3. júní 2020
Erfiður vetur er að baki þar sem kórónaveiran setti mark sitt á bæði fjármálamarkaði og efnahagslífið hérlendis og erlendis. Skaðinn sést í hagvaxtarspám fyrir þetta ár en Seðlabanki Íslands væntir -8,0% samdráttar og erlendir greiningaraðilar búast við -3,0% samdrætti í heimsbúskapnum. Til að setja þessar tölur í samhengi má hafa í huga að ef spárnar raungerast, verður um að ræða mesta árlega samdrátt í heila öld á Íslandi og sömuleiðis verstu útreið heimshagkerfisins síðan í kreppunni miklu fyrir 90 árum. Stóraukin ríkisútgjöld hafa óhjákvæmilega fylgt þessum erfiðu efnahagsaðstæðum og kröftugar aðgerðir seðlabanka hafa leitt til sögulega lágra vaxta.
Skammtímaáhrif kórónaveirunnar á efnahagslífið hafa þannig verið gífurleg og líklegt er að áhrifin verði einnig töluverð þegar litið er til meðallangs- og langs tíma. Til að mynda gætu skattar þurft að hækka til að vinda ofan af auknum ríkishalla um allan heim. Viðskiptaumhverfið er einnig líklegt til að breytast með frekari eflingu netverslunar, og fjölbreyttara starfsfyrirkomulagi sem kann að breyta eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði, ásamt því að framleiðslukeðjur heimshagkerfisins gætu verið endurskipulagðar. Þá eru ótalin þau samfélagslegu og pólitísku áhrif sem vænta má ef sögulega hátt atvinnuleysi reynist þrálátt.
Enduropnun hagkerfa hefur þó átt sér stað hægt og rólega síðan í byrjun apríl og hefur í sameiningu með aðgerðum ríkisstjórna og seðlabanka aukið vonir um efnahagslega viðspyrnu. Fjármálamarkaðir, þá sérstaklega erlendis, hafa tekið ágætlega við sér eftir skarpa dýfu fyrr á árinu, jafnvel þótt langtímasviðsmyndir efnahagslífsins séu enn háðar mikilli óvissu. Ákveðnir hlutar markaðarins hafa jafnvel náð fyrri gildum og gott betur.
Skammtímaáhrif kórónaveirunnar á fjármálamarkaði kunna þannig að virðast léttvæg við fyrstu sýn, en áhrifin fyrir íslenska sparifjáreigendur eru líkleg til að verða töluverð til lengri tíma litið. Rétt eins og með framleiðslukeðjur heimshagkerfisins verður sennilega mikil þörf fyrir endurskipulagningu íslenskra eignasafna.
Hvers vegna?
Þegar litið er á aðrar fjáreignir en lífeyriseign íslenskra heimila, má áætla að um 60% af þeim – um 1,500 milljarðar króna – sé bundinn í innlánum, skuldabréfum og í hlutdeildarskírteinum skuldabréfa- og peningamarkaðssjóða. Þessar vaxtatengdu fjáreignir standa nú frammi fyrir sögulega lágum vaxtagrunni, en stýrivextir Seðlabankans hafa verið lækkaðir kröftuglega á þessu ári og eru nú 1,0%.
Þessi lági vaxtagrunnur helst líklegast óbreyttur til lengri tíma, enda mun taka tíma að bæta upp skaðann sem kórónaveiran hefur valdið á þessu ári. Þannig spáir Seðlabankinn til að mynda talsverðum framleiðsluslaka næstu árin, sem gefur litlar forsendur til vaxtahækkana. Sömu sögu er að segja af helstu seðlabönkumheims, en stýrivöxtum er spáð óbreyttum næstu þrjú árin beggja megin Atlantshafsins.
Í stuttu máli þá munu innlán og íslensk ríkisskuldabréf eiga erfitt með að skila ávöxtun umfram verðbólgu á komandi misserum og raunávöxtun því líkleg tilað vera lítil sem engin, eða neikvæð fyrir meginþorra sparnaðar íslenskraheimila.
Hvað er til ráða?
Óhjákvæmilegt er að færsla eigi sér stað úr þessum áhættuminni eignum og yfir í áhættumeiri eignir með tíð og tíma. Endurskipulagning eignasafna felur því í sér að taka varfærin og vel ígrunduð skref lengra út á áhætturófið, til að auka væntaávöxtun. Slík skref geta falið í sér fjárfestingar í skuldabréfum fyrirtækja og banka hérlendis, sem og í félögum á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Auk þessa er hægt að fjárfesta á fjármálamörkuðum erlendis, bæði í skuldabréfum og hlutabréfum. Þannig má draga úr næmni fjáreigna við gang íslenska hagkerfisins og sömuleiðis auka flóruna af mögulegum fjárfestingarkostum margfalt.
Það er þannig ljóst að miklar langtímabreytingar eru að eiga sér stað á íslenskum fjármálamarkaði í kjölfar versta efnahagsáfalls sem hefur mælst hérlendis í heila öld. Lágvaxtaumhverfið verður þrálátt og nýja eignasafnið mun því að öllum líkindum þurfa að vera bæði alþjóðlegra og blandaðra en það er ídag.
Grein eftir Birgi Haraldsson sem birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 3 júní. 2020.
https://www.frettabladid.is/skodun/nyja-eignasafnid/
Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8. hæð
105 Reykjavík
Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending
Vefur Akta notar vafrakökur til að safna upplýsingum um umferð á vefnum til að bæta upplifun notenda og vegna auglýsingabirtinga. „Nánar um vafrakökur“.
Í LAGI