis og því gæti þróttur hagkerfisins gagnvart vaxtahækkunum verið meiri, auk þess sem hluti verðbólgunnar er fluttur inn erlendis frá. „Sú staðreynd að hagvaxtarhorfur eru talsvert betri en erlendis gerir það hugsanlega að verkum að verðbólguálag er mun hærra á Íslandi en í Bandaríkjunum,“ segir Davíð.
11. maí 2022
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Davíðs Stefánssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við nýlegar sveiflur á fjármálamörkuðum innanlands og erlendis.
Uggur og ótti á mörkuðum: Horfurnar betri á Íslandi en óvissan áfram ráðandi
Ef seðlabankar iðnríkja sjá sig knúna til að hækka vexti hratt og mikið vegna ótta um að verðbólgan sé að fara úr böndunum gæti það leitt efnahagssamdráttar. Verði slík sviðsmynd að veruleika, sem er ekki útilokað, þá mun það setja áfram þrýsting á eignamarkaði eins og hlutabréf sem hafa nú þegar lækkað skarpt hér heima og erlendis.
Þetta segja viðmælendur Innherja á fjármálamarkaði en þrátt fyrir að Ísland muni ekki fara varhluta af þeirri þróun þá benda þeir á að efnahagshorfur hér á landi séu nokkuð betri en í okkar helstu viðskiptalöndum, einkum vegna góðrar stöðu útflutningsgreinanna.
„Við erum varla að fara að glíma við samdrátt ofan í mikla verðbólgu,“ útskýrir Eggert Þór Aðalsteinsson, fjárfestingarstjóri hjá Kviku eignastýringu, og bætir við: „Útflutningsgreinarnar standa ansi vel þessa dagana eftir miklar hækkanir á hrávöruverði og útlit er fyrir gott sumar í ferðaþjónustunni. Seðlabankinn spáir þannig 4,6 prósenta hagvexti sem er umtalsvert meiri vöxtur en í helstu viðskiptalöndum okkar í Evrópu.“
Hlutabréfamarkaðir, bæði hér á landi og í Evrópu, réttu úr kútnum fyrst þegar markaðir opnuðu í morgun eftir miklar verðlækkanir að undanförnu. Þær gengu hins vegar að stórum hluta til baka og Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hafði aðeins hækkað um 0,01 prósent við lokun markaða rétt fyrir skemmstu. Mest hækkaði gengi bréfa Eimskips, Icelandair, Kviku og VÍS, eða á bilinu 2 til 2,5 prósent. Úrvalsvísitalan er því niður um 17,4 prósent frá áramótum – er þá ekki búið að leiðrétta fyrir arðgreiðslum sumra félaga – en þar munar miklu um fjórðungslækkun á hlutabréfaverði Marels á tímabilinu en félagið vigtar mest allra í vísitölunni.
Davíð Stefánsson, sjóðstjóri blandaðra sjóða hjá Akta, segir við Innherja að á síðustu misserum hafi umhverfið á fjármálamörkuðum verið „krefjandi“ og að leita þurfti áratugi aftur í tímann til að finna sambærilegar aðstæður, að minnsta kosti á alþjóðavísu.
„Fjárfestar horfa nú til þess að verðbólga er sögulega há auk þess sem seðlabankar eru að hækka vexti samhliða því að hagvöxtur er að koma hratt niður. Hefðbundin blönduð eignasöfn sem reiða sig á hækkun ríkisskuldabréfa þegar hlutabréf lækka virka því ekki eins og svo oft áður. Á þessu ári er blandað safn erlendra langra ríkisskuldabréfa og hlutabréfa að eiga eitt sitt versta ár, horft yfir síðustu þrjá áratugi,“ segir Davíð.
Að sögn hans sé Ísland ekki ónæmt fyrir þessari þróun en til skamms tíma séu aðstæður hér á landi betri og vísar þá til stöðu okkar helstu útflutningsgreina, eins og meðal annars orkufyrirtækjanna og sjávarútvegs, sem hafa notið góðs af því ástandi sem hefur ríkt að undanförnu.
Það er líklegt að niðurstaða kjarasamninga muni hafa umtalsverð áhrif á markaði en útlit er fyrir að hið opinbera þurfi að koma með afgerandi hætti að borðinu til að mjúk lending náist.
„Ef hagvaxtarhorfur versna hins vegar enn frekar á heimsvísu er ljóst að það mun hafa neikvæð áhrif á Ísland frá því sem nú er og horfurnar færast nær því sem er í þróuðum löndum, til dæmis Bandaríkjunum. Þá er líklegt að niðurstaða kjarasamninga muni hafa umtalsverð áhrif á markaði en útlit er fyrir að hið opinbera þurfi að koma með afgerandi hætti að borðinu til að mjúk lending náist,“ að mati Davíðs.
Það sem af er ári hefur eignaverð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum gefið mikið eftir og óvissa aukist. Þannig hefur meðal annars Nasdaq vísitalan í Bandaríkjunum lækkað um yfir fjórðung frá áramótum en væntingar um mun meiri og hraðari vaxtahækkanir vestanhafs hefur leitt til mikillar leiðréttingar á hlutabréfaverði margra tæknifyrirtækja þar í landi. Sé litið til Úrvalsvísitölunnar hér á landi þá hefur verðlækkun helstu íslensku félaganna í Kauphöllinni verið sambærileg borið saman við hlutabréfavísitölur á hinum Norðurlöndunum.
Í síðustu Peningamálum Seðlabankans, sem birtust á miðvikudaginn í liðinni viku, kom fram að verðlækkun hlutabréfa í upphafi árs hafi einkum skýrst af áhyggjum af hraðari hækkun seðlabankavaxta helstu iðnríkja. „Ásókn í öruggari fjáreignir, eins og gull og bandarísk ríkisskuldabréf, jókst og sveiflur á fjármálamörkuðum jukust. Áhættu- og vaxtaálag hækkaði einnig, einkum á áhættumeiri fjáreignir nýmarkaðsríkja. Þá hefur hlutabréfaverð í Kína lækkað mikið undanfarna mánuði sem að hluta má rekja til hertra sóttvarnaraðgerða þar í landi. Fjármálaleg skilyrði á heimsvísu hafa því versnað,“ sagði í ritinu.
Á Íslandi varð lækkunin á hlutabréfum í kjölfar innrásar Rússa mest um tólf prósent snemma í marsmánuði og á þeim tíma virtist „mikið hafa verið um kröfur um auknar tryggingar og að framvirkum samningum hafi verið lokað að fullu eða að hluta,“ eins og nefnt er í Peningamálum Seðlabankans.
Í nýrri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem var birt um miðjan apríl, er áætlað að hagvöxtur í heiminum verði 3,6 prósent í ár en það 0,8 prósentum minni vöxtur en sjóðurinn spáði í janúar í ár. Skýrist það einkum af þeim áhrifum sem stríðsátökin í Úkraínu, sem hafa leitt til mikilla verðhækkana á olíu og öðrum hrávörum, og refsiaðgerðir gegn Rússlandi hafa í för með sér fyrir heimshagkerfið. Í Peningamálum Seðlabankans er bent á að hagvaxtarhorfur hafa versnað í öllum helstu viðskiptalöndum Íslands, sérstaklega á evrusvæðinu, bæði á þessu ári og því næsta.
Davíð hjá sjóðastýringufyrirtækinu Akta nefnir að síðustu ár og áratugi hafi vaxtastig lækkað stöðugt og þannig stutt við verðhækkanir hlutabréfa beggja vegna Atlantshafsins.
„Nú hefur aftur á móti vaxtastig hækkað hratt á skömmum tíma sem hefur leitt til þess að þrýstingur hefur myndast á verðlagningu hlutabréfa. Færa má rök fyrir því að markaðir hafi að mestu leiti endurstillt sig í samræmi við núverandi vaxtastig – og væntingum um frekari hækkanir – en óvissan sem nú stendur eftir er þá hvort hagvaxtarhorfur fari versnandi eða batnandi,“ segir hann.
Íslensk hlutabréf endurspegla líklegast hærra vaxtastig og horfur sem eru nokkuð betri en í flestum þróuðum löndum.
Þá telur hann ljóst að framvinda verðbólgu næstu misseri og viðbrögð seðlabanka við henni muni líkast til hafa ráðandi áhrif á eignarmarkaði. „Ef seðlabankar sjá sig knúna til að hækka vexti um og of vegna áframhaldandi verðbólgu gætu þeir leitt til samdráttar en slík sviðsmynd myndi leiða til áframhaldandi þrýstings á eignamarkaði. Íslensk hlutabréf endurspegla líklegast hærra vaxtastig og horfur sem eru nokkuð betri en í flestum þróuðum löndum. Ljóst er að óvissan er umtalsverð en ætti að skýrast eftir því sem líður á haustið,“ segir Davíð.
Verðbólga mældist 7,2 prósent í apríl og samkvæmt nýrri spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólgan muni mælast í kringum átta prósent á þriðja og fjórða ársfjórðungi – sem er um 2,8 prósentum meiri verðbólga var spáð í febrúar. Vextir bankans voru hækkaðir úr 2,75 prósentum í 3,75 prósent á vaxtaákvörðunarfundi síðasta miðvikudag og flestir greinendur spá því að vextirnir verði komnir yfir fimm prósent undir lok sumars.
Viðmælendur Innherja á fjármálamarkaði segja að í þessu breytta umhverfi, sem einkennist af hækkandi vöxtum til að ná niður sögulega háum verðbólguvæntingum og kólnandi hagkerfi, þá verður erfitt fyrir mörg félög í Kauphöllinni að sýna fram á mikinn afkomubata í rekstrinum á næstunni.
Gylfi Zoega, professor í hagfræði og nefndarmaður í peningastefnd Seðlabankans, lét hafa það eftir sér í viðtali um helgina að nú þegar lágvaxtatímabilið væri að renna sitt skeið á enda tæki við nýtt umhverfi og við myndum líklega sjá „leiðréttingu“ á eignamörkuðum á næstu tólf mánuðum.
Spurður um þau ummæli Gylfa og hvort það megi því vænta enn meiri verðlækkana í Kauphöllinni á næstunni samtímis frekari vaxtahækkunum þá segir Eggert hjá Kviku eignastýringu að hann „geti ekki betur séð en að markaðir séu nokkuð framsýnir, að minnsta kosti hvað snertir hlutabréf og skuldabréf.“
„Fjárfestar hafa verðlagt inn vaxtahækkanir og aðra óvissuþætti í gengi hlutabréfa, enda hefur talsverð verðleiðrétting nú þegar átt sér stað á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. Nasdaq-vísitalan hefur lækkað um 25 prósent á árinu og heimsvísitala hlutabréfa um 17 prósent. Meðaltalsbreyting á 10 ára ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa í heiminum nemur um 150 punktum á árinu. Óvissa er vissulega enn til staðar hver þróunin verður í Úkraínu, hvernig tekst að koma aðfangakeðjum í eðlilegra horf, ekki síst þegar horft er til Kína, og eins hvernig þróun alþjóðavæðingar í viðskiptum verður á næstu árum,“ að sögn Eggerts.
Að hans mati munu nokkur atriði styðja við íslenskan hlutabréfamarkað horft fram á veginn, hvað svo sem eigi eftir að gerast í heimsbúskapnum.
