16. nóvember 2021
Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta, birti í dag grein um alþjóðaumhverfið á nýju ári. Greinin birtist á Innherja, nýjum sjálfstæðum fréttamiðli innan Vísis.
Alþjóðaumhverfið á nýju ári
Það stefnir allt í að 2021 reynist gott ár fyrir innlenda og erlenda hlutabréfamarkaði. Íslenska hlutabréfavísitalan hefur hækkað um tæp 40% frá áramótum samanborið við 19% hækkun heimsvísitölu hlutabréfa. Þetta segir þó aðeins hálfa söguna því mikinn mun er að finna á milli atvinnugreina og landa. Þannig hefur bandaríski markaðurinn hækkað um 25% á árinu á meðan hlutabréfavísitala nýmarkaðsríkja er nokkurn veginn óbreytt.
Ólíkt hlutabréfamarkaðnum hefur róðurinn verið þyngri á skuldabréfamarkaði. Trygg, alþjóðleg skuldabréf hafa til að mynda lækkað um rúmlega 4% frá áramótum sem að óbreyttu verður versta útreið þeirra síðan 2005. Hérlendis hafa ríkisskuldabréf hækkað um 0,8% á árinu sem yrði lægsta árlega ávöxtun þeirra síðan 2013. Verðbólguþrýstingur og þverrandi stuðningur seðlabanka hefur haft áhrif. Ennfremur vænta markaðsaðilar umtalsverðra vaxtahækkana næstu 12 mánuði.
Nýtt fjárfestingaár er innan seilingar og er þá vert að huga að þeim alþjóðlegu þáttum sem gætu litað árangur blandaðra eignasafna með hátt vægi erlendra eigna fram til miðbiks næsta árs. Þrír þættir hafa einkum burði til þess að verða veigamiklir næstu ársfjórðunga.
Fyrst má nefna framvindu Covid-19 heimsfaraldursins. Það þarf að hafa í huga í þessu samhengi að heimsbúskapurinn er enn undir fullum afköstum vegna sóttvarnaaðgerða þrátt fyrir aukna útbreiðslu bólusetninga á árinu. Þannig er áætlað að heimsbúskapurinn sé rúmlega 2% undir afkastagetu í dag (var 4% undir í ágúst) vegna sóttvarnaaðgerða sem enn eru í gildi víða um heiminn.
Full afköst gætu þó verið innan seilingar. Sé til dæmis miðað við fjölda nýrra bólusetninga þessa stundina eru fimm mánuðir í að 75% heimsbyggðarinnar hafi fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. Aukin notkun örvunarskammta ætti einnig að efla virkni grunnbólusetninga á næsta ári. Samhliða þessu er líklegt að ný og öflug meðferðarlyf við Covid-19 komi á markað á næstu mánuðum. Pfizer hefur til að mynda sýnt að lyf sitt dragi úr hættunni á spítalavist og dauðsföllum um nærri 90% í óbólusettum einstaklingum. Áætlað er að 21 milljónir skammta af lyfinu verði til taks á fyrri helming næsta árs sem er umtalsvert magn miðað við heildarfjölda innlagna á spítala þegar verst hefur látið í öllum bylgjum faraldursins.
Sviðsmynd faraldursins og afkastagetu heimshagkerfisins er því sæmilega björt þegar horft er til næstu sex til níu mánaða þrátt fyrir að skammtímahorfur hafi versnað. Athafnafrelsi einstaklinga ásamt efnahags- og rekstrarumhverfi fyrirtækja ætti að batna frekar á næsta ári og umskiptin yfir í aukna neyslu á þjónustu fremur en vörum að hraðast.
