15. nóvember 2023
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Fannars Arnar Arnarssonar sjóðstjóra hjá Akta í tengslum við umfjöllun sína um vaxtavæntingar á Íslandi.
Væntingar um vaxtatoppinn „klárlega að koma niður“ vegna óvissunnar
Jarðhræringar og óvissan um framvindu mála á Reykjanesskaga hafa slökkt í öllum væntingum skuldabréfafjárfesta um mögulega vaxtahækkun þegar peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku. Ávöxtunarkrafa styttri ríkisskuldabréfa hefur lækkað skarpt síðustu daga samtímis því að undirliggjandi raunvextir eru að koma niður, að sögn sjóðstjóra á markaði, en útlit er fyrir að fjármögnunarþörf ríkissjóðs eigi eftir að aukast talsvert frá fyrri áætlun vegna meiri hallareksturs.
„Það má segja að jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafa gert það að verkum að markaðurinn telur nú að Seðlabankinn hækki í það minnsta ekki vexti í komandi viku,“ segir Fannar Örn Arnarson, sjóðstjóri skuldabréfa hjá Akta, við Innherja. Vöxtum Seðlabankans var haldið nokkuð óvænt óbreyttum í 9,25 prósentum við ákvörðun peningastefnunefndar í byrjun síðasta mánaðar.
Krafan á ríkisbréf lækkaði umtalsvert í viðskiptum á skuldabréfamarkaði í gær – mest um liðlega 20 punkta á stuttum óverðtryggðum bréfum – og bendir Fannar Örn á að fjárfestar séu núna að verðleggja inn í vaxtaferilinn um 0,5 prósentum lægri skammtímavexti en í upphafi þessa mánaðar, og bætir við: „Markaðurinn er því að gera ráð fyrir meiri vaxtalækkunum á næstu tveimur árum en áður.“
Þegar ávöxtunarkrafa skuldabréfa lækkar þá hækkar verð bréfanna, og svo öfugt.
Gunnar Örn Erlingsson, skuldabréfamiðlari hjá Arion banka, tekur í svipaðan streng og segir ljóst að vextir verði ekki hækkaðir síðar í þessum mánuði.
„Framvindan verður hins vegar bara að koma í ljós og hvort gripið verður til vaxtalækkana ef hagvaxtarhorfum er ógnað verulega – en við erum ekki komin á það stig. Seðlabanki Íslands er á verðbólgumarkmiði og því er er kannski ágætt að anda með nefinu með slíkar vangaveltur í bili,“ segir hann spurður hvort það sé styttra í vaxtalækkunarferlið en áður var talið.
„Ef allt fer í klessu, þá er það sennilegt – en ef ekki þá verður Seðlabankinn eftir sem áður að horfa á meginmarkmið sitt um að tryggja verðstöðugleika,“ en tólf mánaða verðbólgan mælist nú 7,9 prósent eftir að hafa lækkað lítillega milli mánaða.
Þá rifjar Gunnar Örn upp að frá síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar hefur bæði verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði sem og fimm ár eftir fimm ár hækkað um rúmlega 20 punkta og gengi krónunnar hefur sömuleiðis veikst um liðlega fimm prósent. Peningastefnunefnd bankans sé því í nokkuð snúinni stöðu.
„En auðvitað á óvissan á Reykjanesi drjúgan þátt í þeim hreyfingum á markaði. Ég held því að þau hljóti að staldra við í ljósi stöðunnar, enda munar nú um minna þegar heilu fjögur þúsund manna bæjarfélagi sem leggur mikið af mörkum til verðmætasköpunar í landinu er skyndilega kippt út af vinnumarkaði auk óvissu með stóra vinnustaði, eins og orkuverið við Svartsengi og Bláa lónið. Það kann því að fara svo að minni spenna verði á vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamningalotunnar og því hóflegri samningar framundan sem ógna síður verðstöðugleika.“
Valdimar Ármann, skuldabréfasérfræðingur og forstöðumaður eignastýringar hjá Arctica Finance, segir óumdeilt að staðan sé í senn flókin og erfið. Síðasta verðbólgumæling í lok október hafi verið með þeim hætti að hún krafðist ekki frekari vaxtahækkana hjá Seðlabankanum, að hans mati, og vaxtahækkunarferlið var því að toppa í 9,25 prósent. Núna séu hins vegar að bætast við jarðhræringar með margvíslegum sviðsmyndum og erfitt að henda reiður á hvað muni gerast, hvenær, hvernig og hvaða afleiðingar það mun hafa – eða þá hvort nokkuð meira muni gerast yfirhöfuð.