„Í fyrsta lagi er rekstur og efnahagur kauphallarfélaga í góðum málum. Rekstur þeirra verður ágætur á árinu þegar horft er til þeirra uppgjöra sem við höfum séð á fyrsta ársfjórðungi. Fjármálafyrirtæki, fasteignafélög og smásölufyrirtæki ættu að njóta góðs af auknum efnahagsumsvifum og mikil eftirspurn er eftir afurðum útgerðarfélaganna. Bókunarstaða flugfélaganna lítur vel út fyrir árið þótt hátt olíuverð setji vissulega strik í reikninginn. Marel hefur verið í mótvindi en ef marka má orð stjórnenda félagsins þá mun framlegð batna þegar líða tekur á árið. Félagið hefur einnig farið í athyglisverða yfirtöku sem mun styðja við metnaðarfull vaxtaráform. Verðlækkanir að undanförnu hafa því lækkað verðkennitölur fyrirtækja,“ útskýrir Eggert.
Þá nefnir hann einnig að talsvert geta sé enn fyrir hendi fyrir mörg skráð félög til að koma út fjármunum til hluthafa í gegnum arðgreiðslur og endurkaup. Vísar hann þar meðal annars til bankanna sem séu enn að reka sig á háum eiginfjárhlutföllum. Þannig kom fram í síðasta árshlutauppgjöri Arion að bankinn væri með umfram eigið fé upp á tæplega 19 milljarða á meðan stjórnendur Íslandsbanka meta umfram eigið fé bankans vera á bilinu 35 til 40 milljarða.
Fjárfestar hafa nú þegar verðlagt inn vaxtahækkanir og aðra óvissuþætti í gengi hlutabréfa, enda hefur talsverð verðleiðrétting nú þegar átt sér stað á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum.
Að sögn Eggert þá er einnig margt sem bendir til þess að vægi erlendra fjárfesta á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði muni vaxa á komandi misserum. „Þeir horfa til þess að íslenski hlutabréfamarkaðurinn er kominn inn í flokk nýmarkaðsríkja og frekari uppfærsla gæti verið í kortunum á næstu árum. Þá hafa erlendir sjóðir verið að horfa til vaxtamunarviðskipta á skuldabréfamarkaði.“
Innherji greindi þannig frá því í morgun að BlueBay Asset Management, eitt stærsta sérhæfða skuldabréfastýringarfélag Evrópu, hefði fyrir um mánuði keypt 20 ára löng óverðtryggð ríkisskuldabréf í útboði Lánamála ríkisins fyrir 20 milljarða króna. Kaupin knúðu Seðlabanka Íslands til þess að stíga inn á gjaldeyrismarkaðinn og kaupa gjaldeyri fyrir álíka upphæð.
Í fréttabréfi sem Mark Dowding, yfirfjárfestingastjóri BlueBay, sendi á viðskiptavini félagsins í síðustu viku sagði meðal annars: „Horft fram á veginn sjáum við Ísland sem AAA land og, með því að skoða sparnaðarþróun og fjölda annarra mælikvarða, setjum við fram þá skoðun að landið geti í framtíðinni orðið þekkt sem Sviss norðursins.“
Við kaup Bluebay á ríkisbréfaflokknum RB42 stækkaði eignarhald erlendra sjóða á íslenskum ríkisbréfum um nærri helming. Hlutdeild þeirra er hins vegar aðeins um sex prósent af öllum útistandandi skuldabréfum íslenska ríkisins sem er afar lágt hlutfall í samanburði við önnur lönd.
Í september næstkomandi mun íslenski hlutabréfamarkaðurinn færast upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets) hjá vísitölufyrirtækinu FTSE sem mun setja skráð félög hér á landi í sigti marfalt stærri hóps erlendra fjárfestingarsjóða.
Umfang sjóða sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við nýmarkaðavísitölur er margfalt meira en þeirra sem fylgja vaxtarmarkaðsvísitölum. „Þetta snýst ekki einungis um vísitölusjóði – þá erum við líklega að tala um nokkra tugi milljarða – heldur einnig um virka fjárfesta, bæði þá sem sérhæfa sig í fjárfestingum á nýmörkuðum og þá sem einfaldlega sjá flokkun FTSE sem merki um að íslenski markaðurinn sé á réttri leið,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar í samtali við Innherja í síðasta mánuði.
5. maí 2022
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Birgis Haraldssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við hækkandi stýrivexti.
Harður tónn í Seðlabankanum bendir til töluverðra vaxtahækkana í sumar
Tónninn í yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun var harðari en hann hefur verið að undanförnu að sögn sérfræðinga á skuldabréfamarkaði. Hann gefur til kynna að bankinn ætli sér að hækka vexti töluvert í sumar.
„Við erum nú að sjá mestu verðbólgu frá því í maí 2010 og mátti því búast við sterkum skilaboðum frá Seðlabankanum,“ segir Ingólfur Snorri Kristjánsson, forstöðumaður skuldabréfastýringar hjá Íslandssjóðum. „Tónninn í yfirlýsingunni er harðari en við höfum séð á undanförnum mánuðum og ljóst að bankinn mun hækka vexti enn frekar á komandi mánuðum.“
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar, sem ákvað að hækka vexti um eina prósentu, kom fram að nefndin teldi líklegt að herða þyrfti taumhald peningastefnunnar enn frekar á næstu mánuðum til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Eftir ákvörðunina eru meginvextir bankans 3,75 prósent.
„Tónninn í yfirlýsingunnni var töluvert harðari en undanfarna fundi þar sem peningastefnunefndin gott sem lofaði frekari vaxtahækkunum í sumar,“ segir Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta.
„Það má því gera ráð fyrir að stýrivextir verði orðnir nær 6 prósent í lok sumars miðað við þessa framsýnu leiðsögn og stöðu efnahagsmála í dag.“
Á kynningarfundi peningastefnunefndar var tónninn þó mýkri og að því leyti fór hljóð og mynd ekki alveg saman að sögn Birgis.
„Hins vegar skipta aðgerðirnar og tónninn í yfirlýsingunni meira máli á þessu stigi í vaxtahækkunarferlinu og það er ljóst að Seðlabankinn vill fara sjá mun harðara taumhald í peningastefnunni á síðari helming þessa árs,“ segir Birgir.
Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að verðbólga verði að meðaltali 8,1 prósent á þriðja ársfjórðungi, sem er 2,8 prósentustigum meiri verðbólga en spáð var í febrúar, og um 8 prósent á fjórða ársfjórðungi, sem er um 3,3 prósentustigum hærra en febrúarspáin. Ekki er talið að verðbólga verði komin undir 3 prósent fyrr en seint árið 2024.
Jafnframt kom fram í yfirlýsingunni að ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum myndu skipta miklu um hversu hátt vextir þyrftu að fara.
„Verðbólgan mælist á breiðum grunni og flestir liðir eru að hækka. Margir hverjir eru liðir sem Seðlabankinn hefur lítil áhrif á eins og erlendar hrávöruverðshækkanir og beina þeir því spjótum sínum að ríkisstjórninni og aðilum vinnumarkaðarins vegna komandi kjaraviðræðna,“ segir Ingólfur Snorri.
Verðbólga mældist 7,2 prósent í apríl og sem fyrr var hækkun húsnæðisverðs fyrirferðarmikil í mælingunni. Á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vonbrigði að hert lánþegaskilyrði hefðu ekki enn haft tilætluð áhrif á fasteignamarkaðinn.
Seðlabankinn ákvað í fyrra að beita tveimur þjóðhagsvarúðartækjum í því skyni að koma böndum á fasteignaverð sem hefur hækkað um 22,5 prósent á síðustu 12 mánuðum. Bankinn kynnti meðal annars nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar en eins og Innherji hefur fjallað um eru miklar efasemdir um hvort þessi aðgerð hafi hamlandi áhrif á markaðinn.
„Það hefur valdið mér vonbrigðum að þessi skilyrði hafi ekki haldið meira aftur af fasteignamarkaðinum,“ sagði Ásgeir, spurður hvort Seðlabankinn teldi að herða þyrfti skilyrðin enn frekar.
11. apríl 2022
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur veitt Akta sjóðum aukið starfsleyfi til að stunda eignastýringu, fjárfestingar-ráðgjöf og móttöku og miðlun fyrirmæla varðandi fjármálagerninga skv. 1., 2., og 4. tölul.3. mgr. 9. gr. laga nr. 45/2020.
Félagið hefur þegar hlotið starfsleyfi sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða samkvæmt lögum nr. 45/2020 og sem rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. lögum nr. 116/2021, um verðbréfasjóði.
Fyrir starfsemi Akta sjóða á sviði eignastýringar fer Örn Þorsteinsson en hann er jafnframt framkvæmdastjóri félagsins. Örn hefur víðtæka reynslu af íslenskum fjármálamarkaði og hefur starfað hjá Akta allt frá stofnun félagsins árið 2013. Með Erni á eignastýringarsviði starfa Helena Kristín Brynjólfsdóttir og Sigurður Kristján Sigurðsson. Þá verður Þórhallur Ásbjörnsson forstöðumaður sjóðastýringar.
„Eignastýring, ráðgjöf og móttaka og miðlun fyrirmæla varðandi fjármálagerninga er mikilvæg viðbót við sjóðastarfsemi Akta. Við munum áfram leggja megináherslu á að bjóða upp á gott úrval framúrskarandi sjóða en með þessum auknu starfsheimildum eykst geta félagsins til að veita sjóðsfélögum þjónustu“ segir Örn.
28. mars 2022
Akta Alviðra, blandaður sjóður í stýringu Akta, var nýlega tilnefndur til hinna virtu EuroHedge sjóðastýringarverðlauna í flokki nýliða og smærri sjóða sem fjárfesta á grundvelli alþjóðlegrar efnahagsgreiningar (e. macro). Tilkynnt var um sigurvegara í þessum flokki þann 17. mars síðastliðinn en tilnefningar til verðlaunanna voru byggðar á hlutlægu mati EuroHedge á frammistöðu sjóða í að skila framúrskarandi, jákvæðri ávöxtun til sjóðsfélaga samhliða hóflegum sveiflum í ávöxtun.
Þetta er í fyrsta skiptið sem Akta er tilnefnt til alþjóðlegra sjóðastýringarverðlauna en þess má geta að mörg af fremstu sjóðastýringarfélögum heims hafa verið tilnefnd til EuroHedge verðlaunanna í gegnum árin.
Akta Alviðra er í dag á sínu fimmta starfsári og er sjóðurinn opinn einstaklingum, fyrirtækjum og fagfjárfestum. Sjóðurinn beitir virkri stýringu og fjárfestir bæði í hlutabréfum og skuldabréfum. Hlutabréfasafn Alviðru er að jafnaði að öllu leyti erlent og er það markmið sjóðsins að skila jákvæðri ávöxtun yfir hvert heilt ár óháð aðstæðum á mörkuðum. Sjóðstjórar eru Davíð Stefánsson og Birgir Haraldsson sem búa yfir umfangsmikilli erlendri starfsreynslu ásamt sérfræðiþekkingu í stýringu eignasafna og alþjóðlegum efnahags- og fyrirtækjagreiningum.
https://withintelligenceawards.evessiocloud.com/eurohedgeawards2021/en/page/nominations
23. febrúar 2022
Fréttablaðið leitaði til BirgisHaraldssonar, sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við stýrivaxtahækkanir.
Stýrivextir hafa verið hækkaðirvíðs vegar í heiminum og eru frekari hækkanir í kortunum. Sjóðsstjóri hjá Akta segir að vextir hafi hækkað víða í mörgum nýmarkaðsríkjum og aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að viðhorf til heppilegs vaxtastigs hafi breyst.
Birgir Haraldsson, sjóðsstjóri hjá Akta, segir að Ísland sé ekki sér á báti þegar kemur að vaxtahækkunum.
