12. mars 2024
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Fannars Arnar Arnarssonar sjóðstjóra hjá Akta í tengslum við umfjöllun sína um nýgerða kjarasamninga.
Bið á vaxtalækkun meðan óvissa er um fjármögnun á kjarapakka stjórnvalda
Nýgerðir samningar á almennum vinnumarkaði fela í sér launahækkanir við neðri mörk þess sem sést hefur í kjarasamningum síðustu fimmtán ár og lengd þeirra ætti að minnka verðbólguáhættu og auka fyrirsjáanleika, að mati viðmælenda Innherja á fjármálamarkaði, en ólíkar skoðanir eru um áhrifin á verðbólguhorfur. Miklu máli skiptir fyrir vaxtalækkunarferlið að stjórnvöld skýri hvernig þau hyggjast fjármagna tugmilljarða útgjaldaaðgerðir sínar sem eru „óhjákvæmilega“ sagðar vera eftirspurnarhvetjandi.
„Það sem er jákvætt við kjarasamningana er að nú sjáum við fram á frið á vinnumarkaði til lengri tíma og fyrirtæki og almenningur geta gert áætlanir út frá forsendum samninganna,“ segir Gunnar Örn Erlingsson, skuldabréfamiðlari hjá Arion banka, í samtali við Innherja.
Hann segir að það sé jákvætt að fastlega megi gera ráð fyrir að kjarasamningarnar sem voru undirritaðir fyrir helgi milli SA og breiðfylkingar stéttarfélaga – SGS, Eflingu og Samiðn – verði fyrirmynd annarra samninga á vinnumarkaði en strax í kjölfarið kláruðust sömuleiðis samningar við fagfélögin á sömu nótum. „Samningarnir virðast hagfelldir bæði verkalýðsfélögum og atvinnurekendum,“ útskýrir Gunnar Örn, og bætir við:
„Hið opinbera virðist ætla að bera stærstan hluta af þeim kostnaði sem fylgir samningunum. Myndi því halda að þeir ættu að vera mjög góðir fyrir hlutabréfamarkaðinn.“
Kjarasamningarnir á almennum vinnumarkaði eru til fjögurra ára. Lágmarkshækkun launa á hverju samningsári er 23.750 krónur en almennt hækka laun um 3,25 prósent á þessu ári en 3,5 prósent næstu þrjú árin á eftir. Þá er kveðið á um greiðslu kauptaxtaauka ef launavísitala hækkar umfram tiltekið viðmið og sömuleiðis greiðslu framleiðniauka ef vöxtur í framleiðni verður meiri en 1,5 prósent.
Samhliða undirritun kjarasamninganna tilkynnti ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga um margháttaðar aðgerðir sem voru sagðar lagðar fram til að „greiða fyrir“ gerð þeirra. Þær fela meðal annars í sér auknar barna, - húsnæðis- og vaxtabætur, gjaldfrjálsar skólamáltíðir, hærri fæðingarorlofsgreiðslur, sérstakan vaxtastuðning og aukin stofnfjárframlög til að styðja við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Aðgerðarpakki stjórnvalda er áætlaður allt að 80 milljarðar yfir samningstímann og til stendur að forgangsraða aðgerðunum sérstaklega í komandi fimm ára fjármálaætlun.
Spurður um aðgerðir stjórnvalda á verðstöðugleika þá segir Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka, að ljóst sé að öll ríkisútgjöld sem fela í sér auknar tilfærslur til heimila séu „óhjákvæmilega eftirspurnarhvetjandi.“ Hann efast hins vegar um að umfangið á aðgerðapakkanum sé af þeirri stærðargráðu að það riðli verðstöðugleika eða stöðu ríkissjóðs, þótt hjöðnun verðbólgunnar verði kannski örlítið hægari en ella.
„Mér reiknast til að innspýtingin í húsnæðis- og barnabætur ein og sér séu um 12,5 milljarðar, eða sem nemur 0,3 prósentum af vergri landsframleiðslu á árinu, en þar af eru 7 milljarðar í einskiptisstuðning vegna aukinnar vaxtabyrði. Heildarumfang aðgerðanna verður líklega ekki meira en 0,5 til 0,6 prósent sem hlutfall af landsframleiðslu á árinu. Áhrifin á eftirspurn og verðlag verða svo minni ef aðgerðirnar fela fyrst og fremst í sér breytta forgangsröðun fjármuna og það koma til mótvægisaðgerðir annarsstaðar í ríkisrekstrinum,“ útskýrir Hafsteinn í samtali við Innherja.