„Núverandi staða og óvissa ýtir samt undir það að Seðlabankinn haldi vöxtum óbreyttum á næsta fundi og það er kannski verðaðlögunin sem er að eiga sér stað á markaðnum í vikunni. Ég er ekki svo viss um að það sé verið að verðleggja endilega að það sé mikið styttra í fyrstu vaxtalækkun en væntingar um vaxtatoppinn eru klárlega að koma niður, enda eru það ekki verðbólguvæntingar sem eru að lækka heldur undirliggjandi raunvextir,“ útskýrir Valdimar í samtali við Innherja.
Hann bætir hins vegar við að það sé nánast ómöguleiki að verðleggja núverandi stöðu með almennilegum hætti, óvissan sé einfaldlega of mikil.
„Líklega sé þó einhver flótti í öruggan faðm skuldabréfanna, en horft til lengri tíma þá er hallarekstur ríkissjóðs að fara að aukast næstu misseri. Bæði vegna byggingu varna og svo umtalsvert ef mikið tjón verður vegna eldgosa sem þýðir þá meiri útgáfuþörf en áður var talið, en til viðbótar ríkir meðal annars töluverð óvissa um áhrifin á hagkerfið.“
Alþingi samþykkti að kvöldi mánudags frumvarp um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga sem kveður á um byggingu varnargarða við orkuver HS Orku í Svartsengi. Kostnaðurinn er áætlaður um 2,5 milljarðar króna sem á að fjármagna með skattlagningu á brunabótamati allra fasteigna næstu þrjú árin. Þá áformar ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp sem felur í sér aðgerðir, sambærilegar þeim sem gripið var til á tímum faraldursins, sem miða að því að ríkið muni tímabundið greiða hluta af launum starfsfólks í Grindavík.
Spurður frekar um þróunina síðustu daga á skuldabréfamarkaði með hliðsjón af jarðhræringunum á Reykjanesskaga þá segir Gunnar Örn hjá Arion banka að á óvissutímum þá leiti fjárfestar í stutt skuldabréf með litla vaxtanæmni. Þar sé öryggið að finna á skuldabréfamarkaðnum. Heilt yfir hafa verðtryggð ríkisskuldabréf á síðustu dögum lækkað um 15 til 25 punkta og þau stystu mest, en aðeins stuttu óverðtryggðu bréfin hafa lækkað í kröfu – RIKB 25 mest, eða um 45 punkta – meðan löngu óverðtryggðu hafa hækkað lítið eitt í kröfu.
„Ef við teiknum upp svartsýnustu sviðsmyndir þá höfum við í rauninni ekki hugmynd um hvað þær þýða fyrir fjármögnunarþörf ríkissjóðs næstu árin svo það felst sennilega seint öryggi í að kaupa löng bréf – þess vegna eru fyrstu viðbrögð fjárfesta að kaupa stuttu bréfin. Rætist þær og hagvaxtarhorfum til skamms tíma yrði ógnað má því gera ráð fyrir vaxtalækkunum en meiri útgáfu ríkissjóðs, svo niðurhallandi ríkisbréfaferill eins og við höfum í dag gæti allt eins orðið upphallandi þegar fram í sækir, fari svo,“ útskýrir Gunnar Örn.
Þegar Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ári um miðjan september þá var gert ráð fyrir um 46 milljarða halla á heildarafkomu ríkissjóðs. Það jafngildir um einu prósent af landsframleiðslu – en á þann mælikvarða hefur afkoman ekki verið betri frá 2018.
Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8. hæð
105 Reykjavík
Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending
Vefur Akta notar vafrakökur til að safna upplýsingum um umferð á vefnum til að bæta upplifun notenda og vegna auglýsingabirtinga. „Nánar um vafrakökur“.
Í LAGI