„Fólk er oft á tíðum að bera Ísland saman við til dæmis evrusvæðið og Bretland sem er ekki alveg réttur samanburður,“segir Birgir og bætir við að á síðastliðnu ári hafi stýrivextir í mörgum nýmarkaðsríkjumverið hækkaðir.
„Vextir hafa hækkað skarpt í Brasilíu og Tékklandi sem dæmi. Frá því í maí í fyrra þegar Seðlabanki Íslands hóf að hækka vexti aftur hafa meiri en 50 vaxtahækkanir átt sér stað víðsvegar um heiminn á móti aðeins fimm vaxtalækkunum. Umhverfið hefur þannig breyst hratt á heimsvísu. En það sem hefur verið að gerast síðastliðna mánuði er að markaðir hafa verið að verðleggja inn hraðari og hraðari stýrivaxtahækkanir hjá stærstu seðlabönkum heims, til dæmis í Bandaríkjunum.“
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að það hafi átt sér stað allhraður viðsnúningur um víða veröld í viðhorfi til heppilegs vaxtastigs, bæði hvað það eigi að verðanúna og hvað það þurfi að vera á komandi fjórðungum.
„Þetta hefur gerst frekar hratt. Verðbólgan hefur risið svo hratt um heim allan og orðið vandamál víða,“ segir Jón Bjarki og bætir við að vöxtur sé að taka við sér að sama skapi á meðallanda heims. „Vinnumarkaðurinn er orðinn miklu nær jafnvægi bæði vestan hafs og austan heldur en margir bjuggust við. Þannig að bara á örfáum mánuðum höfum við séð væntingar til vaxtaþróunar hjá helstu seðlabönkum heims breytast frá því að það gæti verið alllangt í hækkun vaxta í það að þeir eru margir ýmistbyrjaðir að hækka vexti eða búnir að gefa það skýrt til kynna að vaxtahækkunsé á næsta leiti,“ segir Jón Bjarki og nefnir að Noregsbanki sé búinn að hækkavexti í tvígang og þar eins og víðar séu líkur á töluverðum vaxtahækkunum á árinu.
„Það sama má segja um Englandsbankaen þar er vaxtahækkunarferli einnig hafið. Það er einnig þróunin í spánum ogvæntingunum að vaxtahækkunarferlið verði hraðara heldur en vænst var fyrir nokkrum vikum síðan. Við þetta má bæta að almennt er búist við því að þar verði hálfs prósentustigs hækkunarskref tekið í næsta mánuði. Seðlabanki Bandaríkjanna hélt lengi vel fram að um væri að ræða skammtíma verðbólguskot en hefur nú viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér. Þannig að ljóst er að þeir munu hækka vexti á komandi misserum.“
Birgir segir jafnframt að Seðlabanki Bandaríkjanna muni hækka vexti í mars og eitthvað fram eftir ári.
„Heilt yfir má segja að þaðverður að öllum líkindum hörð peningastefna, í orði og á borði, á heimsvísu fram á mitt sumar. Þá er ekki ólíklegt að Seðlabanki Bandaríkjanna vilji til dæmis bíða og sjá á þeim tíma hvernig landið liggur. Það er ýmislegt sem bendir til þess að árstakturinn í verðbólgunni muni fara að koma niður inn í vorið í Bandaríkjunum vegna grunnáhrifa sem gæti gefið svigrúm til að endurmetastöðuna síðar í sumar.“
Birgir bendir einnig á að sumtbendi til að það versta sé yfirstaðið í verðbólguskotinu víða erlendis. „Það er eitt og annað sem bendir til þess að þessi virðiskeðjuvandamál og framleiðsluvandamál sem hafa verið séu að hverfa á braut. Það þarf að fylgjast vel með því næstu mánuði.“
28. janúar 2022
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Birgis Haraldssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við hækkandi stýrivexti.
Ekki er útilokað að Seðlabanki Íslands ákveði að hækka stýrivexti um 1 prósentu á næsta vaxtaákvörðunarfundi í febrúar. Verðbólgumælingin fyrir janúar var mikið frávik í sögulegu samhengi og undirliggjandi verðbólguþrýstingur er umtalsverður. Þetta segir Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5 prósent í janúar á þessu ári og mælist tólf mánaða verðbólga því 5,7 prósent. Hefur árstaktur verðbólgunnar ekki verið meiri frá því í apríl árið 2012.
Hækkunin var langt umfram spár greinenda en þær höfðu að meðaltali gert ráð fyrir því að vísitala neysluverðs myndi lækka í janúar um 0,15 til 0,2 prósent. Það hefði þýtt að tólf mánaða verðbólgan færi undir 5 prósent.
Á síðustu tíu árum hefur verðlag lækkað um 0,35 prósentu að meðaltalií janúar og því er 0,5 prósentu hækkun töluvert frávik.
„Allt síðasta ár einkenndist af hærri mælingum en í venjulegu árferði en þetta er nærri tvöfalt hærra frávik en við sáum þegar hvað verst lét í fyrra. Það er frekar slæm byrjun á árinu,“ segir Birgir.
Annað áhyggjuefni fyrir Seðlabankans er hækkun á innlendu verðlagi fyrir utan húsnæði. Samkvæmt janúarmælingu Hagstofunnar er hækkunin á ársgrundvelli komin upp í nærri 5 prósent.
„Það gefur til kynna að undirliggjandi verðbólguþrýstingur er orðinn umtalsverður og langt umfram 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans,“ segir Birgir. „Þetta ætti klárlega að valda Seðlabankanum miklum áhyggjum og er alls ekki lengur hægt að tala um að verðbólgan sé eingöngu drifin áfram af húsnæðismarkaðnum.“
Undirliggjandi verðbólguþrýstingur
Væntingar um bratt vaxtahækkunarferli hér á landi komu skýrt fram í hækkun ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa á styttri endanum. Krafa RIKB23 hefur hækkað um 30 punkta það sem af er degi.
Breyttur tónn í peningastefnunefnd
Víðast hvar í heiminum hefur tónninn í seðlabönkum harðnað og fyrr í þessari viku boðaði bandaríski seðlabankinn brattar vaxtahækkanir. Jay Powell seðlabankastjóri sagði töluvert svigrúm til að hækka vexti án þess að ógna atvinnustigi.
Í þessu samhengi bendir Birgir á að allt frá því í maí á síðasta ári, þegar Seðlabanki Íslands hóf vaxtahækkunarferlið með 0,25 prósentahækkun á stýrivöxtum, hafi að minnsta kosti einn nefndarmaður kosið að hækka vexti um 0,50 prósentur. Í ágúst hafi tveir nefndarmenn talað fyrir slíkri hækkun og í nóvember hafi öll peningastefnunefndin að lokum verið sammála um að hækka vexti um 0,5 prósentur.
„Það er alls ekki lengur hægt að tala um að verðbólgan sé eingöngu drifin áfram af húsnæðismarkaðnum“
„Með hliðsjón af þessu öllu og þar sem að næsti fundur nefndarinnar eftir febrúar er ekki fyrr en í byrjun maí mánaðar þá er alls ekkihægt að útiloka að stýrivextir verði hækkaðir um 1,0 prósentur í einu stökki eftir tæplega tvær vikur,“ segir Birgir.
Stýrivextir standa í 2 prósentum. Fari svo að Seðlabankinn hækki vexti um 1 prósentu verður vaxtastig komið á sama stað og það var í janúar 2020, rétt áður en kórónuveiran skall með fullum þunga á íslenska hagkerfið.
Innherji hefur að undanförnu greint frá því að stærstu heildsölur landsins hafi ekki séð eins víðtækar og skarpar verðhækkanir, og þær sem hafa gengið yfir á síðustu vikum. Fyrirtækin koma litlum vörnum við og telja að hækkanir frá erlendum framleiðendum og birgjum eigi eftir að seytla inn í smásöluverð á næstu mánuðum.
Magnús Óli Ólafsson, forstjóri heildverslunarinnar Innnes, sagði meðal annars við Innherja að búast mætti við verulegum hækkunum á verðlagi eftir því sem áhrif hækkana frá erlendum birgjum brjótast fram á smásölumarkaði. Honum kæmi ekki á óvart ef verð innfluttra vara myndi hækka um 10 til 12 prósent á næstu mánuðum.
„Við höfum aðeins séð toppinn á ísjakanum,“ sagði Magnús Óli.
17. desember 2021
Akta leitar að einstaklingi í teymið til að starfa sem sjóðstjóri alþjóðlegra hlutabréfa. Um er að ræða tækifæri til að ganga til liðs við ört stækkandi sjóðastýringarfyrirtæki í fremstu röð. Akta er með breitt úrval sjóða og nema eignir í stýringu félagsins yfir 60 ma.kr.
Allar umsóknir skulu berast í gegnum umsóknarvef Alfreðs. Ef óskað er eftir nánari upplýsingum er unnt að senda póst á netfangið umsokn@akta.is.
Farið verður með umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál.
Umsóknarfrestur er til og með 3. janúar 2022.
25. nóvember 2021
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Birgis Haraldssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við umfjöllun um nýjustu verðbólgumælingar Hagstofu Íslands.
Verðbólgumæling Hagstofu Íslands var undir væntingum greinenda í fyrsta sinn síðan í nóvember í fyrra. „Í stuttu máli má þannig segja að verðbólgan sé að reynast þrálát en þó ekki eins kraftmikil og væntingar voru um,“ segir Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,35 prósent á milli mánaða í nóvember. Árstaktur verðbólgu er nú 4,8 prósent og hækkaði hann um 0,3 prósent á milli mánaða.
Opinberar spár greinenda fyrir nóvember lágu á frekar breiðu bili, eða á milli 0,2 til 0,6 prósenta, en meðaltalið var um 0,44 prósent sem hefði samsvarað árstakti upp á 4,9 prósent.
„Það er í raun húsnæðið sem heldur áfram að keyra verðbólguna hærra þessa stundina,“ segir Birgir en húsnæðisliðurinn var upp um 10,8 prósent á ársgrundvelli. Aðrir þættir, svo sem innflutningur og innlendir liðir án húsnæðis, voru talsvert nær 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Hækkun þeirra á ársgrundvelli nam 3,2 prósentum.
Fyrstu viðbrögð á markaði voru kaup á óverðtryggðum bréfum og sala á stysta verðtryggða ríkisbréfinu, en áhrifin gengu fljótlega til baka.
Verðbólguálag á markaði er nú 4 prósent ef miðað er við fimm ára ríkisskuldabréf og 3,7 prósent ef miðað er við 7 ára ríkisskuldabréf. Álagið hefur lækkað lítillega síðan Seðlabankinn hækkaði vexti um 50 punkta í síðustu viku.
„Varðandi framhaldið þá velta næstu verðbólgumælingar á því hvort krónan haldi áfram í styrkingarfasa og vegi upp hækkanir á hrávörum og öðrum innfluttum vörum,“ segir Gunnar Örn Erlingsson, sérfræðingur í skuldabréfamiðlun Arion banka. „Enn fremur verður forvitnilegt að sjá hvort vaxtahækkanir að undanförnu slái á miklar hækkanir á fasteignamarkaði eða hvort það þurfi ekki meira til. Mjög lágir vextir, brestur á framleiðslukeðjum á alþjóðavísu vegna covid, uppskerubrestir og orkuskortur, björgunarpakkar stjórnvalda og seðlabanka að viðbættum launahækkunum birtast auðvitað í hækkun verðlags á endanum.“
Birgir hjá Akta segir lykilatriði að fylgjast með hvernig fasteignaverð þróast með hækkandi vöxtum og aukinni greiðslubyrði fasteignalána. „Við erum að sjá einhver merki um að takturinn sé að hægjast á fasteignamarkaði en það verður ekki fyrr en eftir tvo til þrjá mánuði að myndin skýrist betur með það.“
Á aðeins örfáum mánuðum hefur Seðlabankinn hækkaði vexti úr 0,75 prósent í 2 prósent auk þess að hafa gripið til aðgerða á vettvangi fjármálastöðugleika- og fjármálaeftirlitsnefndar – hlutfall hámarks veðsetningar fasteignalána var lækkað í 80 prósent og eins settar reglur um 35 prósenta hámark á greiðslubyrði – í því skyni að reyna kæla fasteignamarkaðinn.
