6. október 2022
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Birgis Haraldssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við hækkun stýrivaxta Seðlabankans.
Fjárfestar telja að Seðlabankanum takist að kæla hagkerfið
Verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði hefur komið hratt niður síðan peningastefnunefnd kom saman í ágúst, bæði í gegnum lækkun á óverðtryggðu kröfunni og hækkun á þeirri verðtryggðu. Það er lýsandi fyrir væntingar fjárfesta um að Seðlabankanum sé að takast að kæla hagkerfið með aðgerðum sínum.
Þetta segir Rósa Björgvinsdóttir, forstöðumaður skuldabréfa hjá Landsbréfum.
Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun um að stýrivextir verði hækkaðir um 0,25 prósentur í dag og verði 5,75 prósent. Bankinn hefur að undanförnu hækkað vexti hratt til að ná böndum á vaxandi verðbólgu. Frá því í byrjun maí hafa stýrivextir hækkað um þrjú prósentustig. Verðbólga mældist þá 7,6 prósent og jókst í 9,9 prósent júlí en lækkaði í 9,3 prósent í september.
Sævar Ingi Haraldsson, sjóðstjóri í skuldabréfateymi Stefnis, segir að skuldabréfamarkaðurinn hafi tekið vel í stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans. „Kröfur á ríkisskuldabréfamarkaði hafa lækkað nokkuð það sem af er degi sem endurspeglar væntingar um að líklega sé vaxtahækkunarferli bankans lokið í bili,“ segir hann.
Þróun ávöxtunarkröfunnar á óverðtryggðum ríkisbréfum hefur ekki aðeins áhrif á þau lánskjör sem ríkissjóði bjóðast á innlendum skuldabréfamarkaði heldur sömuleiðis á fjármagnskostnað fyrirtækja og heimila. Bankarnir fjármagna til að mynda fasteignalán til heimila með útgáfu sértryggðra skuldabréfa og viðskipti með þau bréf fylgja þróun á ríkisbréfamarkaðnum.
Birgir Haraldsson, sjóðsstjóri hjá Akta, segir að Seðlabankinn sé að vonast til að ekki þurfi að hækka stýrivexti meira að sinni en bankinn hafi verið að hækka stýrivexti frá vorinu 2021.
„Þetta hefur gefið skuldabréfamarkaðnum meðvind í dag en hann er algerlega háður því að verðbólgutölur næstu mánaða styðji við þessa nýju afstöðu Seðlabankans. Síðustu tveir mánuðir hafa sannarlega verið réttu megin hvað það varðar með mánaðartaktinn í verðbólgunni; loksins í línu við tíu ára meðaltölin eftir að hafa verið nærri 0,8 prósent hærri en þau að meðaltali frá janúar til júlí. Innlendir og erlendir þættir styðja vissulega við þessa sögu um að það versta sé yfirstaðið í verðbólgunni og er það núna alfarið í höndum næstu verðbólgumælinga að skera úr um hvort það reynist rétt,“ segir hann.
Rósa segir að tónninn hjá peningastefnunefnd Seðlabankans og seðlabankastjóra hafi verið mun mýkri í dag en að undanförnu þegar tilkynnt hafi verið um vaxtahækkanir. Nú séu enda komnar fram sterkar vísbendingar um að aðgerðir bankans til að kæla hagkerfið hafi veruleg áhrif, bæði stýrivaxtahækkanir og aðgerðir fjármálastöðugleikanefndar.
„Seðlabankinn hefur hækkað vexti mjög mikið og hratt á síðustu mánuðum og aðgerðir bankans eru að virka. Ekki bara að virka heldur líklega að duga til að við sjáum verðbólgu hjaðna nokkuð hratt að óbreyttu,“ segir hún.
Sævar Ingi segir að það sé áhugavert að Seðlabankinn játi að síðasta verðbólguspá hans hafi verið of svartsýn en verðbólga virðist hafa náð toppi síðastliðið sumar. Annað sem vakti athygli hafi verið að Seðlabankinn skaut á á aðila vinnumarkaðarins og ríkisfjármálin um að allir þurfi að taka þátt í að koma böndum á verðbólguna. „Það verður stóra málið í vetur,“ segir hann.
Rósa rifjar upp að Seðlabankastjóri sagði í þessu samhengi á kynningarfundi í morgun að Seðlabankinn væri reiðubúinn að hækka stýrivexti meira ef þörf krefur og þróunin verði óhagstæð.
Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8. hæð
105 Reykjavík
Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending
Vefur Akta notar vafrakökur til að safna upplýsingum um umferð á vefnum til að bæta upplifun notenda og vegna auglýsingabirtinga. „Nánar um vafrakökur“.
Í LAGI