11. maí 2022
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Davíðs Stefánssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við nýlegar sveiflur á fjármálamörkuðum innanlands og erlendis.
Uggur og ótti á mörkuðum: Horfurnar betri á Íslandi en óvissan áfram ráðandi
Ef seðlabankar iðnríkja sjá sig knúna til að hækka vexti hratt og mikið vegna ótta um að verðbólgan sé að fara úr böndunum gæti það leitt efnahagssamdráttar. Verði slík sviðsmynd að veruleika, sem er ekki útilokað, þá mun það setja áfram þrýsting á eignamarkaði eins og hlutabréf sem hafa nú þegar lækkað skarpt hér heima og erlendis.
Þetta segja viðmælendur Innherja á fjármálamarkaði en þrátt fyrir að Ísland muni ekki fara varhluta af þeirri þróun þá benda þeir á að efnahagshorfur hér á landi séu nokkuð betri en í okkar helstu viðskiptalöndum, einkum vegna góðrar stöðu útflutningsgreinanna.
„Við erum varla að fara að glíma við samdrátt ofan í mikla verðbólgu,“ útskýrir Eggert Þór Aðalsteinsson, fjárfestingarstjóri hjá Kviku eignastýringu, og bætir við: „Útflutningsgreinarnar standa ansi vel þessa dagana eftir miklar hækkanir á hrávöruverði og útlit er fyrir gott sumar í ferðaþjónustunni. Seðlabankinn spáir þannig 4,6 prósenta hagvexti sem er umtalsvert meiri vöxtur en í helstu viðskiptalöndum okkar í Evrópu.“
Hlutabréfamarkaðir, bæði hér á landi og í Evrópu, réttu úr kútnum fyrst þegar markaðir opnuðu í morgun eftir miklar verðlækkanir að undanförnu. Þær gengu hins vegar að stórum hluta til baka og Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hafði aðeins hækkað um 0,01 prósent við lokun markaða rétt fyrir skemmstu. Mest hækkaði gengi bréfa Eimskips, Icelandair, Kviku og VÍS, eða á bilinu 2 til 2,5 prósent. Úrvalsvísitalan er því niður um 17,4 prósent frá áramótum – er þá ekki búið að leiðrétta fyrir arðgreiðslum sumra félaga – en þar munar miklu um fjórðungslækkun á hlutabréfaverði Marels á tímabilinu en félagið vigtar mest allra í vísitölunni.
Davíð Stefánsson, sjóðstjóri blandaðra sjóða hjá Akta, segir við Innherja að á síðustu misserum hafi umhverfið á fjármálamörkuðum verið „krefjandi“ og að leita þurfti áratugi aftur í tímann til að finna sambærilegar aðstæður, að minnsta kosti á alþjóðavísu.
„Fjárfestar horfa nú til þess að verðbólga er sögulega há auk þess sem seðlabankar eru að hækka vexti samhliða því að hagvöxtur er að koma hratt niður. Hefðbundin blönduð eignasöfn sem reiða sig á hækkun ríkisskuldabréfa þegar hlutabréf lækka virka því ekki eins og svo oft áður. Á þessu ári er blandað safn erlendra langra ríkisskuldabréfa og hlutabréfa að eiga eitt sitt versta ár, horft yfir síðustu þrjá áratugi,“ segir Davíð.
Að sögn hans sé Ísland ekki ónæmt fyrir þessari þróun en til skamms tíma séu aðstæður hér á landi betri og vísar þá til stöðu okkar helstu útflutningsgreina, eins og meðal annars orkufyrirtækjanna og sjávarútvegs, sem hafa notið góðs af því ástandi sem hefur ríkt að undanförnu.
Það er líklegt að niðurstaða kjarasamninga muni hafa umtalsverð áhrif á markaði en útlit er fyrir að hið opinbera þurfi að koma með afgerandi hætti að borðinu til að mjúk lending náist.