Fjármálamarkaðir og efnahagshorfur í Kína gætu síðan spilað stórt hlutverk fram á næsta sumar. Reynt hefur á hagkerfið á þessu ári og var takturinn í hagvexti á þriðja ársfjórðungi einungis um 0%. Samansafn af hátíðnigögnum frá helstu viðskiptalöndum Kína benda einnig til þess að niðursveiflan hafi verið skörp að undanförnu. Covid-19 faraldurinn, orkuskortur, vandræði á fasteignamarkaði og lítill lánavöxtur hafa hægt á hagkerfinu ásamt auknum inngripum stjórnvalda í hinar ýmsu atvinnugreinar á árinu. Afleiðingin er að skuldaraálagið á asískum hávaxtaskuldabréfum stendur nú í sömu gildum og í mars á síðasta ári þegar Covid-19 óvissan náði hámarki og kínversk hlutabréf hafa lækkað um 12% frá áramótum. Á sama tíma er skuldaraálag bandarískra og evrópskra hávaxtaskuldabréfa nærri lægstu gildum síðasta áratugar og heimsvísitala hlutabréfa hefur hækkað um 19% á árinu.
Vont getur vissulega versnað en komi til aukins stuðnings við hagkerfið frá stjórnvöldum gæti taktur þess breyst til hins betra. Merki eru um slíkar aðgerðir að undanförnu og frekari stuðningur myndi gera sviðsmyndir kínverskra fjármálamarkaða ósamhverfar og hneigðar til hækkunar þegar litið er til næstu ársfjórðunga. Það myndi að auki hafa jákvæð áhrif fyrir alþjóðlega fjármálamarkaði ef kínverskir eignamarkaðir tækju við sér eftir einkar erfitt ár. Mikilvægt er því að fylgjast vel með aðgerðum stjórnvalda og takti hagkerfisins næstu misserin.
Að lokum er það þróun verðbólgu á alþjóðavísu en hún mun áfram leika mikilvægan þátt í að móta skammtímavaxtavæntingar og aðgerðir seðlabanka. Verðbólgan hefur verið há að undanförnu í heimsbúskapnum vegna verðhækkana á alþjóðavörum ásamt því að fasteignamarkaðir hafa margir hverjir hækkað skarpt. Riðlun á virðiskeðjum hefur leikið stórt hlutverk og sést það meðal annars á því hversu mörg bandarísk fyrirtæki hafa rætt um virðiskeðjuna og vöruskort á nýlegum uppgjörsfundum. Þannig hafa nærri 70% fyrirtækja rætt virðiskeðjuna í núverandi uppgjörshrinu miðað við einungis 22% að meðaltali síðasta áratuginn og rúmlega 20% þeirra hafa rætt vöruskort miðað við 5% að jafnaði.
Hvernig tekst að vinda ofan af vandræðum virðiskeðjunnar er því lykilatriði fyrir verðbólguþróunina. Þannig hefur framboð á hálfleiðurum (e. semiconductors) verið að skána og bílaframleiðsla samhliða því. Auk þessa hefur skipaflutningakostnaður tekið að lækka undanfarnar vikur. Verðbólgusviðsmyndin er án efa háð mikilli óvissu ennþá en þar sem verðbólgu- og vaxtavæntingar eru umtalsverðar er skynsamlegt að huga að hinu óvænta. Frekari útbreiðsla bólusetninga við Covid-19 ásamt virkum meðferðarlyfjum gæti til að mynda dregið úr verðbólguþrýstingi með því að ýta undir neyslu á þjónustu fremur en vörum og koma í veg fyrir frekari röskun á virðiskeðjum. Hár en þverrandi verðbólgutaktur gæti vel dugað til þess að draga úr hitanum í kringum verðbólgusöguna umtalsvert.
Í stuttu máli, þáttaskil gætu átt sér stað innan mikilvægra alþjóðlegra þátta á næstu ársfjórðungum og í kjölfarið litað árangur blandaðra eignasafna með hátt vægi erlendra eigna. Mikilvægt er því að halda þeim til haga með opnum hug.
Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8. hæð
105 Reykjavík
Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending
Vefur Akta notar vafrakökur til að safna upplýsingum um umferð á vefnum til að bæta upplifun notenda og vegna auglýsingabirtinga. „Nánar um vafrakökur“.
Í LAGI