28. október 2020
Tveir veigamiklir þættir gætu litað árangur blandaðra eignasafna með hátt vægi erlendra eigna á næstu misserum. Í fyrsta lagi er það framvindan á þróun bóluefnis gegn COVID-19, en líklega dregur til tíðinda á þeim vettvangi á næstu vikum. Í öðru lagi er það framvindan á gengi krónunnar, en teikn eru á lofti um að styrking á krónunni sé fremur líklegri en veiking þegar horft er inn í næsta ár.
Tímalínan sem markar mikilvæga áfanga í þróun bóluefnis við COVID-19 er orðin stutt og má búast við niðurstöðum úr rannsóknum lyfjafyrirtækjanna Pfizer og Moderna innan skamms. Þetta getur farið á hvorn veginn sem er, en ef niðurstöðurnar lofa góðu er talið líklegt að bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið gefi út neyðarheimild til notkunar þessara bóluefna fyrir árslok. Slíkt myndi hafa mikla þýðingu fyrir heimsbúskapinn þar sem stærstu hagkerfi heims eru enn langt frá fullum afköstum vegna sóttvarnaaðgerða. Íslensk ferðaþjónusta ætti þá einnig von um viðspyrnu á síðari hluta næsta árs ef allt gengi að óskum.
Auk þessara hagvaxtaráhrifa er líklegt að ákveðin umskipti eigi sér stað á erlendum hlutabréfamörkuðum þar sem margvíslegar iðnaðar- og þjónustugreinar sem hafa staðið öðrum að baki á þessu ári myndu sækja í sig veðrið ef það tekst að þróa áhrifaríkt og öruggt bóluefni. Sem dæmi má nefna að hlutabréf fyrirtækja í hótelrekstri, banka, bjórframleiðenda og olíufyrirtækja eru sum hver nálægt sögulega lágum gildum og hlutabréfavísitölur ákveðinna nýmarkaðsríkja eru enn niður um tugprósent á árinu. Í stuttu máli, þá er líklegt að markaðsforystan komi úr nýrri átt á næstu misserum ef bóluefnaþróanir reynast farsælar. Blönduð eignasöfn verða að horfa til þessa þegar kemur að erlendri hlutabréfaeign þeirra.
Þátturinn sem snýr að krónunni er síðan tvíþættur. Annars vegar hefur Seðlabankinn spyrnt kröftuglega á móti frekari gengisveikingu og hins vegar þarf að líta til aðstæðna á innlendum skuldabréfamarkaði út frá alþjóðlegum vinkli ef bóluefni finnst á næstu mánuðum. Óþarft er að efast um stefnu Seðlabankans um að vinna gegn frekari gengisveikingu, en ólíkt þeirri magnlausu íhlutun sem hefur átt sér stað á skuldabréfamarkaði þá hafa inngripin á gjaldeyrismarkaði verið bæði í orði og á borði. Þessi gjaldeyrisstefna ásamt möguleikanum á áhrifaríku bóluefni sem endurræsir íslenska ferðaþjónustu gera sviðsmyndir krónunnar þannig ósamhverfar og hneigðar til styrkingar þegar litið er til næsta árs.
Samhliða þessu hefur nýlegur söluþrýstingur á innlendum skuldabréfamarkaði leitt til þess að verðlagning á langtíma ríkisskuldabréfum er á nýjan leik sambærileg við nýmarkaðsríki með svipað lánshæfismat. Hlutdeild erlendra fjárfesta hefur þá minnkað enn frekar og er líklegast í sögulegu lágmarki eða undir 10% sem er nærri helmingi minni hlutdeild en má finna að jafnaði á innlendum skuldabréfamörkuðum nýmarkaðsríkja. Séð frá sjónarhóli erlendra fjárfesta ætti íslenskur skuldabréfamarkaður þannig að vera aðlaðandi við núverandi aðstæður: möguleg gengisstyrking í kjölfar áhrifaríks bóluefnis, samkeppnishæf verðlagning, lítil þátttaka erlendra fjárfesta og auk þess geta skuldabréfakaup Seðlabankans einungis aukist héðan í frá. Óverðtryggð skuldabréf væru líklegust til að njóta meðbyrs af þessu.
Fjármagnsflæði til landsins gæti því vel aukist á komandi ársfjórðungum í gegnum skuldabréfamarkaðinn ásamt því að innleiðing Íslands inn í MSCI hlutabréfavísitöluna á næsta ári ætti sömuleiðis að auka við innflæðið. Þetta getur þannig magnað upp þá krafta sem nú þegar benda til sterkari krónu. Blönduð eignasöfn með hátt vægi erlendra eigna verða að horfa til þessa og er virk stýring á gjaldeyrisáhættu því að verða enn mikilvægara atriði fyrir slík eignasöfn.
Þáttaskil gætu þannig verið fram undan og af þessum sökum er mikilvægt að fylgjast vel með framvindu bóluefnaþróunar og halda til haga þeim lykilþáttum sem gætu litað árangur blandaðra eignasafna í kjölfarið á næstu ársfjórðungum.
Grein eftir Birgi Haraldsson sem birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 28. október 2020.
https://www.frettabladid.is/skodun/thattaskil-framundan/
Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8. hæð
105 Reykjavík
Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending
Vefur Akta notar vafrakökur til að safna upplýsingum um umferð á vefnum til að bæta upplifun notenda og vegna auglýsingabirtinga. „Nánar um vafrakökur“.
Í LAGI