„Ef hagvaxtarhorfur versna hins vegar enn frekar á heimsvísu er ljóst að það mun hafa neikvæð áhrif á Ísland frá því sem nú er og horfurnar færast nær því sem er í þróuðum löndum, til dæmis Bandaríkjunum. Þá er líklegt að niðurstaða kjarasamninga muni hafa umtalsverð áhrif á markaði en útlit er fyrir að hið opinbera þurfi að koma með afgerandi hætti að borðinu til að mjúk lending náist,“ að mati Davíðs.
Það sem af er ári hefur eignaverð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum gefið mikið eftir og óvissa aukist. Þannig hefur meðal annars Nasdaq vísitalan í Bandaríkjunum lækkað um yfir fjórðung frá áramótum en væntingar um mun meiri og hraðari vaxtahækkanir vestanhafs hefur leitt til mikillar leiðréttingar á hlutabréfaverði margra tæknifyrirtækja þar í landi. Sé litið til Úrvalsvísitölunnar hér á landi þá hefur verðlækkun helstu íslensku félaganna í Kauphöllinni verið sambærileg borið saman við hlutabréfavísitölur á hinum Norðurlöndunum.
Í síðustu Peningamálum Seðlabankans, sem birtust á miðvikudaginn í liðinni viku, kom fram að verðlækkun hlutabréfa í upphafi árs hafi einkum skýrst af áhyggjum af hraðari hækkun seðlabankavaxta helstu iðnríkja. „Ásókn í öruggari fjáreignir, eins og gull og bandarísk ríkisskuldabréf, jókst og sveiflur á fjármálamörkuðum jukust. Áhættu- og vaxtaálag hækkaði einnig, einkum á áhættumeiri fjáreignir nýmarkaðsríkja. Þá hefur hlutabréfaverð í Kína lækkað mikið undanfarna mánuði sem að hluta má rekja til hertra sóttvarnaraðgerða þar í landi. Fjármálaleg skilyrði á heimsvísu hafa því versnað,“ sagði í ritinu.
Á Íslandi varð lækkunin á hlutabréfum í kjölfar innrásar Rússa mest um tólf prósent snemma í marsmánuði og á þeim tíma virtist „mikið hafa verið um kröfur um auknar tryggingar og að framvirkum samningum hafi verið lokað að fullu eða að hluta,“ eins og nefnt er í Peningamálum Seðlabankans.
Í nýrri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem var birt um miðjan apríl, er áætlað að hagvöxtur í heiminum verði 3,6 prósent í ár en það 0,8 prósentum minni vöxtur en sjóðurinn spáði í janúar í ár. Skýrist það einkum af þeim áhrifum sem stríðsátökin í Úkraínu, sem hafa leitt til mikilla verðhækkana á olíu og öðrum hrávörum, og refsiaðgerðir gegn Rússlandi hafa í för með sér fyrir heimshagkerfið. Í Peningamálum Seðlabankans er bent á að hagvaxtarhorfur hafa versnað í öllum helstu viðskiptalöndum Íslands, sérstaklega á evrusvæðinu, bæði á þessu ári og því næsta.
Davíð hjá sjóðastýringufyrirtækinu Akta nefnir að síðustu ár og áratugi hafi vaxtastig lækkað stöðugt og þannig stutt við verðhækkanir hlutabréfa beggja vegna Atlantshafsins.
„Nú hefur aftur á móti vaxtastig hækkað hratt á skömmum tíma sem hefur leitt til þess að þrýstingur hefur myndast á verðlagningu hlutabréfa. Færa má rök fyrir því að markaðir hafi að mestu leiti endurstillt sig í samræmi við núverandi vaxtastig – og væntingum um frekari hækkanir – en óvissan sem nú stendur eftir er þá hvort hagvaxtarhorfur fari versnandi eða batnandi,“ segir hann.
Íslensk hlutabréf endurspegla líklegast hærra vaxtastig og horfur sem eru nokkuð betri en í flestum þróuðum löndum.
