11. mars 2020
Áhættufælni hefur rokið upp á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum síðustu vikur í kjölfar hraðrar útbreiðslu kórónaveirunnar. Heimshlutabréfavísitalan hefur lækkað skarpt, olíuverð hrunið og ávöxtunarkrafan á bandarísk ríkisskuldabréf hefur hrapað niður á áður óþekktar slóðir. Seðlabankar og ríkisstjórnir hamast nú við í orði og verki að sporna gegn versnandi fjármálalegum skilyrðum og draga úr því þunga efnahagshöggi sem er orðið óhjákvæmilegt af sökum veirunnar.
Til að gera sér grein fyrir skalanum á þessu höggi er vert að hafa tvennt í huga. Fyrir það fyrsta þá hefur Alþjóða efnahags- ogframfarastofnunin (OECD) fært heimshagvaxtarspá sína í 1,5% úr 2,9% fyrir 2020 ef kórónaveiran breiðist frekar út og í öðru lagi þá lækkaði seðlabanki Bandaríkjanna stýrivexti um 0,5 prósentur á neyðarfundi í síðustu viku. Horfur fyrir heimsbúskapinn hafa því ekki verið verri síðan 2009 og bandaríski seðlabankinn hefur að sama skapi ekki haldið neyðarfund síðan í október 2008. Markaðsaðilar búast einnig við frekari vaxtalækkunum upp á 0,75 prósentur frá seðlabanka Bandaríkjanna í næstu viku.
Ytri efnahagsleg skilyrði Íslands hafa því gjörbreyst á skömmum tíma og magna nú upp þær veiku horfur sem Seðlabankinn setti fram í efnahagsspá sinni í byrjun febrúar. Þótt áhrif kórónaveirunnar gætu reynst tímabundin er ljóst að hagvaxtarhorfur hafa versnað verulega. Íslensk ferðaþjónusta mun finna fyrir þessum versnandi ytri skilyrðum en allt bendir til hríðminnkandi ferðabókana um allan heim þar sem heimsvísitala greinarinnar er nú í lægstu gildum sem hafa mælst síðan í byrjun árs 2011. Vandinn hérlendis er að ferðaþjónustan vegur þungt í þjóðarbúskapnum og vel umfram það sem þekkist í nágrannalöndum okkar en samkvæmt Alþjóðaferðamálaráðinu vegur greinin að fullu (bein og óbein áhrif) um 32,5% af vergri landsframleiðslu en einungis um 9,0% á Norðurlöndunum.
Auk þessara ytri áhrifa má ætla að fjölgun innanlandssmita á kórónaveirunni muni draga úr einkaneyslu og valda skörpum lækkunum á væntingum íslenskra neytenda og fyrirtækja. Vert er að minnast á að neytendur hérlendis höfðu ekki verið svartsýnni í sex ár í febrúar. Fyrirtæki hafa sömuleiðis sýnt þverrandi áhuga á að bæta við sig starfsfólki að undanförnu og líklegt er að sú þróun haldi áfram inn í sumarið.
Samstilltur skellur blasir því við þar sem að ytra og innra byrði hagkerfisins virðast á leið í tímabundið frost og ekki er hægt að útiloka langvarandi áhrif á efnahagslífið. Gera má ráð fyrir að framleiðsluslakinn aukist verulega næstu misseri.
Óháð aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr væntum efnahagserfiðleikum þarf einnig að nýta hefðbundin stýritæki Seðlabankans. Auðveldara mun reynast að vinda ofan af kröftugum og fyrirbyggjandi vaxtalækkunum ef þær reynast of skarpar þegar fram í sækir heldur en að missa frá sér hraðbreytanlegar aðstæður vegna ofurvarkárni. Ekki má heldur útiloka að hlutlausir raunvextir séu verulega lægri en nú er áætlað og hærra óvissustig gæti verið að þrýsta þeim enn neðar.
Auk þess er töluvert svigrúm fyrir veikari krónu að örva fjármálaleg skilyrði án þess að valda óvelkomnu verðbólguskoti vegna traustrar kjölfestu verðbólguvæntinga, hríðlækkandi olíuverðs og þess mikla framleiðsluslaka sem nú er að myndast. Tempruð lækkun á nafngenginu er sá flötur miðlunarferlis peningastefnunnar sem líklegast mætir minnsta viðnáminuum þessar mundir og má hafa í huga að raungengið er enn um 8,5 prósentustigum yfir meðaltali síðasta aldarfjórðungs og hefur staðið óbreytt síðan í lok 2018.
Efnahagslegar aðstæður innanlands og erlendis eru þannig að versna hratt og þörf er á frekari aðgerðum til að vinna gegn væntu höggi á útflutningsgreinarnar og innlenda eftirspurn. Þessi samstillti skellur reynist síðan vonandi tímabundinn. Ef svo er þá yrði hagkerfið á ágætis stað síðar á árinu með vind í seglin frá lágu olíuverði og bættum fjármálalegum skilyrðum ef rýmið til vaxtalækkana verður nýtt af krafti.
Grein eftir Birgi Haraldsson sem birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 11. mars 2020.
Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8. hæð
105 Reykjavík
Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending
Vefur Akta notar vafrakökur til að safna upplýsingum um umferð á vefnum til að bæta upplifun notenda og vegna auglýsingabirtinga. „Nánar um vafrakökur“.
Í LAGI