14. desember 2022
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Birgis Haraldssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við umfjöllun sína um verðbólguþróun á heimsvísu.
Eftir þungt ár er farið að rofa til varðandi verðbólguhorfur erlendis
Eftir þungt ár er farið að rofa til varðandi verðbólguhorfur erlendis. Bandaríski Seðlabankinn er því kominn nær endastöð þegar litið er til vaxtahækkana. Almennt eru betri verðbólguhorfur erlendis jákvæðar fyrir vöruverðbólgu á Íslandi en veiking krónunnar síðustu mánuði vinnur gegn þessari þróun að einhverju leyti, segir sjóðstjóri hjá Akta.
Verðbólga í Bandaríkjunum og í Bretlandi lækkaði í nóvember meira en greinendur gerðu ráð fyrir, eins og erlendir fjölmiðlar hafa greint frá í dag og í gær.
Annar sjóðstjóri, sem vill ekki láta nafn síns getið, segir að verðbólgutölur í Bandaríkjunum í gær hafi verið jákvæðar að því leyti að þær styðja við þá röksemdarfærslu sem sumir á markaði hafi fært fram um að vaxtahækkunarferlið þar í landi fari senn að ljúka; stýrivextir muni hækka um 0,5 prósentustig í dag og verði við það 4,5 prósent og hækki um 0,25 prósentustig í febrúar.
Verðbólga í Bandaríkjunum lækkaði úr 7,7 prósentum í 7,1 prósent á milli mánaða og hefur ekki verið lægri síðan í desember í fyrra. Greinendur spáðu því að hún yrði 7,3 prósent. Í kjölfarið hækkuðu hlutabréf því fjárfestar væntu þess að Seðlabanki Bandaríkjanna myndi ekki þurfa hækka stýrivexti jafn mikið til að koma böndum á verðbólguna.
Verðbólga í Bretlandi hafði ekki verið hærri í 41 ár í síðasta mánuði þegar hún var 11,1 prósent. Hún lækkaði í 10,7 prósent í nóvember. Greinendur höfðu spáð að verðbólgan yrði 10,9 prósent. Lækkunina má meðal annars rekja til lægra eldsneytisverðs.
Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta, segir að einfaldast sé að greina verðbólgutaktinn í Bandaríkjunum með því að skipta vísitölu neysluverðs upp í vöru- og þjónustuliði. „Þannig má sjá að vöruverðbólga er að koma hratt niður frá sögulega háu gildum á miðju þessu ári og sömuleiðis er þjónustuverðbólgan farin að missa skriðþungann. Auk þessa má ætla að kólnun húsnæðismarkaðar í Bandaríkjunum fari að skila sér af meiri krafti til lækkunar á taktinum í þjónustuverðbólgunni á næsta ári. Það eru því ágætis líkur á því að verðbólgan haldi áfram að snúa hratt til baka næsta árið í áttina að tveggja prósenta verðbólgumarkmiðinu og að kjarnaverðbólga komi töluvert niður sömuleiðis,“ segir hann í samtali við Innherja.
Birgir segir að bandaríski seðlabankinn sé því kominn nær endastöð þegar litið er til vaxtahækkana. Líklegt sé að stýrivextir fari ekki yfir fimm prósent. „Þetta mun hjálpa skuldabréfum að ná vopnum sínum eftir sögulega þungt ár og að sama skapi styðja við hlutabréf. Hins vegar mun líkleg lækkun á hagnaðarvæntingum fyrirtækja samhliða versnandi efnahagshorfum ráða meira til um framþróun hlutabréfa næstu misserin og eru frekari lækkanir á hlutabréfum líklegar næstu mánuði,“ segir hann.
Annar sjóðstjóri segir að jafnvel þótt verðbólgutölur í Bandaríkjunum í gær hafi verið örlítið undir lægri en reiknað var með þá skipti það ef til vill ekki öllu í stóra samhenginu. Stóra myndin sé að vextir hafi farið hækkandi sem hafi kælandi áhrif, til dæmis á húsnæðismarkaðinn og eftirspurn. „Aðfangakeðjur hafa verið að lagast. Þrátt fyrir að verð á flestum hrávörum séu sögulega há þá hafa þau verið að lækka síðustu vikur og mánuði sem einnig hefur kælandi áhrif á verðbólgu,“ segir hann.
Alla jafna ætti það að hafa jákvæð áhrif á bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði að verðbólga sé að hjaðna og það sjái fyrir endann á vaxtahækkunarferli. Það eru þó fleiri þættir sem þarf að huga að, vekur sjóðstjórinn athygli á, til dæmis hvaða áhrif hefur minnkandi eftirspurn á sjóðstreymi fyrirtækja? Eru tekjur þeirra að fara að lækka/standa í stað og framlegðarstig að dragast saman?
„Ef spá sumra á markaði um efnahagslægð í Bandaríkjunum á næstunni nær fram að ganga þá er ekki ósennilegt að það bitni á rekstri fyrirtækja. Það er augljóslega neikvætt fyrir hlutabréf og þá þarf að taka tillit til þess,“ segir hann.
Hvað varðar skuldabréfamarkaði, segir sjóðstjóri, þá er það mjög jákvætt að vextir á styttri endanum hætti fljótlega að hækka og byrji jafnvel að lækka enda hefur ávöxtunarkrafa á tíu ára ríkisskuldabréfum í Bandaríkjunum lækkað undanfarið um sirka 0,75 prósentustig frá því hún fór sem hæst í október. „Þetta er því jákvæð þróun fyrir þann markað,“ segir hann.
Að hans sögn er fyrirtækjaskuldabréfamarkaður erfiðari þar sem það þarf að taka tillit til álags á ríki og það gæti aukist þegar stefnt er í efnahagslægð. Sömu eða svipuð lögmál gilda um Bretland sem er þó kannski hálfu ári á eftir Bandaríkjunum í sinni baráttu við verðbólgu.
„Ísland er svo á svipuðum stað og Bandaríkin,“ segir sjóðstjórinn og nefnir að að svo virðist sem vaxtahækkanir hér séu að kæla fasteignamarkaðinn þó eftirspurnin sé enn sterk, hvað svo sem síðar verður. „Þó verður að hafa í huga að hagvöxtur á Íslandi er meiri en í hinum hagkerfunum báðum og litlar sem engar líkur á að hér verði efnahagslægð á næstunni,“ segir hann.
Birgir segir að almennt betri verðbólguhorfur erlendis jákvæðar fyrir vöruverðbólguna á Íslandi - telur um 45 prósent í vísitölu neysluverðs - en veiking krónunnar síðustu mánuði vinnur gegn þessari þróun að einhverju leyti. „Síðan snýst þetta meira um það sem má kalla innlendu liðina,“ segir hann og nefnir að húsnæðismarkaðurinn hafi 25 prósenta vægi og þjónustuverðbólga 30 vægi.
Verðbólga mældist 9,3 prósent í nóvember sem er „enn umtalsvert“ fyrir ofan 2,5 prósenta verðbólgumarkmiðið. „Það er hætt við því að verðbólgan gangi hægt niður hérlendis nema annar hvor þessara innlendu liða nái að snúa taktinum verulega til hins betra á næstu misserum og er það húsnæðismarkaðurinn sem er helsta vonin þar,“ segir Birgir.
Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8. hæð
105 Reykjavík
Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending
Vefur Akta notar vafrakökur til að safna upplýsingum um umferð á vefnum til að bæta upplifun notenda og vegna auglýsingabirtinga. „Nánar um vafrakökur“.
Í LAGI