17. apríl 2024
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Fannars Arnar Arnarssonar sjóðstjóra hjá Akta í tengslum við umfjöllun sína um nýlega fjármálaáætlun.
Við fyrstu sýn er ekki hægt að segja að tiltrú fjárfesta á að ríkið sé að styðja við peningastefnu Seðlabankans muni aukast við þessa fjármálaáætlun, segir sjóðstjóri skuldabréfa sem telur að það gæti farið svo beðið verði með að lækka stýrivexti fram á næsta ár í ljósi þess hve lítið aðhald er í ríkisfjármálum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í gær fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029. Halli verður á rekstri ríkissjóðs á næstu þremur árum; hann verður 49 milljarðar í ár en dregst saman í níu milljarða árið 2027. Árið 2028 er stefnt á þriggja milljarða afgang á rekstri ríkissjóðs. Áður var gert ráð fyrir því að hallinn í ár yrði 48 milljarðar króna en það yrði fjögurra milljarða afgangur árið 2028.
Samkvæmt kynningu á áætluninni nema útgjöld í ár vegna aðgerða vegna Grindavíkur 17 milljörðum króna og tólf milljarða til að liðka fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði með auknum stuðningi við heimili.
„Því miður tel ég að ríkisstjórnin hafi undanfarin ár tapað mikið af trúverðugleika sínum meðal fjárfesta með ítrekuðum yfirlýsingum um aukið aðhald sem hefur síðan aðeins raungerst í mýflugumynd. Ég þekki ekki þessar hagfræðikenningar sem að ríkisstjórnin styðst við sem lætur hana halda að hún sé að styðja við peningastefnuna með þessum stöðuga hallarekstri í uppsveiflu,“ segir Fannar Örn Arnarsson, sjóðstjóri innlendra skuldabréfasjóða Akta, í samtali við Innherja.
Hann bendir á að verðbólgan hafi verið yfir markmiði, en það er 2,5 prósent, í fjögur ár og að ríkið að hafi verið rekið með halla yfir allt það tímabil óháð hvar í hagsveiflunni landið sé. „Samkvæmt fjármálaáætlun er síðan stefnt að því að reka ríkið með halla næstu fimm ár í viðbót. Þetta er auðvitað áhyggjuefni og maður óttast, því miður, að vaxtalækkanir gætu þurft að bíða allavega fram á næsta ár fyrst aðhaldið er ekki meira.“
Verðbólga mældist 6,8 prósent í mars en var 10,2 prósent í febrúar á síðasta ári. Í nýrri skammtímaspá Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er áætlað að verðbólgan muni lækka lítillega á árinu og verði að meðaltali um 5,6 prósent. Spáin leit dagsins ljós áður en fjármálaáætlun var kynnt.
Stýrivextir eru 9,25 prósent. Hinn 20. mars hélt Peningastefnunefnd Seðlabankans vöxtum óbreyttum fjórða fundinn í röð. „Undirliggjandi verðbólga hefur einnig hjaðnað en er líkt og mæld verðbólga enn vel yfir verðbólgumarkmiði. Verðbólguvæntingar eru einnig yfir markmiði sem gæti bent til þess að verðbólga verði áfram þrálát,“ sagði í yfirlýsingu hennar.
Í fjármálaáætlun eru boðaðar ýmsar sértækar aðgerðir til að draga úr útgjaldavexti en áætlað er að aðgerðir vegna nýgerðra kjarasamning a kosti 13 til 23 milljarða á ári. Það á til dæmis að fresta eða fella niður verkefni sem ekki eru hafin. Fresta á nýrri viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið og einnig byggingu húss viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu fram yfir lok tímabilsins. Endurskoða á forsendur og fjárveitingar vegna kerfislægs vaxtar. Stefnt er á sameiningu og fækkun stofnana eða útvistun verkefna
„Það eru umtalsverðar eignir á efnahagsreikningi ríkissjóðs sem eru tækifæri til að nýta mun betur. Ríkissjóður er eigandi að 47 félögum sem höfðu samtals um þúsund milljarða í eigið fé í árslok 2022. Ríkissjóður er eigandi að um 900 fasteignum með heildarfermetrafjölda upp á 950 þúsund fermetra og ríflega 400 jörðum. Bókfært virði þessara eigna er um 312 milljarðar. Til viðbótar á ríkissjóður talsvert af lóðum, spildum og auðlindum víðs vegar um landið,“ sagði Sigurður Ingi þegar fjármálaætlun var kynnt. Sjónum yrði einkum beint að þróunarreitum sem tilheyri ríkinu.
Hann vakti athygli á að verðmætustu reitir undir íbúðabyggð væru til dæmis Keldnaland, Borgartúnsreitur, Laugarnesreitur, Seljavegur og fleiri. Samhliða myndi lóðaframboð aukast og uppbygging íbúðahúsnæðis verði auðveldari.
Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8. hæð
105 Reykjavík
Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending
Vefur Akta notar vafrakökur til að safna upplýsingum um umferð á vefnum til að bæta upplifun notenda og vegna auglýsingabirtinga. „Nánar um vafrakökur“.
Í LAGI