Þegar Seðlabankinn hækkaði vexti um 50 punkta í síðustu viku vísaði bankinn til versnandi verðbólguhorfa sem endurspegluðu einkum þrálátar alþjóðlegar verðhækkanir, hækkun launakostnaðar og aukna spennu í þjóðarbúinu.
Bankinn spáði því að verðbólga myndi hækka í 4,7 prósent undir lok þessa árs og hún færi ekki undir 3 prósent fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2022.
Seðlabankastjóri sagði í samtali við Innherja í síðustu viku að ekki væri „endilega“ von á hröðum vaxtahækkunum á komandi misserum. Næsti vaxtaákvörðunarfundur bankans er í febrúar.
„Við ættum þá að hafa betri yfirsýn yfir stöðu mála en það gæti verið óþægilegt fyrir okkur ef við sjáum verðbólguna halda áfram að hækka á næstu þremur mánuðum á sama tíma og þessar launahækkanir eru að koma inn,“ útskýrði Seðlabankastjóri.
16. nóvember 2021
Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta, birti í dag grein um alþjóðaumhverfið á nýju ári. Greinin birtist á Innherja, nýjum sjálfstæðum fréttamiðli innan Vísis.
Alþjóðaumhverfið á nýju ári
Það stefnir allt í að 2021 reynist gott ár fyrir innlenda og erlenda hlutabréfamarkaði. Íslenska hlutabréfavísitalan hefur hækkað um tæp 40% frá áramótum samanborið við 19% hækkun heimsvísitölu hlutabréfa. Þetta segir þó aðeins hálfa söguna því mikinn mun er að finna á milli atvinnugreina og landa. Þannig hefur bandaríski markaðurinn hækkað um 25% á árinu á meðan hlutabréfavísitala nýmarkaðsríkja er nokkurn veginn óbreytt.
Ólíkt hlutabréfamarkaðnum hefur róðurinn verið þyngri á skuldabréfamarkaði. Trygg, alþjóðleg skuldabréf hafa til að mynda lækkað um rúmlega 4% frá áramótum sem að óbreyttu verður versta útreið þeirra síðan 2005. Hérlendis hafa ríkisskuldabréf hækkað um 0,8% á árinu sem yrði lægsta árlega ávöxtun þeirra síðan 2013. Verðbólguþrýstingur og þverrandi stuðningur seðlabanka hefur haft áhrif. Ennfremur vænta markaðsaðilar umtalsverðra vaxtahækkana næstu 12 mánuði.
Nýtt fjárfestingaár er innan seilingar og er þá vert að huga að þeim alþjóðlegu þáttum sem gætu litað árangur blandaðra eignasafna með hátt vægi erlendra eigna fram til miðbiks næsta árs. Þrír þættir hafa einkum burði til þess að verða veigamiklir næstu ársfjórðunga.
Fyrst má nefna framvindu Covid-19 heimsfaraldursins. Það þarf að hafa í huga í þessu samhengi að heimsbúskapurinn er enn undir fullum afköstum vegna sóttvarnaaðgerða þrátt fyrir aukna útbreiðslu bólusetninga á árinu. Þannig er áætlað að heimsbúskapurinn sé rúmlega 2% undir afkastagetu í dag (var 4% undir í ágúst) vegna sóttvarnaaðgerða sem enn eru í gildi víða um heiminn.
Full afköst gætu þó verið innan seilingar. Sé til dæmis miðað við fjölda nýrra bólusetninga þessa stundina eru fimm mánuðir í að 75% heimsbyggðarinnar hafi fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. Aukin notkun örvunarskammta ætti einnig að efla virkni grunnbólusetninga á næsta ári. Samhliða þessu er líklegt að ný og öflug meðferðarlyf við Covid-19 komi á markað á næstu mánuðum. Pfizer hefur til að mynda sýnt að lyf sitt dragi úr hættunni á spítalavist og dauðsföllum um nærri 90% í óbólusettum einstaklingum. Áætlað er að 21 milljónir skammta af lyfinu verði til taks á fyrri helming næsta árs sem er umtalsvert magn miðað við heildarfjölda innlagna á spítala þegar verst hefur látið í öllum bylgjum faraldursins.
Sviðsmynd faraldursins og afkastagetu heimshagkerfisins er því sæmilega björt þegar horft er til næstu sex til níu mánaða þrátt fyrir að skammtímahorfur hafi versnað. Athafnafrelsi einstaklinga ásamt efnahags- og rekstrarumhverfi fyrirtækja ætti að batna frekar á næsta ári og umskiptin yfir í aukna neyslu á þjónustu fremur en vörum að hraðast.
Fjármálamarkaðir og efnahagshorfur í Kína gætu síðan spilað stórt hlutverk fram á næsta sumar. Reynt hefur á hagkerfið á þessu ári og var takturinn í hagvexti á þriðja ársfjórðungi einungis um 0%. Samansafn af hátíðnigögnum frá helstu viðskiptalöndum Kína benda einnig til þess að niðursveiflan hafi verið skörp að undanförnu. Covid-19 faraldurinn, orkuskortur, vandræði á fasteignamarkaði og lítill lánavöxtur hafa hægt á hagkerfinu ásamt auknum inngripum stjórnvalda í hinar ýmsu atvinnugreinar á árinu. Afleiðingin er að skuldaraálagið á asískum hávaxtaskuldabréfum stendur nú í sömu gildum og í mars á síðasta ári þegar Covid-19 óvissan náði hámarki og kínversk hlutabréf hafa lækkað um 12% frá áramótum. Á sama tíma er skuldaraálag bandarískra og evrópskra hávaxtaskuldabréfa nærri lægstu gildum síðasta áratugar og heimsvísitala hlutabréfa hefur hækkað um 19% á árinu.
Vont getur vissulega versnað en komi til aukins stuðnings við hagkerfið frá stjórnvöldum gæti taktur þess breyst til hins betra. Merki eru um slíkar aðgerðir að undanförnu og frekari stuðningur myndi gera sviðsmyndir kínverskra fjármálamarkaða ósamhverfar og hneigðar til hækkunar þegar litið er til næstu ársfjórðunga. Það myndi að auki hafa jákvæð áhrif fyrir alþjóðlega fjármálamarkaði ef kínverskir eignamarkaðir tækju við sér eftir einkar erfitt ár. Mikilvægt er því að fylgjast vel með aðgerðum stjórnvalda og takti hagkerfisins næstu misserin.
Að lokum er það þróun verðbólgu á alþjóðavísu en hún mun áfram leika mikilvægan þátt í að móta skammtímavaxtavæntingar og aðgerðir seðlabanka. Verðbólgan hefur verið há að undanförnu í heimsbúskapnum vegna verðhækkana á alþjóðavörum ásamt því að fasteignamarkaðir hafa margir hverjir hækkað skarpt. Riðlun á virðiskeðjum hefur leikið stórt hlutverk og sést það meðal annars á því hversu mörg bandarísk fyrirtæki hafa rætt um virðiskeðjuna og vöruskort á nýlegum uppgjörsfundum. Þannig hafa nærri 70% fyrirtækja rætt virðiskeðjuna í núverandi uppgjörshrinu miðað við einungis 22% að meðaltali síðasta áratuginn og rúmlega 20% þeirra hafa rætt vöruskort miðað við 5% að jafnaði.
Hvernig tekst að vinda ofan af vandræðum virðiskeðjunnar er því lykilatriði fyrir verðbólguþróunina. Þannig hefur framboð á hálfleiðurum (e. semiconductors) verið að skána og bílaframleiðsla samhliða því. Auk þessa hefur skipaflutningakostnaður tekið að lækka undanfarnar vikur. Verðbólgusviðsmyndin er án efa háð mikilli óvissu ennþá en þar sem verðbólgu- og vaxtavæntingar eru umtalsverðar er skynsamlegt að huga að hinu óvænta. Frekari útbreiðsla bólusetninga við Covid-19 ásamt virkum meðferðarlyfjum gæti til að mynda dregið úr verðbólguþrýstingi með því að ýta undir neyslu á þjónustu fremur en vörum og koma í veg fyrir frekari röskun á virðiskeðjum. Hár en þverrandi verðbólgutaktur gæti vel dugað til þess að draga úr hitanum í kringum verðbólgusöguna umtalsvert.
Í stuttu máli, þáttaskil gætu átt sér stað innan mikilvægra alþjóðlegra þátta á næstu ársfjórðungum og í kjölfarið litað árangur blandaðra eignasafna með hátt vægi erlendra eigna. Mikilvægt er því að halda þeim til haga með opnum hug.
9. september 2021
Helena Kristín Brynjólfsdóttir hefur gengið til liðs við Akta sjóði og starfar sem sérfræðingur í fjárfestatengslum og viðskiptaþróun. Hún starfaði áður sem verðbréfamiðlari hjá Íslandsbanka, í viðskiptaþróun hjá Bakkavör í London og í verðbréfauppgjöri Arion banka.
Helena hefur lokið B.Sc. gráðu í alþjóðaviðskiptafræði frá Loyola University Chicago og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
8. september 2021
Í dag eru fjögur ár liðin frá stofnun fjárfestingarsjóðsins Akta Alviðru. Alviðra er blandaður sjóður í rekstri Akta sjóða hf. sem fjárfestir á hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum á Íslandi og erlendis. Rík áhersla er lögð á erlenda markaði í hlutabréfasafni sjóðsins. Sjóðstjórar eru Davíð Stefánsson og Birgir Haraldsson.
Nokkrum sinnum á starfstíma Alviðru hafa sveiflur á mörkuðum verið miklar í sögulegu samhengi þar sem hlutabréf og aðrar áhættumeiri eignir hafa lækkað skarpt frá einum tímapunkti til annars. Í slíku umhverfi hefur reynt á gæði áhættustýringar og þess jafnvægis að sækja ávöxtun en jafnframt tryggja að höfuðstóll sveiflist ekki óhóflega. Við teljum að árangur sjóðsins í gegnum slíkar aðstæður byggist á viðamikilli starfsreynslu sjóðstjóra á bæði innlendum og erlendum fjármálamörkuðum ásamt þeim mikla hreyfanleika sem einkennir stýringu sjóðsins. Öguð áhættustýring mun nú sem áður einkenna sjóðinn með það að markmiði að ná viðunandi ávöxtun að teknu tilliti til áhættu og jafnframt reyna að vernda höfuðstól fyrir lækkunum sem gætu átt sér stað.
Hægt er að kynna sér ávöxtun sjóðsins á heimasíðu Akta og gera samanburð á www.keldan.is.