Þá telur hann ljóst að framvinda verðbólgu næstu misseri og viðbrögð seðlabanka við henni muni líkast til hafa ráðandi áhrif á eignarmarkaði. „Ef seðlabankar sjá sig knúna til að hækka vexti um og of vegna áframhaldandi verðbólgu gætu þeir leitt til samdráttar en slík sviðsmynd myndi leiða til áframhaldandi þrýstings á eignamarkaði. Íslensk hlutabréf endurspegla líklegast hærra vaxtastig og horfur sem eru nokkuð betri en í flestum þróuðum löndum. Ljóst er að óvissan er umtalsverð en ætti að skýrast eftir því sem líður á haustið,“ segir Davíð.
Verðbólga mældist 7,2 prósent í apríl og samkvæmt nýrri spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólgan muni mælast í kringum átta prósent á þriðja og fjórða ársfjórðungi – sem er um 2,8 prósentum meiri verðbólga var spáð í febrúar. Vextir bankans voru hækkaðir úr 2,75 prósentum í 3,75 prósent á vaxtaákvörðunarfundi síðasta miðvikudag og flestir greinendur spá því að vextirnir verði komnir yfir fimm prósent undir lok sumars.
Viðmælendur Innherja á fjármálamarkaði segja að í þessu breytta umhverfi, sem einkennist af hækkandi vöxtum til að ná niður sögulega háum verðbólguvæntingum og kólnandi hagkerfi, þá verður erfitt fyrir mörg félög í Kauphöllinni að sýna fram á mikinn afkomubata í rekstrinum á næstunni.
Gylfi Zoega, professor í hagfræði og nefndarmaður í peningastefnd Seðlabankans, lét hafa það eftir sér í viðtali um helgina að nú þegar lágvaxtatímabilið væri að renna sitt skeið á enda tæki við nýtt umhverfi og við myndum líklega sjá „leiðréttingu“ á eignamörkuðum á næstu tólf mánuðum.
Spurður um þau ummæli Gylfa og hvort það megi því vænta enn meiri verðlækkana í Kauphöllinni á næstunni samtímis frekari vaxtahækkunum þá segir Eggert hjá Kviku eignastýringu að hann „geti ekki betur séð en að markaðir séu nokkuð framsýnir, að minnsta kosti hvað snertir hlutabréf og skuldabréf.“
„Fjárfestar hafa verðlagt inn vaxtahækkanir og aðra óvissuþætti í gengi hlutabréfa, enda hefur talsverð verðleiðrétting nú þegar átt sér stað á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. Nasdaq-vísitalan hefur lækkað um 25 prósent á árinu og heimsvísitala hlutabréfa um 17 prósent. Meðaltalsbreyting á 10 ára ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa í heiminum nemur um 150 punktum á árinu. Óvissa er vissulega enn til staðar hver þróunin verður í Úkraínu, hvernig tekst að koma aðfangakeðjum í eðlilegra horf, ekki síst þegar horft er til Kína, og eins hvernig þróun alþjóðavæðingar í viðskiptum verður á næstu árum,“ að sögn Eggerts.
Að hans mati munu nokkur atriði styðja við íslenskan hlutabréfamarkað horft fram á veginn, hvað svo sem eigi eftir að gerast í heimsbúskapnum.
„Í fyrsta lagi er rekstur og efnahagur kauphallarfélaga í góðum málum. Rekstur þeirra verður ágætur á árinu þegar horft er til þeirra uppgjöra sem við höfum séð á fyrsta ársfjórðungi. Fjármálafyrirtæki, fasteignafélög og smásölufyrirtæki ættu að njóta góðs af auknum efnahagsumsvifum og mikil eftirspurn er eftir afurðum útgerðarfélaganna. Bókunarstaða flugfélaganna lítur vel út fyrir árið þótt hátt olíuverð setji vissulega strik í reikninginn. Marel hefur verið í mótvindi en ef marka má orð stjórnenda félagsins þá mun framlegð batna þegar líða tekur á árið. Félagið hefur einnig farið í athyglisverða yfirtöku sem mun styðja við metnaðarfull vaxtaráform. Verðlækkanir að undanförnu hafa því lækkað verðkennitölur fyrirtækja,“ útskýrir Eggert.