Seðlabankastjóri varaði við mikilli ríkisfjármálainnspýtingu
Aðrir viðmælendur á fjármálamarkaði benda sömuleiðis á að aðgerðir stjórnvalda kunni að vinna gegn þeim áhrifum sem hóflegar launahækkanir í kjarasamningunum hafa á verðstöðugleika. „Til skamms tíma finnst mér líklegt að samningarnir hafi jákvæð áhrif að slá á verðbólguna, meðal annars litið til þess að gert er ráð fyrir að gjaldskrárhækkanir verði teknar til baka og verði hóflegar 2024 og 2025, en til lengri tíma óttast ég þensluhvetjandi aðgerðir hins opinbera,“ segir Gunnar Örn, og bætir við:
„En það sem mér þykir verra,“ nefnir hann, er að ekki sé búið að útskýra hvernig hið opinbera muni fjármagna aðgerðirnar en þrjár leiðir séu til eða samspil þeirra; niðurskurður, skattheimta og lántaka. Fram hefur komið í máli Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur fjármálaráðherra að hún „útiloki“ skattahækkanir á millitekjuhópa og vilji fremur horfa til aukins aðhalds í útgjöldum ríkisins.
Gunnar Örn bendir á að í lok síðasta mánaðar hafi verið samþykkt fjáraukalagafrumvarp sem heimilar 30 milljarða aukna lántöku – samtals nemur sú heimild þá 230 milljörðum – en því var ætlað að mæta aðgerðum stjórnvalda við kaup á íbúðarhúsnæði Grindvíkinga.
„Það er því spurning hvort við fáum enn eitt fjáraukalagafrumvarpið. En á meðan ekki liggur fyrir hvernig þetta verður fjármagnað þá finnst mér afar hæpið að Seðlabankinn ráðist í vaxtalækkun nú í mars. Ég myndi halda að trúverðug áætlun stjórnvalda varðandi fjármögnunarhliðina þurfi að liggja fyrir til þess að peningastefnunefnd geti stigið fyrsta skrefið í vaxtalækkunarferlinu. Vonum bara að hún komi á næstu vikum, hagfræðisvið Seðlabankans meti hana ekki of þensluhvetjandi og nefndin geti hafið vaxtalækkunarferlið í maí samhliða útgáfu Peningamála og nýrri spá bankans.“
Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur haldið vöxtum óbreyttum í 9,25 prósent síðustu þrjá fundi. Í viðtali við Innherja eftir síðustu vaxtaákvörðun í byrjun febrúar varaði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri við „sterkri ríkisfjármálainnspýtingu“ inn í kerfið við gerð kjarasamninga.
Kröfur breiðfylkingar stærstu verkalýðsfélaga landsins á þeim tíma um myndarlega aðkomu stjórnvalda með því að stórauka ýmsar bætur í tilfærslukerfunum myndu ýta undir verðbólgu, rétt eins og miklar launahækkanir, og því væri „mikilvægt“ að samningaaðilar gerðu sér grein fyrir því, sagði seðlabankastjóri. Enn meiri ástæða væri til að hafa slíkt í huga núna þegar fyrir liggur að hamfarirnar í Grindavík munu hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.
Fannar Örn Arnarson, sjóðstjóri skuldabréfa hjá Akta, tekur í sama streng og aðrir markaðsaðilar um að samningarnir séu við fyrstu sýn með skynsamlegra móti og sú staðreynd að þeir séu til fjögurra ára ætti að hafa jákvæð áhrif á verðstöðugleika næstu árin. Umsamdar launahækkanir virðast vera hófsamar, undir því sem Seðlabankinn hafi spáð í Peningamálum sem komu út í febrúar, og því megi ætla að kostnaðaraukning hjá fyrirtækjum verði minni en óttast var.
„Það eitt og sér er jákvætt fyrir verðbólguhorfur yfir samningstímann en á móti kemur er ríkið að stíga nokkuð myndarlega inn í þessa samninga með ófjármögnuðum eftirspurnarhvetjandi aðgerðum bæði fyrir heimilin og á húsnæðismarkaði. Þessar aðgerðir munu hafa áhrif til hækkunar verðlags en þær verðhækkanir munu dreifast yfir lengra tímabil og umfang þeirra er verulega óljóst. Auk þess á eftir að koma í ljós með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst fjármagna þessar aðgerðir en það er alveg ljóst að það mun skipta peningastefnunefnd Seðlabankans máli með tilliti til hraða og umfang vaxtalækkanaferlisins hvort að aðgerðirnar verði fjármagnaðar með auknum halla, skattahækkunum eða niðurskurði,“ undirstrikar Fannar Örn.