5. ágúst 2021
Stefanía Ástrós Benónýsdóttir var á dögunum ráðin til Akta sjóða og starfar sem sérfræðingur í áhættueftirliti og gagnagreiningu. Hún starfaði áður sem hönnunarverkfræðingur hjá Hönnunardeild Icelandair. Stefanía hefur lokið B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í fjármálaverkfræði og áhættustýringu frá University of Essex. Þá hefur hún lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
5. maí 2021
Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, leitaði til Akta um álit á verðbólguhorfum innanlands. Undanfarna mánuði hefur verðbólgan reynst mun hærri en spár greiningaraðila og Seðlabankans gerðu ráð fyrir. Rætt var við Birgi Haraldsson, sjóðstjóra á sviði skuldabréfa- og blandaðra sjóða hjá Akta, um þessa þróun og líkur á því að Seðlabankinn þurfi að bregðast við með vaxtahækkunum á fundi peningastefnunefndar eftir tvær vikur.
https://www.frettabladid.is/markadurinn/margt-leggst-a-eitt-vid-ad-thrysta-upp-verdlagi/
14. apríl 2021
Þegar kemur að íslenskri haggreiningu þá hafa hamskiptin á kjarnaverðbólgu í kjölfar kórónaveirufaraldursins síðastliðið ár verið eftirtektarverð þróun, en um leið áhyggjuefni. Verðbólguvandi blasir við til skemmri tíma og þáttaskil gætu verið fram undan þar sem há verðbólga reynist viðvarandi vandamál. Væntingar um vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands gætu þannig gjörbreyst á næstu misserum.
Í þessu samhengi þarf að hafa tvennt í huga. Í fyrsta lagi er það árstaktur kjarnaverðbólgu sem stendur í 5,2% í dag og þar með langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Í öðru lagi eru það verðbólguvæntingar en framvinda þeirra undanfarið er farin að valda Seðlabankanum áhyggjum um hvort kjölfesta þeirra við verðbólgumarkmiðið hafi veikst. Traust kjölfesta verðbólguvæntinga hefur verið haldreipi bankans í gegnum nýlegt vaxtalækkunarferli.
Hvers vegna að einblína á kjarnaverðbólgu en ekki verðbólgu? Í einföldu máli má lýsa kjarnaverðbólgu sem þrengri mælikvarða á almennar verðlagsbreytingar. Hún undanskilur þannig áhrif þátta sem Seðlabankinn hefur enga stjórn á, til dæmis verðum á innfluttum matvælum og bensíni sem ráðast á heimsmarkaði, auk þeirra þátta sem hann hefur bein áhrif á með vaxtaákvörðunum sínum. Nýlegar vaxtalækkanir Seðlabankans hafa sem dæmi lækkað raunvaxtakostnað húsnæðislána umtalsvert og þannig dregið niður mælda verðbólgu. Áhrifin eru töluverð og má áætla að verðbólga sé tæplega 0,9 prósentum lægri en ella, eingöngu vegna lægri stýrivaxta Seðlabankans.
Því er mikilvægt að líta til kjarnaverðbólgu til að átta sig á undirliggjandi verðbólguþrýstingi í hagkerfinu en hann er töluverður í dag – eða sem nemur 5,2% og hefur ekki reynst hærri síðan um mitt ár 2012. Á sama tíma lítur út fyrir að bólusetningum gegn COVID-19 ljúki innan næstu þriggja mánaða. Bjartsýni heimila og fyrirtækja hefur einnig aukist að undanförnu, árstaktur launahækkana er í kringum 10% og þegar litið er út fyrir landsteinana er ljóst að miklar verðhækkanir eru að eiga sér stað á margvíslegum aðföngum og fullunnum vörum sem fluttar eru inn til landsins. Verðbólguþrýstingurinn er margþættur.
Það er ólíklegt að hægt verði að reiða sig á kröftuga gengisstyrkingu til að draga úr verðbólgunni líkt og raunin var á árunum 2015-17 þegar hagkerfið ofhitnaði. Þrátt fyrir umtalsverða framleiðsluspennu og tugprósentahækkun á húsnæðisverði á því tímabili hélst verðbólga undir 2,5% verðbólgumarkmiðinu vegna nærri 30% styrkingar á krónunni og hóflegrar verðþróunar innan erlendra hagkerfa og hrávörumarkaða. Til samanburðar hefur gengi krónunnar verið svo gott sem óbreytt síðasta árið en Seðlabankastjóri nefndi nýlega að bankinn myndi ekki vilja sjá of mikla styrkingu frá núverandi gildum. Verðbólguvandinn verður vart leystur með krónunni og ekki er víst að núverandi efnahagsslaki nægi til að ná fram hjöðnun á verðbólgu með vorinu líkt og Seðlabankinn bindur vonir við.
Þáttaskil gætu því verið fram undan fyrir verðbólgusviðsmyndina ef verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja stíga hærra og magna upp þá krafta sem nú þegar hafa ýtt kjarnaverðbólgu langt umfram 2,5% verðbólgumarkmiðið. Þrátt fyrir að flestir mælikvarðar fyrir verðbólguvæntingar séu á ásættanlegum gildum þá eru sumir þeirra engu að síður að nálgast það sem kalla mætti efri þolmörk.
Verðbólguvæntingar heimilanna til tveggja ára eru sennilega besta dæmið um slíkt en þær stóðu í 4,0% í mars og höfðu þá hækkað úr 3,0% frá fyrri könnun. Allar hækkanir á þessum mælikvarða héðan í frá myndu þýða verstu niðurstöðu mælinga síðan í ársbyrjun 2014 og vekja upp réttmætar spurningar um hvort kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið sé rofin og verðbólguvandinn þannig að umbreytast í viðvarandi vandamál. Af þessum sökum mátti greina breyttan og áhyggjufyllri tón í umræðunni um verðbólguvæntingar í síðustu yfirlýsingu og fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans. Vont væri ef há og þrálát verðbólga yrði í samfloti með stóraukinni skuldastöðu ríkissjóðs sem ein arfleifð kórónaveirufaraldursins.
Það er því ekki útilokað að væntingar um vaxtahækkanir Seðlabankans taki miklum breytingum á næstu misserum, ekki síst ef verðbólgusviðsmyndin súrnar vegna versnandi verðbólguvæntinga heimila og fyrirtækja.
https://www.frettabladid.is/markadurinn/verdbolguvandinn/
26. febrúar 2021
Akta leitar að einstaklingi í teymið til að starfa sem sérfræðingur í gagnagreiningu og áhættueftirliti. Um er að ræða tækifæri til að vaxa í starfi hjá fjármálafyrirtæki í fremstu röð. Starfið er fjölbreytt og felur í sér samvinnu við öll svið félagsins.
Verkefni
Útreikningar í tengslum við áhættueftirlit
Gagnagreining og skýrslugerð
Uppfærsla á innri gögnum og skjölum
Aðstoð í sjálfvirknivæðingu og tækniþróun félagsins
Samvinna við stjórnendur félagsins og útvistunaraðila
Önnur tilfallandi verkefni
Þekking og reynsla
Háskólamenntun sem nýtist í starfi
Þekking á gagnagrunnum
Þekking á forritun kostur
Frumkvæði, vinnusemi og sjálfstæði í vinnubrögðum
Ef óskað er eftir nánari upplýsingum er unnt að senda póst á netfangið umsokn@akta.is.
Farið verður með umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál.
Allar umsóknir skulu berast á netfangið umsokn@akta.is.
Einnig er mögulegt að sækja um á Alfreð.is.
Umsóknarfrestur er til 8. mars nk.
3. febrúar 2021
Davíð Stefánsson, sjóðstjóri erlendra sjóða hjá Akta var gestur útvarpsþáttarins Harmageddon í morgun og ræddi við Frosta og Mána um stóra GameStop málið svokallaða og horfur á hlutabréfamörkuðum.
Hér má finna tengil á þáttinn.
6. janúar 2021
Hraði er það orð sem lýsir síðastliðnu ári hvað best þegar kemur að atburðarrásinni á fjármálamörkuðum og í efnahagsmálum á heimsvísu. Í kjölfar fyrstu Covid-19 sóttvarnaraðgerðanna í Kína seint í janúar tók sem dæmi aðeins um sex vikur fyrir heimsbúskapinn að stöðvast vegna hertra takmarkana á daglegu lífi fólks. Efnahagssamdrátturinn var gífurlegur og nam um 20% þegar verst lét í byrjun apríl. Hlutabréfamarkaðir hrundu og í Bandaríkjunum hafði markaðurinn aldrei áður lækkað eins snögglega um 30%. Fordæmalaus og skjót viðbrögð seðlabanka og stjórnvalda við þeim skaða sem blasti við náðu hinsvegar að sefa áhyggjur fjárfesta og sú hraða viðspyrna sem tók af stað innan fjármálamarkaða í lok mars reyndist söguleg. Alls hækkaði heimsvísitala hlutabréfa um 15% á síðasta ári og hlutabréfamarkaðurinn hérlendis fór upp um 20%. Sneggsta þróunarferli bóluefnis fyrr og síðar með tilkomu virkra bóluefna gegn Covid-19 við árslok var síðan fullkominn tákngervingur fyrir hraðann sem einkenndi árið 2020.
Afleiðingarnar af þessu einstaka ári eru hinsvegar margþættar. Fyrst má nefna að vextir hafa aldrei verið lægri vegna skarpra vaxtalækkana seðlabanka. Ársvextir óbundinna sparireikninga á Íslandi eru þannig á bilinu 0,05% til 1% í dag. Verði 3% verðbólguspá greiningaraðila að veruleika munu sparifjáreigendur því að öðru óbreyttu horfa upp á verulega rýrnun fjármuna sinna á þessu ári. Eftir kröftugar verðhækkanir undanfarna ársfjórðunga er verðlagning hlutabréfamarkaða víðs vegar um heiminn einnig orðinn rausnarleg á hefðbundna mælikvarða. Vanda verður valið nú sem aldrei fyrr.
Í stuttu máli, þessar aðstæður kalla á nýja nálgun af hálfu sparifjáreiganda í leit að ávöxtun fjármuna sinna á þessu ári. Nauðsynlegt verður að taka vel ígrunduð skref úr innlánum inn á fjármálamarkaði til þess að auka vænta ávöxtun í lágvaxtaheimi. Tvenns konar breytingar ættu þannig að koma til skoðunar. Annars vegar ætti að stefna að vægi skuldabréfa og hlutabréfa sem hentar hverjum og einum og hins vegar ætti að stefna að auknu vægi erlendra markaða í eignasöfnum. Blandað, alþjóðlegt safn er þannig ein nálgun að eignadreifingu fyrir nýja tíma.
Rétt er þá að spyrja hvaða þættir gætu litað árangur slíks safns á komandi misserum. Í fyrsta lagi er það framvinda bólusetninga gegn Covid-19. Spurningin um hvaða lönd og atvinnugreinar gætu skarað fram úr á mörkuðum ræðst að einhverju leyti af því hversu hratt bólusetningar munu vinna á farsóttinni. Í öðru lagi er það mikilvægi þess að ná fram landfræðilegri dreifingu innan bæði hlutabréfa og skuldabréfa. Hægt er að margfalda flóruna af mögulegum fjárfestingarkostum með því að sækja inn á erlenda skuldabréfamarkaði sem dæmi. Í þriðja lagi er það þáttur virkrar stýringar, en í núverandi umhverfi er það lykilatriði að vera á réttum stöðum innan markaðarins fremur en að fylgja hlutlausri fjárfestingarstefnu sem er alfarið bundin við almennar vísitölur.