Þá nefnir hann einnig að talsvert geta sé enn fyrir hendi fyrir mörg skráð félög til að koma út fjármunum til hluthafa í gegnum arðgreiðslur og endurkaup. Vísar hann þar meðal annars til bankanna sem séu enn að reka sig á háum eiginfjárhlutföllum. Þannig kom fram í síðasta árshlutauppgjöri Arion að bankinn væri með umfram eigið fé upp á tæplega 19 milljarða á meðan stjórnendur Íslandsbanka meta umfram eigið fé bankans vera á bilinu 35 til 40 milljarða.
Fjárfestar hafa nú þegar verðlagt inn vaxtahækkanir og aðra óvissuþætti í gengi hlutabréfa, enda hefur talsverð verðleiðrétting nú þegar átt sér stað á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum.
Að sögn Eggert þá er einnig margt sem bendir til þess að vægi erlendra fjárfesta á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði muni vaxa á komandi misserum. „Þeir horfa til þess að íslenski hlutabréfamarkaðurinn er kominn inn í flokk nýmarkaðsríkja og frekari uppfærsla gæti verið í kortunum á næstu árum. Þá hafa erlendir sjóðir verið að horfa til vaxtamunarviðskipta á skuldabréfamarkaði.“
Innherji greindi þannig frá því í morgun að BlueBay Asset Management, eitt stærsta sérhæfða skuldabréfastýringarfélag Evrópu, hefði fyrir um mánuði keypt 20 ára löng óverðtryggð ríkisskuldabréf í útboði Lánamála ríkisins fyrir 20 milljarða króna. Kaupin knúðu Seðlabanka Íslands til þess að stíga inn á gjaldeyrismarkaðinn og kaupa gjaldeyri fyrir álíka upphæð.
Í fréttabréfi sem Mark Dowding, yfirfjárfestingastjóri BlueBay, sendi á viðskiptavini félagsins í síðustu viku sagði meðal annars: „Horft fram á veginn sjáum við Ísland sem AAA land og, með því að skoða sparnaðarþróun og fjölda annarra mælikvarða, setjum við fram þá skoðun að landið geti í framtíðinni orðið þekkt sem Sviss norðursins.“
Við kaup Bluebay á ríkisbréfaflokknum RB42 stækkaði eignarhald erlendra sjóða á íslenskum ríkisbréfum um nærri helming. Hlutdeild þeirra er hins vegar aðeins um sex prósent af öllum útistandandi skuldabréfum íslenska ríkisins sem er afar lágt hlutfall í samanburði við önnur lönd.
Í september næstkomandi mun íslenski hlutabréfamarkaðurinn færast upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets) hjá vísitölufyrirtækinu FTSE sem mun setja skráð félög hér á landi í sigti marfalt stærri hóps erlendra fjárfestingarsjóða.
Umfang sjóða sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við nýmarkaðavísitölur er margfalt meira en þeirra sem fylgja vaxtarmarkaðsvísitölum. „Þetta snýst ekki einungis um vísitölusjóði – þá erum við líklega að tala um nokkra tugi milljarða – heldur einnig um virka fjárfesta, bæði þá sem sérhæfa sig í fjárfestingum á nýmörkuðum og þá sem einfaldlega sjá flokkun FTSE sem merki um að íslenski markaðurinn sé á réttri leið,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar í samtali við Innherja í síðasta mánuði.
Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8. hæð
105 Reykjavík
Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending
Vefur Akta notar vafrakökur til að safna upplýsingum um umferð á vefnum til að bæta upplifun notenda og vegna auglýsingabirtinga. „Nánar um vafrakökur“.
Í LAGI