Hann telur því útlitið „nokkuð bjart“ fyrir verðbólguhorfur næstu ára og samningarnir ættu að auðvelda peningastefnunefndinni að lækka vexti á næstu misserum. Samkvæmt nýjustu spá Seðlabankans er ráðgert að verðbólgan, sem mælist núna 6,6 prósent, lækki niður í ríflega fjögur prósent í árslok og hún verði komin í markmið á seinni hluta ársins 2026.
„Hins vegar verður að teljast neikvætt fyrir verðbólguhorfur til lengri tíma litið,“ bætir Fannar Örn við, „ítrekuð aðkoma stjórnvalda að gerð kjarasamninga og að það sé ríkjandi viðhorf hjá stjórnmálamönnum að það séu eðlilegir stjórnarhættir að ríkisstjórnin auki útgjöld sín til að koma á „verðstöðugleika“.
Hafsteinn hjá Kviku banka segir að samningarnir sem hafi náðst séu í hófstilltara lagi, rétt eins og lagt var upp með hjá aðilum vinnumarkaðarins, og launaliðurinn sé við neðri mörk þess bils sem við höfum séð í kjarasamningum síðustu 15 ára. Almenna launahækkunin er þannig svipuð og á mótum kjarasamninganna 2011/2013 og 2016/2019, en í báðum tilvikum var verðbólga nærri markmiði eða stefndi þangað.
„Þá eru launahækkanirnar líklega nálægt þeim forsendum sem Seðlabankinn gaf sér við síðustu verðbólguspá sína, en hún sýndi verðbólgu ganga niður í átt að markmiði hægt en örugglega,“ útskýrir Hafsteinn. Þannig spáði bankinn því að launakostnaður á framleidda einingu myndi hækka um ríflega sjö prósent á árinu 2024 en að jafnaði um tæplega fjögur prósent næstu tvö árin á eftir.
„Ég held því að verðbólguhorfurnar hafi ekki endilega breyst eða batnað mikið miðað við það sem búist var við eftir síðustu meldingar frá samningsaðilunum, en það er auðvitað búið að draga heilmikið úr verðbólguáhættunni og auka fyrirsjáanleikann með því að ljúka samningunum formlega, að því gefnu að þetta marki stefnuna fyrir vinnumarkaðinn í heild. Líklega var að hluta til búið að verðleggja niðurstöðu á þessum nótum inn í skuldabréfamarkaðinn síðustu vikur, og því sáum við ekki stóra kröfulækkun á markaði á föstudag, þótt markaðurinn hafi reyndar tekið vel í lendinguna frekar en hitt,“ segir aðalhagfræðingur Kviku í samtali við Innherja.
Verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði – munurinn á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisbréfa – hefur lækkað lítillega frá undirritun samninga og kynningu á kjarapakka stjórnvalda.
Hafsteinn nefnir að það hafi verið vitað mál að kjarasamningarnir væru eitt stærsta útistandandi óvissuatriðið fyrir peningastefnunefnd. Hann segir ekki hægt að útiloka alveg að nefndin muni ríða á vaðið og lækka vexti á fundinum um miðja næstu viku, eins konar „goodwill“ til handa aðilum vinnumarkaðarins, einfaldlega með þeim rökum að dregið hafi úr óvissu um verðbólguhorfurnar með samningunum. Hins vegar hafi mátti lesa út úr síðustu fundargerð nefndarinnar að þótt einum nefndarmanni hefði þótt tímabært að hefja vaxtalækkunarferlið nú þegar, þá væru aðrir nefndarmenn enn varfærnir.
„Ég á því sjálfur síður von á vaxtalækkun í mars eftir heita verðbólgumælingu í febrúar, og mér finnst líklegt að meirihluti nefndarinnar vilji bíða eftir skýrari útlistun á því hvernig aðgerðir ríkissjóðs verði fjármagnaðar og sjá skýr merki þess að samningarnir skili sér í áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar. Ef sú verður raunin er ekkert því til fyrirstöðu að vextir lækki þegar líður á árið, enda fara raunstýrivextir hækkandi eftir því sem verðbólgan gengur niður, og því er bankinn í stöðu til að halda aðhaldinu tiltölulega þéttu jafnvel þótt vextirnir lækki.“
Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8. hæð
105 Reykjavík
Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending
Vefur Akta notar vafrakökur til að safna upplýsingum um umferð á vefnum til að bæta upplifun notenda og vegna auglýsingabirtinga. „Nánar um vafrakökur“.
Í LAGI