Síðastnefndi þátturinn er mikilvægur þegar kemur að erlendum hlutabréfamörkuðum í dag. Þannig geta einstakar atvinnugreinar eða landsvæði skilað ágætri ávöxtun yfir tímabil þar sem almennar hlutabréfavísitölur hafa fært fjárfestum litla sem enga ávöxtun. Svo dæmi sé tekið af bandaríska hlutabréfamarkaðnum þá hefur að jafnaði verið um 40% munur milli þeirra atvinnugreina sem skiluðu hæstu og lægstu ávöxtuninni yfir stök ár. Virk stýring keppir að því að grípa þessi tækifæri sem oft myndast innan mismunandi hluta markaðarins. Verkefni virkrar stýringar er auk þess að halda opnum hug á hverjum degi til að geta brugðist tímanlega við aðstæðum sem oft breytast mun hraðar en nokkurn órar fyrir líkt og síðasta ár sýndi skilmerkilega.
Litið fram á við, þá ætti viðspyrna heimshagkerfisins að eflast á þessu ári í kjölfar bólusetninga gegn Covid-19 og vonir eru um að daglegt líf færist í fyrra horf með haustinu. Hins vegar er hætt við því að lágvaxtaumhverfið reynist þrálátt. Við ársbyrjun gæti því reynst skynsamlegt að taka varfærin og vel ígrunduð skref í átt að meiri eignadreifingu til að auka vænta ávöxtun til lengri tíma.
Grein eftir Birgi Haraldsson og Davíð Stefánsson sem birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 6. janúar 2021.
https://www.frettabladid.is/markadurinn/eignadreifing-fyrir-nyja-tima/
9. desember 2020
Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, leitaði til Akta um álit á nýlegri þróun á markaði fyrirtækjaskuldabréfa hérlendis. Álag á fyrirtækjaskuldabréfum hefur lækkað töluvert í haust og er sú hækkun sem átti sér stað í kjölfar COVID-19 að miklu leyti gengin tilbaka. Rætt var við Birgi Haraldsson, sjóðstjóra á sviði skuldabréfa- og blandaðra sjóða hjá Akta, um þessa þróun og hvernig hún er sambærileg við það sem hefur verið að gerast á erlendum skuldabréfamörkuðum síðustu mánuði.
https://www.frettabladid.is/markadurinn/asokn-i-fyrirtaekjabref-og-vaxtaalag-minnkar/
9. desember 2020
Á dögunum fengu Akta sjóðir hf. starfsleyfi sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða skv. lögum nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
Í leyfinu felst að félaginu er heimilt að reka sérhæfða sjóði skv. 1. og 2. mgr. 9. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
Félagið hefur einnig starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Akta rekur nú 10 sjóði sem falla undir gildissvið laganna. Það eru fjárfestingarsjóðirnir Akta Alviðra, Akta Atlas, Akta Stokkur, Akta VaxtaTækifæri og Akta VaxtaVeröld. Þá rekur félagið einnig sérhæfða sjóði sem eingöngu eru markaðssettir fagfjárfestum. Til viðbótar er verðbréfasjóðurinn Akta Ríki.
Allar nánari upplýsingar um sjóði í stýringu hjá AKTA má nálgast á heimasíðu félagsins www.akta.is/sjodir, á netfanginu sjodir@akta.is eða í síma 585-6800.
24. nóvember 2020
Nú á dögunum fagnaði Akta Alviðra þriggja ára afmæli. Alviðra er blandaður sjóður í rekstri Akta sjóða hf. sem fjárfestir á hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum á Íslandi sem og erlendis. Sjóðstjórn er í höndum Davíðs Stefánssonar og Birgis Haraldssonar.
Við teljum að árangur sjóðsins byggist á viðamikilli starfsreynslu sjóðstjóra á bæði innlendum og erlendum fjármálamörkuðum ásamt þeim mikla hreyfanleika sem einkennir stýringu sjóðsins. Virk stýring, byggð á ítarlegu mati á ávöxtunarmöguleikum og áhættu á hverjum tíma, er nauðsynleg nú sem fyrr í nýju lágvaxtaumhverfi til að skila umframávöxtun.
Hægt er að kynna sér ávöxtun sjóðsins á heimasíðu Akta og gera samanburð á www.keldan.is.
12. nóvember 2020
Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, leitaði til AKTA um álit á núverandi stöðu á íslenskum skuldabréfamarkaði. Hefur ávöxtunarkrafan á langtíma ríkisskuldabréfum hækkað skarpt síðastliðna þrjá mánuði og fjármögnunarkjör bankanna versnað að sama skapi. Rætt var við Birgi Haraldsson, sjóðstjóra á sviði skuldabréfa- og blandaðra sjóða hjá AKTA, um hvernig íhlutun Seðlabankans á skuldabréfamarkaði hefur reynst bæði magnlaus og andlaus frá því að aðgerðin var tilkynnt í lok mars. Því verði áhugavert að fylgjast með fundi peningastefnunefndar í næstu viku og heyra sýn Seðlabankans á þessa framkvæmd og hvort hann telji sig hafa náð markmiðum sínum með henni eða ekki.
https://www.frettabladid.is/markadurinn/likur-ad-vextir-ibudalanum-haekki/
4. nóvember 2020
Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, leitaði til AKTA um álit á núverandi aðstæðum á íslenskum skuldabréfamarkaði. Hlutdeild erlendra fjárfesta í ríkisskuldabréfum er nú að öllum líkindum í sögulegu lágmarki eða undir 10%. Það er nærri helmingi minni hlutdeild en má finna að jafnaði á innlendum skuldabréfamörkuðum nýmarkaðsríkja. Rætt var við Birgi Haraldsson, sjóðstjóra á sviði skuldabréfa- og blandaðra sjóða hjá AKTA, um horfur á því að fjármagnsinnflæði gæti aukist á ný með tilkomu nýrra erlendra fjárfesta að skuldabréfamarkaðnum.
https://www.frettabladid.is/markadurinn/vaegi-erlendra-fjarfesta-i-rikisbrefum-sjaldan-verid-minna/
29. október 2020
Síðastliðinn föstudag fagnaði Akta VaxtaTækifæri þriggja ára afmæli. VaxtaTækifæri er innlendur skuldabréfasjóður í rekstri Akta sjóða hf. sem hefur það að markmiði að velja bestu tækifærin á skuldabréfamarkaði á hverjum tíma að mati sjóðstjóra.
Við teljum að árangur sjóðsins byggist á þeim mikla hreyfanleika sem einkennir stýringu sjóðsins. Virk stýring, byggð á ítarlegu mati á ávöxtunarmöguleikum og áhættu á hverjum tíma, er nauðsynleg nú sem fyrr í nýju lágvaxtaumhverfi til að skila umframávöxtun.
Hægt er að kynna sér ávöxtun sjóðsins á heimasíðu Akta og gera samanburð á www.keldan.is.
28. október 2020
Tveir veigamiklir þættir gætu litað árangur blandaðra eignasafna með hátt vægi erlendra eigna á næstu misserum. Í fyrsta lagi er það framvindan á þróun bóluefnis gegn COVID-19, en líklega dregur til tíðinda á þeim vettvangi á næstu vikum. Í öðru lagi er það framvindan á gengi krónunnar, en teikn eru á lofti um að styrking á krónunni sé fremur líklegri en veiking þegar horft er inn í næsta ár.
Tímalínan sem markar mikilvæga áfanga í þróun bóluefnis við COVID-19 er orðin stutt og má búast við niðurstöðum úr rannsóknum lyfjafyrirtækjanna Pfizer og Moderna innan skamms. Þetta getur farið á hvorn veginn sem er, en ef niðurstöðurnar lofa góðu er talið líklegt að bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið gefi út neyðarheimild til notkunar þessara bóluefna fyrir árslok. Slíkt myndi hafa mikla þýðingu fyrir heimsbúskapinn þar sem stærstu hagkerfi heims eru enn langt frá fullum afköstum vegna sóttvarnaaðgerða. Íslensk ferðaþjónusta ætti þá einnig von um viðspyrnu á síðari hluta næsta árs ef allt gengi að óskum.
Auk þessara hagvaxtaráhrifa er líklegt að ákveðin umskipti eigi sér stað á erlendum hlutabréfamörkuðum þar sem margvíslegar iðnaðar- og þjónustugreinar sem hafa staðið öðrum að baki á þessu ári myndu sækja í sig veðrið ef það tekst að þróa áhrifaríkt og öruggt bóluefni. Sem dæmi má nefna að hlutabréf fyrirtækja í hótelrekstri, banka, bjórframleiðenda og olíufyrirtækja eru sum hver nálægt sögulega lágum gildum og hlutabréfavísitölur ákveðinna nýmarkaðsríkja eru enn niður um tugprósent á árinu. Í stuttu máli, þá er líklegt að markaðsforystan komi úr nýrri átt á næstu misserum ef bóluefnaþróanir reynast farsælar. Blönduð eignasöfn verða að horfa til þessa þegar kemur að erlendri hlutabréfaeign þeirra.
Þátturinn sem snýr að krónunni er síðan tvíþættur. Annars vegar hefur Seðlabankinn spyrnt kröftuglega á móti frekari gengisveikingu og hins vegar þarf að líta til aðstæðna á innlendum skuldabréfamarkaði út frá alþjóðlegum vinkli ef bóluefni finnst á næstu mánuðum. Óþarft er að efast um stefnu Seðlabankans um að vinna gegn frekari gengisveikingu, en ólíkt þeirri magnlausu íhlutun sem hefur átt sér stað á skuldabréfamarkaði þá hafa inngripin á gjaldeyrismarkaði verið bæði í orði og á borði. Þessi gjaldeyrisstefna ásamt möguleikanum á áhrifaríku bóluefni sem endurræsir íslenska ferðaþjónustu gera sviðsmyndir krónunnar þannig ósamhverfar og hneigðar til styrkingar þegar litið er til næsta árs.
Samhliða þessu hefur nýlegur söluþrýstingur á innlendum skuldabréfamarkaði leitt til þess að verðlagning á langtíma ríkisskuldabréfum er á nýjan leik sambærileg við nýmarkaðsríki með svipað lánshæfismat. Hlutdeild erlendra fjárfesta hefur þá minnkað enn frekar og er líklegast í sögulegu lágmarki eða undir 10% sem er nærri helmingi minni hlutdeild en má finna að jafnaði á innlendum skuldabréfamörkuðum nýmarkaðsríkja. Séð frá sjónarhóli erlendra fjárfesta ætti íslenskur skuldabréfamarkaður þannig að vera aðlaðandi við núverandi aðstæður: möguleg gengisstyrking í kjölfar áhrifaríks bóluefnis, samkeppnishæf verðlagning, lítil þátttaka erlendra fjárfesta og auk þess geta skuldabréfakaup Seðlabankans einungis aukist héðan í frá. Óverðtryggð skuldabréf væru líklegust til að njóta meðbyrs af þessu.
Fjármagnsflæði til landsins gæti því vel aukist á komandi ársfjórðungum í gegnum skuldabréfamarkaðinn ásamt því að innleiðing Íslands inn í MSCI hlutabréfavísitöluna á næsta ári ætti sömuleiðis að auka við innflæðið. Þetta getur þannig magnað upp þá krafta sem nú þegar benda til sterkari krónu. Blönduð eignasöfn með hátt vægi erlendra eigna verða að horfa til þessa og er virk stýring á gjaldeyrisáhættu því að verða enn mikilvægara atriði fyrir slík eignasöfn.
Þáttaskil gætu þannig verið fram undan og af þessum sökum er mikilvægt að fylgjast vel með framvindu bóluefnaþróunar og halda til haga þeim lykilþáttum sem gætu litað árangur blandaðra eignasafna í kjölfarið á næstu ársfjórðungum.
