11. nóvember 2022
Innherji, viðskiptavefur Vísis, leitaði til Davíðs Stefánssonar sjóðstjóra hjá Akta sjóðum í tengslum við nýlega umfjöllun sína um verðbólgutölur í Bandaríkjunum.
„Augu allra“ hafa verið á verðbólgu, einkum í Bandaríkjunum
Íslenski hlutabréf hækkuðu umtalsvert í gær eftir að í ljós kom að verðbólga í Bandaríkjunum var lægri en vænst var. Við það hækkaði hlutabréfaverð umtalsvert í Bandaríkjunum. Þegar mikil óvissa ríkir horfir markaðurinn hér heima í enn meira mæli til þróunar erlendis. Íslenski skuldabréfamarkaðurinn brást hins vegar lítið við tíðundunum frá Bandaríkjunum en það má rekja til þess að framundan eru kjarasamningar, krónan hefur verið að veikjast síðustu misseri og síðasta verðbólgumæling hérlendis olli vonbrigðum.
Þetta segja sjóðstjórar í samtali við Innherja. Verðbólga mældist 7,7 prósent í Bandaríkjunum í október, samkvæmt tilkynningu sem birtist í gær, sem var 0,2 prósentustigum minna en greinendur höfðu gert ráð fyrir.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,56 prósent í gær. Áður en tíðindin bárust var þungt yfir markaðnum en hann hresstist við tíðindin af verðbólgunni vestanhafs.
„Augu allra hafa verið á verðbólgu, sérstaklega í Bandaríkjunum, síðustu misseri,“ segir Sigurður Guðjón Gíslason, forstöðumaður blandaðrar stýringar hjá Íslandssjóðum. „Árstakturinn hefur verið að lækka og allir að bíða eftir vísbendingum um að Seðlabankinn í Bandaríkjunum gefi til kynna að stutt sé í að stýrivextir toppi.“
Davíð Stefánsson, sjóðstjóri hjá Akta, segir að á undanförnum mánuðum hafi verðbólga verið há og í mörgum tilfellum yfir væntingum. Verðbólgu í fyrra megi fyrst og fremst rekja til verðhækkana á vörum samhliða röskunum á virðiskeðjum og mikilli eftirspurn vegna hliðrunar í neyslumynstri og fjárhagslegum stuðningi hins opinbera við neytendur.
Davíð segir að nú sjáist „skýr merki“ um að þessar verðhækkanir séu að ganga að hluta til baka í mörgum flokkum, til dæmis notuðum bílum og raftækjum. „Öfugt við í fyrra þá hefur verðbólgan í ár skrifast að mestu á mat, þjónustu og fasteignaliði vísitölunnar,“ segir hann. Helsta fréttin í gær sé sú að það séu „kraftmeiri verðlækkanir“ á vörum en hingað til og nokkrir þjónustuliðir, til dæmis heilbrigðistryggingar, sem hafi hækkað mikið lækkuðu.
Sigurður Guðjón segir að eftir óvæntar verðbólgutölur í síðasta mánuði - hærri en spár - hafi birst jákvæðari tíðindi í gær. „Markaðurinn bindur greinilega vonir um að nú sjái fyrir endann á verðbólgu og vaxtahækkunum. Ég tel það vera of snemmt þar sem við höfum séð þessar tölur sveiflast í kringum spár þó þróunin sé í rétta átt. Ég held að Seðlabankinn vilji sjá fleiri svona tölur áður en hann snýr við hækkunarferlinu (e. Fed Pivot). Það er enn þá mikil verðbólga,“ segir hann og nefnir að markmiðið sé að ná verðbólgu niður í tvö prósent.
Sigurður Guðjón segir að þegar óvissan sé mikil horfi markaðurinn hérlendis í enn meira mæli til þess sem sé að eiga sér stað erlendis. Erlend þróun ráði „oftar en ekki“ för á hverjum degi. Markaðurinn horfi í minna mæli til uppgjöra innlendra félag, sem heilt yfir hafi verið góð og staða hagkerfisins sterk. „Það má reikna með að þetta samband við erlenda markaði haldi áfram næstu misseri,“ segir hann.
Davíð segir að íslensk hlutabréf hafi hækkað „umtalsvert“ í kjölfar tíðinda af bandarísku verðbólgumælingunni enda hafi fylgnin við erlenda markaði aukist síðustu misseri. Íslensk hlutabréf, fyrir utan einstaka félög svo sem Marel, hafi almennt lækkað minna en erlend hlutabréf. „Sem dæmi má nefna að tvö af þremur stóru íslensku fasteignafélögunum hafa hækkað um tíu prósent á árinu samanborið við 23 prósenta lækkun vísitölu bandarískra fasteignafélaga. Að hluta til hefur ávöxtunarmunur sambærilegra íslenskra og erlendra félaga lokað í mörgum tilfellum gati í hlutfallslegri verðlagningu. Lækkanir og hækkanir erlendis eru því farnar að skila sér í meiri mæli heim enda horfa innlendir fjárfestar til erlendra verðkennitalna,“ segir hann.
Davíð segir að viðbrögð íslenska skuldabréfamarkaðarins við verðbólgumælingunni hafi „verið lítil enda aðstæður“ ef til vill af örðum toga en erlendis. „Framundan eru kjarasamningar, krónan hefur verið að veikjast síðustu misseri og þá olli síðasta verðbólgumæling á Íslandi vonbrigðum,“ segir hann.
Davíð telur að á næstu tólf mánuðum muni verðbólga í Bandaríkjunum lækka á milli ára. „Það þýðir ekki að verðbólgutakturinn muni samræmast markmiðum Seðlabankans,“ bendir hann á. Þættir sem munu styðja við lægri verðbólgu séu munaðarvörur, notaðir bílar og stakir þjónustuliðir svo sem heilbrigðistryggingar. „Á hinn bóginn virðast enn þá vera hækkanir framundan á ýmsum nauðsynjavörum,“ segir Davíð.
Auk þess bendi „allt til þess að húsnæðisliður verðbólgunnar“, sem hafi yfir 30 prósent vægi í vísitölunni og mæli fyrst og fremst leiguverð „byrji að hægja verulega á sér eftir á fyrsta eða öðrum fjórðungi næsta árs,“ segir hann.
Davíð segir að verðbólgan hafi því „náð toppi“ en óvissa hverfist um hvar hún muni „liggja að meðaltali fyrir aftan núverandi topp.“ Slaki í leigumarkaði í Bandaríkjunum gæti fært verðbólguna nálægt því sem við sáum árin fyrir 2010-2019 eða tvö til þrjú prósent en aðrir þættir eins og viðvarandi hátt orkuverð og viðsnúningur í alþjóðavæðingu gætu haldið henni nær þremur til fjórum þegar fram líða stundir.
Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8. hæð
105 Reykjavík
Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending
Vefur Akta notar vafrakökur til að safna upplýsingum um umferð á vefnum til að bæta upplifun notenda og vegna auglýsingabirtinga. „Nánar um vafrakökur“.
Í LAGI