7. nóvember 2022
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Birgis Haraldssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við umfjöllun sína um verðbólguhorfur á Íslandi.
Telja að verðbólga taki ekki á rás þrátt fyrir óvænta þróun í dag
Verðbólga mældist yfir spám greinenda í október. Sérfræðingar á markaði telja að líklega hafi verðbólgan toppað í sumar og horfa til þess að hún fari hjaðnandi á næstu mánuðum. Sjóðstjóri segir að stóra spurningin fyrir Seðlabankann sé hversu hratt hún gangi til baka.
Vonir standi til að ekki þurfi að hækka stýrivextir frekar en ef verðbólgumælingar næstu mánaða valdi vonbrigðum verði Seðlabankinn að grípa inn í og hækka vexti. Niðurstöður komandi kjarasamninga skipti miklu máli þar um.
Hagstofan greindi frá því í morgun að verðbólga mæld yfir eitt ár hafi aukist úr 9,3 prósentum í september í 9,4 prósent í október. Það sem einkum hækkaði meira en búist var við voru matvæli. Munar þar mestu um mikla hækkun á lambakjöti sem hækkaði um 16 prósent í mánuðinum sem leiddi til 0,09 prósenta hærri verðbólgu. Verðbólgan náði hámarki í júlí þegar hún var 9,9 prósent en hefur farið lækkandi síðan þótt það hafi komið eylítið bakslag nú.
Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance, segir að vonir standi til þess að árstaktur verðbólgu haldi áfram að hjaðna á næstu mánuðum. Að öllum líkindum hafi árstakturinn „toppað“ í sumar. Það taki mögulega lengri tíma en vonast var til að kólnandi fasteignamarkaður leggi sitt af mörkum til lægri verðbólgu með myndarlegum hætti.
Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta, bendir á að innlent verðlag fyrir utan húsnæði hækkaði milli mánaða. Árstakturinn sé um átta prósent í dag sem sé með hæstu gildum sem sést hafi fyrir þennan lið á undanförnum tíu árum. „Innlendur verðþrýstingur er enn þá mikill og nær langt út fyrir húsnæðismarkaðinn,“ segir hann.
Hann segir að eftir mildar verðbólgutölur í ágúst og september hafi mælingin í október verið „bakslag fyrir skuldabréfamarkaðinn“.
Ingólfur Snorri Kristjánsson, forstöðumaður skuldabréfastýringar hjá Íslandsjóðum segir að viðbrögðin á markaði hafi verið á þá vegu að verðbólguálagið hafi hækkað á markaði, óverðtryggð skuldabréf seld og verðtryggð keypt.
Birgir segir að ekki megi líta framhjá því að verðbólguskotið í október - 0,37 prósent umfram 10 ára meðaltal - sé mun vægara en var á fyrri hluta ársins. Þá hafi mánaðarleg verðbólga verið um 0,78 prósent hærra en sem nemi tíu ára meðaltali.
„Samtímis hefur margt breyst hvað varðar erlenda verðbólguþætti, svo sem röskun á virðiskeðjum hefur gengið að miklu leyti tilbaka og hrávöruverð komið til baka,“ segir hann og vekur athygli á að það dragi úr hagvexti á heimsvísu.
„Við höfum því að öllum líkindum séð það versta í þessum verðbólgukúf,“ segir Birgir, „en hversu hratt hann gengur tilbaka er stóra spurningin fyrir Seðlabankann og þar skipta niðurstöður komandi kjarasamninga einnig miklu máli,“ segir Birgir. Vonir standi til að stýrivextir þurfi ekki að hækka frekar en ef verðbólgumælingar næstu mánaða valdi vonbrigðum sé ljóst að Seðlabankinn muni þurfa að grípa til þess að hækka stýrivexti.
Ingólfur Snorri segir að þrátt fyrir að verðbólgan í október hafi mælst yfir spám breytir það ekki „okkar sýn“ að verðbólgan komi til með að hjaðna á komandi mánuðum. „Við erum áfram að sjá vísbendingar um fasteignamarkaðurinn sé að kólna nokkuð hratt en tímatöf getur valdið því að það komi seinna inn í tölur Hagstofunnar,“ segir hann.
Valdimar segir að vaxandi verðbólguvæntingar að undanförnu, en þær hafa hækkað um 0,3 prósent, ættu að valda Seðlabankanum áhyggjum. Mögulega verði það til þess að „hann þurfi að stíga inn með eina vaxtahækkun í viðbót“ upp á 0,25 prósentustig. „Allavega hafa líkur á því aukist,“ segir hann.
Hann bendir á að framhaldið ráðist einfaldlega af þróun verðbólgunnar eins og Seðlabankinn hafi gefið sterklega til kynna. „Mögulega spilar inn í verðþróunina á markaðnum að hann er hálf laskaður í kringum óvissuna um uppgjör á íbúðabréfunum og gæti það ýkt sveiflur á markaðnum, það má benda á að veltan á bakvið þessar miklu breytingar á verðbólguálagi er ekki mjög mikil,“ segir Valdimar.
Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8. hæð
105 Reykjavík
Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending
Vefur Akta notar vafrakökur til að safna upplýsingum um umferð á vefnum til að bæta upplifun notenda og vegna auglýsingabirtinga. „Nánar um vafrakökur“.
Í LAGI