Grein eftir Birgi Haraldsson sem birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 28. október 2020.
https://www.frettabladid.is/skodun/thattaskil-framundan/
9. október 2020
Akta hefur stofnað blandaða fjárfestingarsjóðinn Akta Atlas sem hóf starfsemi þann 2. september síðastliðinn. Akta Atlas fjárfestir m.a. í innlendum og erlendum hlutabréfum, skuldabréfum, afleiðum og beitir virkri gjaldeyrisstýringu í fjárfestingarstefnu sinni.
Við stýringu sjóðsins er lögð rík áhersla á fjárfestingar í skráðum og seljanlegum eignum. Stýring sjóðsins byggir á þremur lykilþáttum: (a) fjárfestingar í stökum hlutabréfum með umtalsverða vaxtarmöguleika, (b) tækifærisdrifnar fjárfestingar (bæði með gnótt- eða skortstöðu) þvert á alla eignaflokka (s.s. ríkisskuldabréf, áhættumeiri skuldabréf, hlutabréfavísitölur, góðmálmar (óbeint) og fleira) og (c) gjaldeyrisstýring.
Markmið sjóðsins er að ná umframávöxtun með stýringu á ofangreindum þáttum. Sjóðurinn hefur heimild til skortsölu og varna gegn lækkunum á mörkuðum í gegnum afleiðuheimildir. Akta Atlas hefur víðtækar fjárfestingarheimildir og er vægi erlendra eigna almennt um eða yfir 80%. Áhættuþol sjóðsins er hátt og sveiflur kunna því að verða umtalsverðar. Sjóðurinn hentar því fjárfestum sem vilja fjárfesta til langs tíma og þola miklar sveiflur.
Fjárfestingateymi sjóðsins skipa Davíð Stefánsson, Fannar Jónsson og Birgir Haraldsson. Teymið býr yfir mikilli þekkingu og umfangsmikilli reynslu af stýringu hluta- og skuldabréfa, sjóðastýringu og innlendum og alþjóðlegum fjárfestingum.
Nánari upplýsingar um Akta Atlas má finna hér, en sjóðurinn er fjárfestingarsjóður og opinn bæði almennum og fagfjárfestum.
Nánari upplýsingar veita Örn Þorsteinsson (orn@akta.is) og Davíð Stefánsson (david@akta.is).
16. september 2020
Seðlabankinn sendi skýr skilaboð í síðustu viku um að gengisveiking íslensku krónunnar það sem af er ári væri orðin óhófleg. Fréttatilkynning bankans um að hann myndi hefja reglulega sölu á gjaldeyri í þessari viku bar öll þess merki en eitt af markmiðum aðgerðarinnar er að bæta verðmyndun á gjaldeyrismarkaði. Þá var fundargerð peningastefnunefndar fyrir ágúst einnig birt sama dag og reyndist niðurstaðan úr gjaldeyrisumræðum nefndarinnar vera að raungengi krónunnar væri komið undir jafnvægisgildi sitt. Seðlabankastjóri steig síðan fram degi síðar og lýsti því yfir að gengi krónunnar væri einfaldlega orðið mjög lágt og úr takti við grunnþætti íslenska hagkerfisins.
Í ljósi tíðra inngripa Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði á þessu ári – bankinn hefur í dögum talið stigið þrisvar sinnum oftar inn á markaðinn í samanburði við 2019 og verið mjög virkur síðasta mánuðinn – má líta á aðgerðir hans í síðustu viku sem nokkurs konar útvíkkun á þeirri stefnu sem þegar hafði verið mörkuð. Engu að síður er ljóst að Seðlabankinn hefur nú ákveðið að draga línu í sandinn varðandi eigin þolmörk um frekari veikingu krónunnar. Samstillt og stigmagnandi inngrip í orði og á borði bera vott um það.
Þrjár spurningar vakna af þessu tilefni. Í fyrsta lagi má spyrja hvort gengið sé í raun og veru of lágt. Í öðru lagi hvað sé að valda auknu óþoli Seðlabankans gagnvart frekari gengisveikingu. Í þriðja lagi hver sé líkleg þróun krónunnar næstu ársfjórðunga.
Ein nálgun við mat á misgengi er að bera saman raungengið við langtímameðaltal og áætla þannig hvort frávikið bendi til sterkrar eða veikrar krónu. Með slíkri nálgun fæst að raungengið var í ágúst um 3% lægra en meðaltal síðasta aldarfjórðungs en það getur varla talist óhóflega veik króna í núverandi efnahagsástandi. Vissulega eru grunnstoðir hagkerfisins sterkari í dag heldur en oft áður en til samanburðar má nefna að raungengið var að jafnaði 15% til 30% lægra en fyrrnefnt meðaltalsgildi frá haustinu 2008 til ársloka 2013.
Óþol gagnvart frekari gengisveikingu verður því ekki skrifað á raungengið eitt og sér en þegar það er sett í samhengi við nýlega verðbólguþróun verður heildarmyndin skýrari. Verðbólguáhrifin af veikari krónu hafa þannig reynst þróttmeiri en gert var ráð fyrir og situr verðbólgan nú í 3,2% sem er þó nokkuð yfir 2,5% markmiði Seðlabankans. Verðbólguspá bankans til loka þessa árs var einnig færð upp um 0,6% prósentustig í ágúst á meðan sögulega lágir vextir eru að valda snörpum hækkunum á húsnæðisverði. Óþol Seðlabankans gagnvart frekari gengisveikingu er því birtingarmynd af áhyggjum hans um verðbólguþróunina.
Opinská orðræðuinngrip ásamt kerfisbundnum inngripum á gjaldeyrismarkaði til að leggjast gegn skammtíma- og langtímasveiflum sýna því að krónan er stýritækið sem Seðlabankinn hyggst beita til að kveða niður verðbólguþrýstinginn. Til að þessi stefna sé trúverðug þarf að fylgja henni eftir af krafti og koma í veg fyrir að gengið veikist frekar frá þeim gildum þar sem línan var dregin í sandinn. Ótímabærar vaxtahækkanir gætu annars þurft að líta dagsins ljós ef eftirfylgnin er af hálfum huga og verðbólgan reynist þrálát yfir markmiði. Seðlabankanum er hins vegar ekkert til fyrirstöðu við trúverðuga framkvæmd á þessari stefnu þar sem að tröllvaxinn gjaldeyrisforði bankans styður kröftuglega við hana.
Það bendir því allt til þess að veikingarfasa krónunnar sé að mestu lokið á þessari stundu og þegar litið er til næstu ársfjórðunga eru sviðsmyndirnar auk þess að mestu ósamhverfar og hneigðar til styrkingar. Vandamál hagkerfisins eru vel þekkt á þessari stundu en viðspyrnan gæti orðið öflug og þungri byrði þannig létt af krónunni ef þróun bóluefnis við COVID-19 kemst yfir marklínuna á komandi ári líkt og væntingar eru um.
Grein eftir Birgi Haraldsson sem birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 16. september 2020.
https://www.frettabladid.is/skodun/lina-i-sandinn/
10. júlí 2020
Akta hefur stofnað skuldabréfasjóðinn Akta VaxtaVeröld sem hóf starfsemi þann 26. júní síðastliðinn. Akta VaxtaVeröld fjárfestir í innlendum og erlendum skuldabréfum og beitir virkri gjaldeyrisstýringu í fjárfestingarstefnu sinni.
Við stýringu sjóðsins er lögð rík áhersla á fjárfestingar í skráðum og seljanlegum eignum. Markmið sjóðsins er að ná umframávöxtun með stýringu á vægi áhættumeiri og tryggari skuldabréfa annars vegar og stýringu gjaldeyrisáhættu hins vegar. Akta VaxtaVeröld hefur víðtækar fjárfestingarheimildir og er vægi erlendra eigna almennt á bilinu 40-70%. Sjóðurinn hefur einnig heimild til að binda allt að 100% af eignum sjóðsins í bandarískum ríkisskuldabréfum.
Fjárfestingateymi sjóðsins skipa Birgir Haraldsson, Davíð Stefánsson og Þórhallur Ásbjörnsson. Teymið býr yfir mikilli þekkingu og umfangsmikilli reynslu af skuldabréfamarkaði, sjóðastýringu og innlendum og alþjóðlegum fjárfestingum.
Nánari upplýsingar um Akta VaxtaVeröld má finna hér, en sjóðurinn er fjárfestingarsjóður og opinn bæði almennum og fagfjárfestum.
Nánari upplýsingar veita Örn Þorsteinsson (orn@akta.is) og Birgir Haraldsson (birgir@akta.is).
7. júlí 2020
Viðskiptablaðið tók viðtal við Rósu Kristinsdóttur í byrjun júlí í kjölfar þess að Rósa tók nýverið við stöðu lögfræðings og regluvarðar Akta sjóða. Meðal annars var rætt um Akta VaxtaVeröld, nýjan skuldabréfasjóð í stýringu Akta sem fjárfestir í dreifðu safni af íslenskum og erlendum skuldabréfum og beitir virkri stýringu á gjaldeyrisáhættu sjóðsins.
https://www.vb.is/frettir/sjosund-thrithraut-og-perusk-matargerd/162791/
24. júní 2020
Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, leitaði til Akta um álit á breyttum aðstæðum á íslenskum fjármálamarkaði í kjölfar skarpra stýrivaxtalækkana Seðlabanka Íslands á þessu ári. Rætt var við Birgi Haraldsson, sérfræðing á sviði blandaðra sjóða hjá Akta, um þá endurskipulagningu eignasafna sem mun óhjákvæmilega eiga sér stað á komandi misserum. Sem stendur er meirihluti fjáreignar íslenskra heimila bundin í vaxtatengdum eignum líkt og innlánum sem skila nú neikvæðri raunávöxtun. Nýja eignasafnið mun þannig að öllum líkindum verða bæði blandaðra og alþjóðlegra þegar fram líða stundir, en telja má að þörf sé á aukinni áhættutöku til að auka vænta ávöxtun.
https://www.frettabladid.is/markadurinn/gridarmikid-fe-gaeti-leitad-avoxtunar/
3. júní 2020
Erfiður vetur er að baki þar sem kórónaveiran setti mark sitt á bæði fjármálamarkaði og efnahagslífið hérlendis og erlendis. Skaðinn sést í hagvaxtarspám fyrir þetta ár en Seðlabanki Íslands væntir -8,0% samdráttar og erlendir greiningaraðilar búast við -3,0% samdrætti í heimsbúskapnum. Til að setja þessar tölur í samhengi má hafa í huga að ef spárnar raungerast, verður um að ræða mesta árlega samdrátt í heila öld á Íslandi og sömuleiðis verstu útreið heimshagkerfisins síðan í kreppunni miklu fyrir 90 árum. Stóraukin ríkisútgjöld hafa óhjákvæmilega fylgt þessum erfiðu efnahagsaðstæðum og kröftugar aðgerðir seðlabanka hafa leitt til sögulega lágra vaxta.
Skammtímaáhrif kórónaveirunnar á efnahagslífið hafa þannig verið gífurleg og líklegt er að áhrifin verði einnig töluverð þegar litið er til meðallangs- og langs tíma. Til að mynda gætu skattar þurft að hækka til að vinda ofan af auknum ríkishalla um allan heim. Viðskiptaumhverfið er einnig líklegt til að breytast með frekari eflingu netverslunar, og fjölbreyttara starfsfyrirkomulagi sem kann að breyta eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði, ásamt því að framleiðslukeðjur heimshagkerfisins gætu verið endurskipulagðar. Þá eru ótalin þau samfélagslegu og pólitísku áhrif sem vænta má ef sögulega hátt atvinnuleysi reynist þrálátt.
Enduropnun hagkerfa hefur þó átt sér stað hægt og rólega síðan í byrjun apríl og hefur í sameiningu með aðgerðum ríkisstjórna og seðlabanka aukið vonir um efnahagslega viðspyrnu. Fjármálamarkaðir, þá sérstaklega erlendis, hafa tekið ágætlega við sér eftir skarpa dýfu fyrr á árinu, jafnvel þótt langtímasviðsmyndir efnahagslífsins séu enn háðar mikilli óvissu. Ákveðnir hlutar markaðarins hafa jafnvel náð fyrri gildum og gott betur.
Skammtímaáhrif kórónaveirunnar á fjármálamarkaði kunna þannig að virðast léttvæg við fyrstu sýn, en áhrifin fyrir íslenska sparifjáreigendur eru líkleg til að verða töluverð til lengri tíma litið. Rétt eins og með framleiðslukeðjur heimshagkerfisins verður sennilega mikil þörf fyrir endurskipulagningu íslenskra eignasafna.
Hvers vegna?
Þegar litið er á aðrar fjáreignir en lífeyriseign íslenskra heimila, má áætla að um 60% af þeim – um 1,500 milljarðar króna – sé bundinn í innlánum, skuldabréfum og í hlutdeildarskírteinum skuldabréfa- og peningamarkaðssjóða. Þessar vaxtatengdu fjáreignir standa nú frammi fyrir sögulega lágum vaxtagrunni, en stýrivextir Seðlabankans hafa verið lækkaðir kröftuglega á þessu ári og eru nú 1,0%.
Þessi lági vaxtagrunnur helst líklegast óbreyttur til lengri tíma, enda mun taka tíma að bæta upp skaðann sem kórónaveiran hefur valdið á þessu ári. Þannig spáir Seðlabankinn til að mynda talsverðum framleiðsluslaka næstu árin, sem gefur litlar forsendur til vaxtahækkana. Sömu sögu er að segja af helstu seðlabönkumheims, en stýrivöxtum er spáð óbreyttum næstu þrjú árin beggja megin Atlantshafsins.
Í stuttu máli þá munu innlán og íslensk ríkisskuldabréf eiga erfitt með að skila ávöxtun umfram verðbólgu á komandi misserum og raunávöxtun því líkleg tilað vera lítil sem engin, eða neikvæð fyrir meginþorra sparnaðar íslenskraheimila.
Hvað er til ráða?
Óhjákvæmilegt er að færsla eigi sér stað úr þessum áhættuminni eignum og yfir í áhættumeiri eignir með tíð og tíma. Endurskipulagning eignasafna felur því í sér að taka varfærin og vel ígrunduð skref lengra út á áhætturófið, til að auka væntaávöxtun. Slík skref geta falið í sér fjárfestingar í skuldabréfum fyrirtækja og banka hérlendis, sem og í félögum á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Auk þessa er hægt að fjárfesta á fjármálamörkuðum erlendis, bæði í skuldabréfum og hlutabréfum. Þannig má draga úr næmni fjáreigna við gang íslenska hagkerfisins og sömuleiðis auka flóruna af mögulegum fjárfestingarkostum margfalt.
Það er þannig ljóst að miklar langtímabreytingar eru að eiga sér stað á íslenskum fjármálamarkaði í kjölfar versta efnahagsáfalls sem hefur mælst hérlendis í heila öld. Lágvaxtaumhverfið verður þrálátt og nýja eignasafnið mun því að öllum líkindum þurfa að vera bæði alþjóðlegra og blandaðra en það er ídag.
Grein eftir Birgi Haraldsson sem birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 3 júní. 2020.
https://www.frettabladid.is/skodun/nyja-eignasafnid/
1. maí 2020
Rósa Kristinsdóttir hefur verið ráðin til Akta sjóða og mun starfa sem lögfræðingur og regluvörður félagsins. Hún hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdarstjóri Framtíðarinnar lánasjóðs, sérfræðingur á bankasviði Kviku banka og fulltrúi hjá LOGOS lögmannsþjónustu. Rósa hefur lokið meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík.
25. mars 2020
Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, leitaði til Akta um álit á aðgerðum seðlabanka víða um heim til að sporna gegn yfirvofandi efnahagserfiðleikum í kjölfar útbreiðslu kórónaveirunnar. Rætt var við Birgi Haraldsson, sérfræðing á sviði blandaðra sjóða hjá Akta, um líkur þess að stýrivextir Seðlabanka Íslands yrðu lækkaðir enn frekar og hvernig gengisveiking gæti auk þess örvað hagkerfið og útflutningsgreinarnar.
https://www.frettabladid.is/markadurinn/oll-vopn-nytt-gegn-veirunni/
12. mars 2020
Í kjölfar neyðarlækkunar á stýrivöxtum á Íslandi þann 11. mars um hálft prósentustig og lækkun meðaltalsbindiskyldu bankanna úr einu prósenti í núll prósent var leitað til Akta um álit á þessum aðgerðum og hver framvindan á peningastefnu Seðlabankans gæti orðið á þessu ári. Birgir Haraldsson, sérfræðingur á sviði blandaðra sjóða hjá Akta, ræddi við viðskiptarit Fréttablaðsins, Markaðinn, um líkur á því að frekari vaxtalækkanir myndu líta dagsins ljós og hvernig allt væri opið varðandi næstu skref Seðlabankans til þess að draga úr því þunga efnahagshöggi sem kórónaveiran myndi óhjákvæmilega valda.
https://www.frettabladid.is/markadurinn/bankarnir-endurskodi-ardgreidsluaform/
https://www.frettabladid.is/markadurinn/veruleg-laekkun-gaeti-komid-til-greina/
11. mars 2020
Áhættufælni hefur rokið upp á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum síðustu vikur í kjölfar hraðrar útbreiðslu kórónaveirunnar. Heimshlutabréfavísitalan hefur lækkað skarpt, olíuverð hrunið og ávöxtunarkrafan á bandarísk ríkisskuldabréf hefur hrapað niður á áður óþekktar slóðir. Seðlabankar og ríkisstjórnir hamast nú við í orði og verki að sporna gegn versnandi fjármálalegum skilyrðum og draga úr því þunga efnahagshöggi sem er orðið óhjákvæmilegt af sökum veirunnar.
Til að gera sér grein fyrir skalanum á þessu höggi er vert að hafa tvennt í huga. Fyrir það fyrsta þá hefur Alþjóða efnahags- ogframfarastofnunin (OECD) fært heimshagvaxtarspá sína í 1,5% úr 2,9% fyrir 2020 ef kórónaveiran breiðist frekar út og í öðru lagi þá lækkaði seðlabanki Bandaríkjanna stýrivexti um 0,5 prósentur á neyðarfundi í síðustu viku. Horfur fyrir heimsbúskapinn hafa því ekki verið verri síðan 2009 og bandaríski seðlabankinn hefur að sama skapi ekki haldið neyðarfund síðan í október 2008. Markaðsaðilar búast einnig við frekari vaxtalækkunum upp á 0,75 prósentur frá seðlabanka Bandaríkjanna í næstu viku.
Ytri efnahagsleg skilyrði Íslands hafa því gjörbreyst á skömmum tíma og magna nú upp þær veiku horfur sem Seðlabankinn setti fram í efnahagsspá sinni í byrjun febrúar. Þótt áhrif kórónaveirunnar gætu reynst tímabundin er ljóst að hagvaxtarhorfur hafa versnað verulega. Íslensk ferðaþjónusta mun finna fyrir þessum versnandi ytri skilyrðum en allt bendir til hríðminnkandi ferðabókana um allan heim þar sem heimsvísitala greinarinnar er nú í lægstu gildum sem hafa mælst síðan í byrjun árs 2011. Vandinn hérlendis er að ferðaþjónustan vegur þungt í þjóðarbúskapnum og vel umfram það sem þekkist í nágrannalöndum okkar en samkvæmt Alþjóðaferðamálaráðinu vegur greinin að fullu (bein og óbein áhrif) um 32,5% af vergri landsframleiðslu en einungis um 9,0% á Norðurlöndunum.
Auk þessara ytri áhrifa má ætla að fjölgun innanlandssmita á kórónaveirunni muni draga úr einkaneyslu og valda skörpum lækkunum á væntingum íslenskra neytenda og fyrirtækja. Vert er að minnast á að neytendur hérlendis höfðu ekki verið svartsýnni í sex ár í febrúar. Fyrirtæki hafa sömuleiðis sýnt þverrandi áhuga á að bæta við sig starfsfólki að undanförnu og líklegt er að sú þróun haldi áfram inn í sumarið.
Samstilltur skellur blasir því við þar sem að ytra og innra byrði hagkerfisins virðast á leið í tímabundið frost og ekki er hægt að útiloka langvarandi áhrif á efnahagslífið. Gera má ráð fyrir að framleiðsluslakinn aukist verulega næstu misseri.
Óháð aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr væntum efnahagserfiðleikum þarf einnig að nýta hefðbundin stýritæki Seðlabankans. Auðveldara mun reynast að vinda ofan af kröftugum og fyrirbyggjandi vaxtalækkunum ef þær reynast of skarpar þegar fram í sækir heldur en að missa frá sér hraðbreytanlegar aðstæður vegna ofurvarkárni. Ekki má heldur útiloka að hlutlausir raunvextir séu verulega lægri en nú er áætlað og hærra óvissustig gæti verið að þrýsta þeim enn neðar.
Auk þess er töluvert svigrúm fyrir veikari krónu að örva fjármálaleg skilyrði án þess að valda óvelkomnu verðbólguskoti vegna traustrar kjölfestu verðbólguvæntinga, hríðlækkandi olíuverðs og þess mikla framleiðsluslaka sem nú er að myndast. Tempruð lækkun á nafngenginu er sá flötur miðlunarferlis peningastefnunnar sem líklegast mætir minnsta viðnáminuum þessar mundir og má hafa í huga að raungengið er enn um 8,5 prósentustigum yfir meðaltali síðasta aldarfjórðungs og hefur staðið óbreytt síðan í lok 2018.
Efnahagslegar aðstæður innanlands og erlendis eru þannig að versna hratt og þörf er á frekari aðgerðum til að vinna gegn væntu höggi á útflutningsgreinarnar og innlenda eftirspurn. Þessi samstillti skellur reynist síðan vonandi tímabundinn. Ef svo er þá yrði hagkerfið á ágætis stað síðar á árinu með vind í seglin frá lágu olíuverði og bættum fjármálalegum skilyrðum ef rýmið til vaxtalækkana verður nýtt af krafti.
Grein eftir Birgi Haraldsson sem birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 11. mars 2020.
2. janúar 2020
Birgir Haraldsson hefur verið ráðinn til Akta og mun hann starfa sem sérfræðingur á sviði blandaðra sjóða hjá félaginu. Birgir hefur yfir 10 ára starfsreynslu á íslenskum og erlendum fjármálamörkuðum. Hann starfaði áður í markaðsviðskiptum hjá Arctica Finance. Á árunum 2010-2019 starfaði Birgir sem alþjóðasérfræðingur í New York og Genf í Sviss. Þar starfaði hann fyrir vogunarsjóðina Caxton Associates og Harness Investment Group, fjárfestingarbankann Jefferies Financial Group og greiningarfyrirtækið Nightberg. Birgir er með M.A. gráðu í hagfræði frá New York University og B.Sc gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.
Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8. hæð
105 Reykjavík
Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending
Vefur Akta notar vafrakökur til að safna upplýsingum um umferð á vefnum til að bæta upplifun notenda og vegna auglýsingabirtinga. „Nánar um vafrakökur“.
Í LAGI